Ísafjarðar-trúnó

Scan 76Þegar ég skrifaði annál ársins 2013, kom tengdadóttirin með þá athugasemd, að ég hefði nú líka farið í langar og skemmtilegar ferðir til Ísafjarðar á árinu. Á bak við þá staðreynd er svo tilfinningaþrunginn formáli og meginmál að slíkt krefst sérstakar færslu. Sé hún þá birtingarhæf (sökum persónulegs tilfinningaþrunga).

Ég giftist barn að aldri til Ísafjarðar og bjó þar í 9 ár. Þetta var einstaklega skrautlegur og skemmtilegur tími, enda er maður opnastur fyrir ævintýrum á árunum í kring um tvítugt.

En auðvitað var líka ýmislegt ansi erfitt, eins og gengur og gerist þegar ung og vitlaus móðir reynir af veikum mætti að skapa sér og sínum innihaldsríkt fjölskyldulíf. 

Scan 106Ég hafði alltaf verið afskipt í grunnskóla (sem var í 500 km fjarlægð frá Ísafirði) og tók öngvan þátt í mannlífinu í því plássi, fyrir utan mitt yndislega heimili.

Þegar ég kom vestur fannst mér ég í fyrsta skipti kynnast lífinu. Þar tók ég fullan þátt í mannlífinu og varð meira að segja vinsæl. Ég aðlagaðist algjörlega því sem fyrir var á staðnum. Ákvað að nýja lífið mitt þar vestra væri ekki bara öðruvísi en ég var vön, heldur miklu betra. Gerðist meira að segja gangrýnin á bernskuna mína í stað þess að taka eitt og annað með mér úr mínu frábæra uppeldi.

Scan 21En án þess að gera mér grein fyrir ástæðunum, þá leið mér alltaf illa yfir því hversu slælega mér tókst að uppfylla eigin hugmyndir um gott fjölskyldulíf. 

Í mörg ár eftir að ég flutti suður, leið mér yfirleitt illa þá sjaldan sem ég kom vestur. Og ekki nóg með það, - mér leið alltaf illa á sólríkum sunnudögum, því þeir minntu mig á einhvern undarlegan hátt á það óþægilegasta við líf mitt á Ísafirði (það má gera tilraun til að útskýra það nánar ef þið nennið í trúnó-te á Vesturgötuna).

Ég gerði tvær skelfilegar tilraunir til að heimsækja Ísafjörð um páska ("83 (þá nýflutt suður) og "97). Skelfingin fólst í því að ísfirsku páskarnir margfölduðu upplifun mína af sólríkum sunnudögum (já ég veit þetta hljómar ýkt klikkað).

Nú um síðustu páska gat ég ekki lengur látið hjá líða að kíkja á hina margrómuðu rokkhátið Aldrei fór ég suður, sem einkasonurinn hefur frá upphafi verið potturinn og pannan í.

IMG_0854Fannst ég loksins tilbúin til að taka þátt í fölskvalausri gleðinni, eftir að hafa "unnið í sjálfri mér" árum saman. Þorði þó ekki annað en að taka eiginmanninn með mér, til halds og trausts.

Hún er ólýsanleg tilfinningin sem ég fékk þegar ég labbaði ein út Seljaveginn á sólríkum dymbilvikudegi á leið að sækja eldra ísfirska ömmubarnið í leikskólann, vitandi af eiginmanningum heima með það yngra. Ég horfði yfir bæinn og það helltist yfir mig hugsunin: NÚTÍMINN minn er líka á Ísafirði og hann er BARA GÓÐUR.  

Í júní fór ég svo ein vestur og stoppaði í 10 daga (lengsta stopp síðan "83). Og mér leið BARA VEL annan tímann. Gerði ýmislegt sem er stór hluti af mér og mínum nútíma, en ekki Ísafjarðarárunum. T.d. hjólaði ég Óshlíðina og fram í dal (Hnífsdal) og labbaði upp í Naustahvilft (nei það hafði ég aldrei gert áður). Spilaði slatta á píanóið, eftir eyranu og mér til ánægju. En aðalatriðið var auðvitað að njóta lífsins með ísfirsku fjölskyldunni minni með margvíslegum hætti. 

IMG_0831

Síðasta kvöldið í þeirri ferð upplifði ég svo fyrir undarlega tilviljun aðstæður sem komust eins langt og hægt var í að endurskapa sáru minningarnar mínar, - en þá fann ég svo augljóslega að minningar eru eldgömul þátíð, sem hefur nákvæmlega ekkert að gera með mitt unaðslega líf og líðan í nútíðinni.

Biðst afsökunar á að opinbera illskiljanlegt tilfinninga"rugl" (ef ég læt þá verða af því að opinbera það, - líklega hendi ég færslunni fljótlega). En eins og ég kom að áðan; þá er möguleiki á útskýringum yfir trúnó-tebolla, ef einhver hefur áhuga. 

Legg ekki meira á ykkur að sinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sagði einu sinn góð kona sem við þekkjum báðar ve, ég held að henni frænku minni líði ekkert vel þarna á Ísafirði. Skil ekkert í henni systur minni að sækja hana ekki. (Eins og það hefði nú gengið. En elsku frænka mín, gaman að lesa eins og allt sem þú skrifar, takk fyrir að leyfa mér að lesa. Eigðu góða helgi "elsku barnið mitt".

Þórunn frænka þín. (IP-tala skráð) 6.3.2014 kl. 12:27

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Algerlega dásamleg færsla :D

Margrét Birna Auðunsdóttir, 7.3.2014 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband