Morgunraunir

Ég var óvenju löt þegar ég fór á fætur í bítið, svo ég hlakkaði virkilega til að hressa mig á morgunkaffinu sem ég fæ mér vanalega strax eftir morgunmatinn. Og ekki var tilhlökkunin minni þegar það rifjaðist upp fyrir mér að eiginmaðurinn átti líka að mæta seinna en vanalega í vinnuna og hafði því skorað á mig í scrabble. En þegar ég kom fram í eldhús, uppgötvaði ég að það var ekki til dropi af sojamjólk. Hefði hugsanlega látið mig hafa "beljulatte" ef þannig mjólk hefði verið til, en svart kaffi drekk ég ekki. Og mig langaði ekki í te þarna í morgunsárið, þó það geti verið gott nálægt hádegi.
Er svo heppin að hellingur af matvöruverslunum er því sem næst á hlaðinu hjá mér og tvær þeirra opnar allan sólarhringinn. Slafraði í mig morgunmatnum í þeirri von að ég fengi smá orku til að fara út í búð eftir sojamjólk. Orkan kom ekki, en ég druslaðist í kraftgallann utan yfir náttfötin, þó að næstum sé komið sumar, - því það er partur af þessu prógrammi að scrabbla og drekka morgunkaffið á náttfötunum. - Og - haldið ykkur fast - ég fór á bílnum (ekki hjólinu) út í Nettó.
Var lengi að leita að "minni" tegund af sojamjólk, en mundi svo eftir því að þeir voru að skipta um umbúðir, svo fernar "mín" er núna grá en ekki blá. Fór heim með gráa fernu, en gretti mig þessi ósköp þegar ég tók fyrsta sopann. Eiginmaðurinn benti mér góðfúslega á að nýju umbúðirnar eru gráar með bláum stöfum en ekki rauðum.
Aftur í kraftgallan - grautfúl - og út í bíl. Þá sló klukkan 9, svo ég fór beint í Krónuna, en þar var ekki ein einasta ferna af Provamel sojamjólk með bláum stöfum - og EKKI HELDUR í 10-11.
Róa sig Laufey, sagði ég við sjálfa mig þar sem ég stóð fyrir framan kælinn í 10-11, - þetta er nett lúxusvandamál - og nú getur þú valið um að kaupa öðruvísi mjólk, eða fara heim og klæða þig og hjóla út á næsta kaffihús. En þá mundi ég eftir því að á kaffihúsinu "mínu" var ekki til sojamjólk í gær, auk þess sem ég var alvarlega innstillt á kaffi+scrabble á náttfötunum. Svo ég valdi G-mjólk og ákvað að búa til cappuchino.
En cappuchinoið var ekki nærri því eins gott og það sem mágur minn lagaði handa mér í fyrrasumar og því síður jafn gott og á franska kaffihúsinu í Kaliforníu í vetur, svo munnvikin lyftust ekki agnarögn meðan ég reyndi að sötra það - og fallega lóðrétta hrukkan milli augnanna var dýpri en nokkru sinni fyrr, - svo eiginmaðurinn sá sitt óvænna og bauð mér á kaffihús, þar sem ég fékk þetta líka fína sojalatte - og tók gleði mína á ný.
Hugsið ykkur bara. - Þessi líka glaðlynda kona sem ég er, - að leggja á sig allt þetta fúllyndi og sjálfsvorkunn, - til þess eins að snapa sér boð á kaffihús.
Ja allt er nú til.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband