Afmælisbarn dagsins

Scan 116

Daginn eftir fertugsafmæli ömmu Fríðu (sem við minntumst í gær, því þá voru 100 ár frá því hún fæddist) hringdi síminn hjá henni og ókunnug rödd spurði eftir pabba mínum sem þá var 18 ára. Ömmu fannst pabbi eitthvað kindarlegur í símann svo hún reyndi að fá hann til að segja sér hvað þetta hafi verið. En pabbi fór allur undan í flæmingi og sagði þetta bara hafa verið eitthvað bull. En amma linnti ekki látum fyrr en hann sagði henni að hringt hafi verið frá fæðingardeild Landspítalans og honum tjáð að honum hefði fæðst dóttir. Það hlýtur að vera ástæða fyrir þessari tilkynningu - sagði amma. Ætlarðu ekki upp á deild að athuga málið? En pabbi hélt nú ekki. Amma reyndi eins og hún gat að fá hann til að fara, en honum varð ekki haggað. Nú þá fer ég - sagði amma og fór. - Og kom til baka með þessum orðum: Láttu þér ekki detta í hug að þræta fyrir þetta barn, hún er alveg eins og þú.

Og amma gerði meira: Hún myndaði strax gott samband við barnsmóðurina sem bjó í sveit fyrir austan fjall ásamt foreldrum sínum, systur, systurdóttur, föðursystur og náttla henni systur minni. - Bað hana að lofa sér því að í hvert sinn sem hún kæmi til borgarinnar þá hefði hún þá stuttu með - og leyfði henni að vera hjá ömmu og afa í Reykjavík. Og hún lét ekki þar við sitja: Eftir að ég fæddist rúmum tveimur árum síðar, bað hún alltaf um að fá mig líka, þegar von var systur minni úr sveitinni. Þannig sá hún um að tengja og treysta tryggðarböndin milli okkar systranna alveg frá upphafi. Og þegar hún og afi fóru í heimsókn til þeirra mæðgna í sveitinni, þá tóku þau mig alltaf með sér.

Ég er henni ömmu minni alveg einstaklega þakklát fyrir þetta. Sérstaklega þar sem að á þeim árum tóku ungir feður ekki alltaf upp hjá sjálfum sér að sinna mikið þeim börnum sem ekki bjuggu hjá þeim. Meira að segja ekki besti pabbi í heimi, sem pabbi okkar svo sannarlega var. Svo var langt á milli heimila okkar (og töluvert verri vegir en nú) og ég var orðin 14 ára (eldri systirin 16) þegar foreldrar mínir eignuðust bíl.

Og hún stóra systir mín hlýtur líka að vera þakklát henni ömmu. Í það minnsta er hún og hefur alltaf verið alveg einstaklega ræktarleg við föðurfólkið okkar. Amma dó allt of snemma (53ja ára), en ömmusysturnar töluðu um það á meðan þær lifðu að þessi stóra systir mín væri sá ættingi sem lang oftast kæmi í heimsókn. Svo bjó hún líka á tímabili hjá afa og seinni konu hans. Þegar hún svo fór sjálf að búa með sínum manni, settist þau að í sama sveitarfélagi og pabbi og mamma bjuggu og búa þar enn. Pabbi dó því miður ca þremur árum seinna (44ra ára), en stórasystir er alltaf í miklu og góðu sambandi við mömmu, okkur systkinin og allt okkar fólk. Við hin mættum svo sannarlega taka hana til fyrirmyndar í þeim efnum, því flest eða öll höfum við fallið í hina dæmigerðu gryfju nútíma íslendingsins að rækta ekki eins oft og mikið og við vildum sambandið við okkar nánustu.

Og í dag er hún systir mín sextug. Eitthvað sem hvorki pabbi né amma náðu. - Fólkið sem tengdi okkur. En mikið sem ég er þeim þakklát fyrir að hafa gefið okkur hvor aðra. Og mikið sem ég er þessari yndislegu systur minni þakklát fyrir að hafa aldrei gefist upp á að sinna mér, þó ég hafi ekki haft rænu á að gjalda nærri nóg í sömu mynt. Ég held að besta afmælisgjöfin sem ég get gefið henni - og okkur báðum - sé að lofa bót og betrun þar á. Og standa við það loforð. 

Hún vildi alls ekki halda upp á afmælið sitt, en við áttum frábæra stund saman í gærkvöldi - ásamt föðurfjölskyldunni okkar - í minningu hennar ömmu okkar. Hlakka til að drekka með henni prívat afmæliskaffi við fyrsta tækifæri.

Meðfylgjandi mynd af afmælisbarni dagsins er tekin við snyrtiborðið hennar ömmu (amma sést í speglinum að taka myndina).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Yndisleg frásögn Laufey mín. Svo sannarlega og sannfærir mig um að ég sé á réttri leið með mín barnabörn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.3.2014 kl. 18:08

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Til hamingju með hana systur þína og alveg dásamleg frásögn - þú hefur þá ekki verið á leið í afmæliskaffi þegar við BP sáum þig á hjóli í Skipholtinu í dag :)

Margrét Birna Auðunsdóttir, 12.3.2014 kl. 20:46

3 Smámynd: Laufey B Waage

Takk stelpur :).

Já Ía mín, þú veist að Guð skapaði ömmurnar þegar hann fattaði að hann gat ekki verið alls staðar í einu ;).

Bidda ég var á leið í fiskibúð og þaðan að sækja ömmustelpu í Háteigsskóla :).

Laufey B Waage, 13.3.2014 kl. 08:24

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Haha já einmitt. Sé þetta núna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.3.2014 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband