Ísafjarðar-trúnó

Scan 76Þegar ég skrifaði annál ársins 2013, kom tengdadóttirin með þá athugasemd, að ég hefði nú líka farið í langar og skemmtilegar ferðir til Ísafjarðar á árinu. Á bak við þá staðreynd er svo tilfinningaþrunginn formáli og meginmál að slíkt krefst sérstakar færslu. Sé hún þá birtingarhæf (sökum persónulegs tilfinningaþrunga).

Ég giftist barn að aldri til Ísafjarðar og bjó þar í 9 ár. Þetta var einstaklega skrautlegur og skemmtilegur tími, enda er maður opnastur fyrir ævintýrum á árunum í kring um tvítugt.

En auðvitað var líka ýmislegt ansi erfitt, eins og gengur og gerist þegar ung og vitlaus móðir reynir af veikum mætti að skapa sér og sínum innihaldsríkt fjölskyldulíf. 

Scan 106Ég hafði alltaf verið afskipt í grunnskóla (sem var í 500 km fjarlægð frá Ísafirði) og tók öngvan þátt í mannlífinu í því plássi, fyrir utan mitt yndislega heimili.

Þegar ég kom vestur fannst mér ég í fyrsta skipti kynnast lífinu. Þar tók ég fullan þátt í mannlífinu og varð meira að segja vinsæl. Ég aðlagaðist algjörlega því sem fyrir var á staðnum. Ákvað að nýja lífið mitt þar vestra væri ekki bara öðruvísi en ég var vön, heldur miklu betra. Gerðist meira að segja gangrýnin á bernskuna mína í stað þess að taka eitt og annað með mér úr mínu frábæra uppeldi.

Scan 21En án þess að gera mér grein fyrir ástæðunum, þá leið mér alltaf illa yfir því hversu slælega mér tókst að uppfylla eigin hugmyndir um gott fjölskyldulíf. 

Í mörg ár eftir að ég flutti suður, leið mér yfirleitt illa þá sjaldan sem ég kom vestur. Og ekki nóg með það, - mér leið alltaf illa á sólríkum sunnudögum, því þeir minntu mig á einhvern undarlegan hátt á það óþægilegasta við líf mitt á Ísafirði (það má gera tilraun til að útskýra það nánar ef þið nennið í trúnó-te á Vesturgötuna).

Ég gerði tvær skelfilegar tilraunir til að heimsækja Ísafjörð um páska ("83 (þá nýflutt suður) og "97). Skelfingin fólst í því að ísfirsku páskarnir margfölduðu upplifun mína af sólríkum sunnudögum (já ég veit þetta hljómar ýkt klikkað).

Nú um síðustu páska gat ég ekki lengur látið hjá líða að kíkja á hina margrómuðu rokkhátið Aldrei fór ég suður, sem einkasonurinn hefur frá upphafi verið potturinn og pannan í.

IMG_0854Fannst ég loksins tilbúin til að taka þátt í fölskvalausri gleðinni, eftir að hafa "unnið í sjálfri mér" árum saman. Þorði þó ekki annað en að taka eiginmanninn með mér, til halds og trausts.

Hún er ólýsanleg tilfinningin sem ég fékk þegar ég labbaði ein út Seljaveginn á sólríkum dymbilvikudegi á leið að sækja eldra ísfirska ömmubarnið í leikskólann, vitandi af eiginmanningum heima með það yngra. Ég horfði yfir bæinn og það helltist yfir mig hugsunin: NÚTÍMINN minn er líka á Ísafirði og hann er BARA GÓÐUR.  

Í júní fór ég svo ein vestur og stoppaði í 10 daga (lengsta stopp síðan "83). Og mér leið BARA VEL annan tímann. Gerði ýmislegt sem er stór hluti af mér og mínum nútíma, en ekki Ísafjarðarárunum. T.d. hjólaði ég Óshlíðina og fram í dal (Hnífsdal) og labbaði upp í Naustahvilft (nei það hafði ég aldrei gert áður). Spilaði slatta á píanóið, eftir eyranu og mér til ánægju. En aðalatriðið var auðvitað að njóta lífsins með ísfirsku fjölskyldunni minni með margvíslegum hætti. 

IMG_0831

Síðasta kvöldið í þeirri ferð upplifði ég svo fyrir undarlega tilviljun aðstæður sem komust eins langt og hægt var í að endurskapa sáru minningarnar mínar, - en þá fann ég svo augljóslega að minningar eru eldgömul þátíð, sem hefur nákvæmlega ekkert að gera með mitt unaðslega líf og líðan í nútíðinni.

Biðst afsökunar á að opinbera illskiljanlegt tilfinninga"rugl" (ef ég læt þá verða af því að opinbera það, - líklega hendi ég færslunni fljótlega). En eins og ég kom að áðan; þá er möguleiki á útskýringum yfir trúnó-tebolla, ef einhver hefur áhuga. 

Legg ekki meira á ykkur að sinni. 


Flygillinn

IMG_1037Áratugum saman hef ég af og til verið spurð af hverju í ósköpunum ég eigi ekki flygil. Til skamms tíma svaraði ég því alltaf til - bæði í gamni og alvöru - að ég vildi ekki kaupa mér flygil fyrr en ég hefði efni á Bösendorfer. - Sem er af sama standard og Steinway, - bara með miklu fegurri tón og betri áslátt fyrir minn smekk. 

Fyrir nokkrum árum prófaði ég svo flygilinn í kirkjunni minni, sem er af ódýrri gerð (Samick), en ég uppgötvaði mér til mikillar ánægju að mér finnst miklu betra að spila á hann en alla ódýra flygla sem ég hef prófað, - meira að segja miklu betra en alla miðlungs- og jafnvel rándýra flygla. Einhverra hluta vegna myndaðist eitthvert "tilfinningalegt samband" á milli okkar og mér fannst hann strax vera flygillinn minn. Meira að segja gerðist það einu sinni, að ég var beðin um að spila á Bösendorfer í sal útí bæ - og ég kom við í kirkjunni á leiðinni til að æfa mig, - og varð alveg undrandi á því hve munurinn var lítill.

IMG_1057En stuttu eftir að ég byrjaði að æfa mig í kirkjunni, viðraði þá nýráðinn tónlistarstjóri kirkjunnar áhuga sinn á því að auka tónleikahald í kirkjunni, en til þess þyrfti alvöru tónleikaflygil. Bað ég þá sóknarnefnd um að ganga ekki fram hjá mér ef og þegar Samickinn yrði seldur.

Svo gerist það fyrir ekki löngu að Bösendorfer-flygill er til sölu í Tónastöðinni (nei það gerist sko ekki á hverju ári). Ég var ekki sein á mér að benda tónlistarstjóranum á það - hann tók málið upp á sóknarnefndarfundi - og til að gera langa sögu stutta, þá keypti kirkjan Bösendorferinn og ég Samickinn (jú það er satt, - ég er sjálf í sóknarnefnd)

 

IMG_1054Ég verð reyndar að viðurkenna að ég átti mjög erfitt með að taka þessa ákvörðun. Ekki nóg með að alþýðukonu í vesturbænum munar um nokkur hundruð þúsund, auk þess sem hún hefur í seinni tíð verið undirlögð af alls konar gigt, - heldur var ég andvaka yfir endalausum pælingum um hvernig ætti ég að koma honum fyrir þannig að ég nyti þess að spila á hann án þess að hann væri eins og risastórt skrýmsli sem dómineraði stofuna algjörlega.

Viðurkenndi svo þá staðreynd að ég er bara hrædd við breytingar - og reynsla mín er sú að ég verð alltaf ánægð þegar ég hef kýlt á það sem ég er hrædd við. Auk þess sem ég reyni alltaf að fara eftir því mottói mínu að það er betra að sjá eftir því sem maður gerir, heldur en því sem maður gerir ekki.

IMG_1056

Nýlega byrjaði ég svo í miklu betri meðferð við gigtinni, sem er þvílíkt að svínvirka - svo ég kýs að trúa því að ég geti setið við hljóðfærið og spilað mér til ánægju um ókomna tíð. 

Flygillinn mætti svo á staðinn nú um kvöldmatarleytið. Og þvílíkur munur. Ég komst í þvílíkt uppnám að ég næstum því fór að gráta. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem fylgir því að spila á svona "alvöru" hljóðfæri heima hjá sér. Það vildi fólkinu í húsinu til happs að ég þurfti að rjúka á kóræfingu, - annars hefði ég setið við hljóðfærið í allt kvöld. Og nú er komið fram yfir miðnætti.

Vá hvað ég hlakka til að koma heim úr vinnunni á morgunn og setjast við flygilinn minn.

IMG_1059

Og þó hann taki pláss og sé kannski dóminerandi í stofunni. Er eitthvað sem ég vil frekar að taki meira pláss og sé meira dóminerandi. Ónei. Ég er meira að segja svo heppin að sambýlingar mínir eru mér sammála - og samgleðjast mér innilega.

Svo er alltaf hægt að rúlla honum til og frá og prófa nýjar staðsetningar. Bæði upp á þægindin og lúkkið. Auk þess sem stofurnar á alþýðuheimilum í vesturbænum gerast nú ekki mikið stærri.

Verst að ég tími varla að selja frábæra píanóið mitt. 

Settist niður við þessa bloggfærslu til að skrifa mig frá uppnáminu, - en ég er enn alveg skæ hæ. 

Held ég ætti að loka tölvunni og reyna að lesa mig í svefn.

Ykkar einlægur flygileigandinn ofurhamingjusami. 

P.s. Haldiði svo ekki að hann sé fallega vínrauður (eða dumbrauður) í kaupbæti. 


Annáll ársins

Smá viðvörun: Þessi annáll verður örugglega bæði stuttur og leiðinlegur. Fyrir sléttu ári síðan sagði ég að svo merkilega vildi til að síðan ég byrjaði að blogga, hefði sérhvert ár sína algjöru sérstöðu. En þá bregður svo við að þetta ár hefur öngva sérstöðu. Nema ef vera kynni nokkra neikvæða þætti. Óvenju slæma gigt, óvenju slæma ríkisstjórn og fjöldauppsagnir ruv, svo eitthvað sé nefnt. Eins og þið kannski heyrið (lesið) þá gerir gigtarÓstandið  það að verkum að dulítið djúpt er á gleðipinnanum Laufeyju stuðbolta, - en góðu fréttirnar eru þær; að von er á nýrri lækningarmeðferð með hækkandi sól - og mér dettur ekki í hug annað en trúa því að sú meðferð virki. Svo þið megið byrja að hlakka til að lesa pistla undirritaðrar þegar gleðin tekur völd á ný. Hvort við höfum einhverja von um betri ríkisstjórn eða endurráðningu menningarvita og gleðigjafa á ruv er aftur á móti annað mál sem ég nenni ekki að ræða frekar.

En auðvitað var árið líka ánægjulegt. Það besta var að öngvar breytingar urðu á mínu stórkostlega hversdagslífi, sem ég hef - síðan laust fyrir síðustu aldamót - alltaf verið alveg einstaklega ánægð með og þakklát fyrir. Og þá rís hæst þakklætið fyrir mína einstaklega vel heppnuðu fjölskyldumeðlimi, sem kunna meira að segja - þrátt fyrir allt - vel að meta mig eins og ég er.

Og auðvitað gerðist ýmislegt skemmtilegt á árinu auk míns unaðslega hversdagslífs. T.d. nutum við hjónin jazzhátíðar í Köben í sól og sumaryl á meðan mest rigndi á Íslandi.

Og það sem er kannski fréttnæmast fyrir mig persónulega er að það losnuðu píanókennarastöður við tvo virta skóla á höfuðborgarsvæðinu - og ég ákvað að sækja um hvoruga stöðuna af því ég er svo yfirmáta ánægð með vinnustaðinn minn, þó hann sé í 38 kílómetra fjarlægð.

Stend við þetta með stutta pistilinn og ofbýð ykkur ekki frekar með leiðindum. Legg ekki í vana minn að strengja áramótaheit, - en er þó alvarlega að spá í núna að strengja þess heit að gera allt það sem í mínu valdi stendur - með Guðs hjálp og góðra manna - til að endurheimta hreysti og gleði á ný.

Gleðilegt nýtt ár gott fólk. 

kr-flugeldar_11.jpg


Loksins ein hversdagsleg

bollstell 2Síðast þegar ég heimsótti vinkonu mína fyrir austan fjall, setti hún vatn í ketilinn og teygði sig eftir pakka af Rósu frá Mel, með orðunum; þú vilt te er það ekki? Ja mig langar nú meira í kaffi ef þú átt það - sagði ég. Hún varð eitt spurningarmerki í framan og sagði; ég hélt þú værir löngu hætt að drekka kaffi. Þú veist vel - sagði ég þá - að þetta með mig og kaffið er eins og með þig og reykingarnar. Ég veit aldrei hvort þú ert nýhætt að reykja eða nýbyrjuð aftur næst þegar ég hitti þig. Þessi tiltekna vinkona mín segir oft; það er ekkert mál að hætta að reykja, ég hef oft gert það. 

En þó að ég hafi oft hætt að drekka kaffi, þá get ég ekki sagt að það sé ekkert mál. Því var það, að síðast þegar ég valdi að skera kaffidrykkju við nögl frekar en að stefna á vélindakrabba, - að ég ákvað að taka "einn dag í einu" regluna fram yfir varanlegt bindindi. Því vitið þið aldrei kæru vinir hvort það er kaffidagur eða kaffilaus dagur næst þegar þið hittið mig. 

Eftir nokkra kaffilausa daga, ákvað ég í gær að fá mér góðan kaffibolla. Það var engin blá sojamjólk til á heimilinu, svo ég frestaði kaffidrykkjunni fram yfir hádegi, þ.e. ákvað að koma við á kaffihúsi í Bankastræti á leið minni úr Laugarneshverfi um eittleytið. Ég var svo heppin að fá bílastæði í sjálfu Bankastrætinu. Sat smá stund í bílnum og velti fyrir mér hvort ég hefði tíma í þetta, - maður verður að gefa sér góðan tíma til að njóta þessara góðu drykkja, þegar þeir eru ekki fleiri en raun ber vitni. Spáði líka í það hvort ég væri örugglega nógu góð í opinu (vélindanu) til að leyfa mér þetta. Stóð svo góða stund við stöðumælinn og skammtaði honum gull og silfur eftir að hafa gaumgæft nákvæmlega hvað ég þyrfti langan tíma til að njóta drykkjarins (Látið ekki svona kjánarnir ykkar, ég er vanalega á hjóli og þá þarf ég ekki að borga í stöðumæli).

kaffiBiðröðin var lengri en ég bjóst við. Átti ég að hlaupa út og bæta tíkalli í mælinn. Nei, þá mundi röðin bara lengjast á meðan. Ég gæti bara pantað drykkinn og hlaupið svo út og bætt í á meðan ég biði eftir honum. 

Þar sem ég vil nú alltaf að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig, þá passaði ég mig á því - á meðan sá fyrir framan mig í röðinn var að borga - að hafa allt tilbúið, - og þreifaði eftir pening.... - nei greiðslukorta....... - Laufey ert´ekk´að grínast? Ertu virkilega ekki með neinn greiðslumiðil á þér. Mér varð hugsað til hundraðkallanna og fimmhundruðkallanna sem höfðu legið ónotaðir hjá garði í hanskahólfinu mínu mánuðum eða árum saman - svona til öryggis, ef ég skildi lenda í akkúrat þessari stöðu. Af hverju þurfti ég svo að fjarlægja þá daginn áður en ég þurfti á þeim að halda. Tíkallinn sem ég ætlaði kannski að bæta í stöðumælinn dugði ekki fyrir neinum kaffibolla.

Rétt náði að þjóta út áður en spurningunni; get ég aðstoðað, var bent að mér. Iss þetta var allt í lagi (þau eru súr sagði refurinn), nú gæti ég notað tímann fram að kennslu til að koma við í Byko og kaupa seríur í staðin fyrir þessar ónýtu. Og við hliðina á Byko er Krónan, sem selur þessa fínu bláu sojamjólk. Ég gæti bara keypt hana og komið svo við að láta mæla frostlöginn áður en ég færi heim og lagaði míns eigins sojalatte og sötraði á því við kennsluna.

Nei börnin mín stór og smá - ég er ekki að grínast. - Ég var búin að leggja bílnum fyrir utan Byko og drepa á honum þegar ég uppgötvaði að viðskipti við Byko, Krónuna og Olís fara heldur ekki fram án endurgjalds. 

En þannig mátti sagan ekki enda. Kona sem keyrir eins og bankaræningi á flótta, þýtur náttla eins og píla heim eftir greiðslukorti og nær að kaupa seríurnar og sojamjólkina og láta vinalega afgreiðslumanninn á Olís segja sér að frostlögurinn væri 45, sem væri bara mjög gott. Þannig að áður en fyrsti nemandinn mætti klukkan 13.55 náði ég að laga mér þetta fína "kaffi-vesen" eins og hann kallar það, instantkaffi-drengurinn sem gaf mér bæði sojamjólkurþeytarann og kanilsteytarann.

P.s. biðst afsökunar á þessari síðustu mynd sem vill bara lafa þarna fyrir neðan. Mér tekst hvorki að færa hana ofar né eyða henni.

Góða helgi gott fólk. 

Rennsli

Um almannafé - ábyrgð og ÁLAG

Fjöldauppsagnir virðast nú rétt einn ganginn vera hluti af örvæntingarfullri kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga.

Og nú eru samningar lausir hjá grunnskólakennurum og allt útlit fyrir að neyðin reki okkur í verkfall og/eða hópuppsagnir.

Af hverju í ósköpunum þarf þessi staða alltaf að koma upp aftur og aftur?

Ég sem hélt í "fávisku" minni að stærstur hluti okkar skattgreiðenda ætti börn eða barnabörn eða þætti einfaldlega nógu vænt um landsins börn til að vilja að þeir sem sinna börnunum lungað úr deginum séu góðir, óþreyttir og ánægðir kennarar.

Ég hélt líka að öll þyrftum við einhvern tíman á heilbrigðisþjónustu að halda, - bæði fyrir okkur sjálf, börn okkar, foreldra, maka og aðra sem okkur er annt um, - og vildum þá njóta þjónustu góðra, óþreyttra og ánægðra heilbrigðisstarfsmanna.

Ég geng meira að segja svo langt að halda að það sé þetta tvennt sem við viljum helst af öllu setja peninga í. - Peninga úr sameiginlega sjóðinum okkar, - ríkiskassanum.

Jú þið tókuð rétt eftir - ég nefndi ekki bara góða starfsmenn sem eiga skilin góð laun fyrir vel unnin störf, - ég nefndi líka óþreytta og ánægða starfsmenn. Þetta snýst nefnilega um fleira en krónur per klukkustund.

Mínar hugmyndir um það sem betur mætti fara í rekstri sjúkrageirans bíða eru of plássfrekar hér og nú, auk þess sem ég sjálf er ekki fagmaður þar. Get þó ekki stillt mig um að nefna einn fáránleika þar. Við getum ekki borgað læknum ásættanleg dagvinnulaun, en getum borgað þeim fyrir endalausa yfirvinnu, þannig að við lendum oft í ofurþreyttum læknum, sem hafa jafnvel vakað sólarhringum saman. Er það það sem við viljum? (meira síðar um eftirvinnu).

En í skólakerfinu er ég - og hef lengi verið - innanbúðarmaður.

Ég er orðin hundleið á að reyna að vekja athygli á þeirri ábyrgð sem fylgir því að sinna börnum, gamalmennum, fötluðum og veikum. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið ein um að benda á það. Ég bara skil ekki hvers vegna í ósköpunum þeir sem með fjármálavöldin fara sjá ekki ástæðu til að launa okkur sem þá ábyrgð axla til hálfs á við þá sem vinna við að velta peningum og öðrum dauðum hlutum á milli handanna (með fullri virðingu fyrir t.d. iðnaðarmönnum og mörgum öðrum starfstéttum).

Ég nenni heldur ekki lengur að benda á þá staðreynd að sú vinna sem vér kennarar sinnum (eða eigum að sinna) fyrir utan kennslutíma tekur a.m.k. jafn langan tíma og tíminn sem fer í beina kennslu. Ég nenni nefnilega ekki að svara fyrir þá kennara sem taka að sér allt of mikla aukavinnu - að sjálfsögðu af brýnni fjárhagsþörf. Því síður nenni ég að svara fyrir þá örfáu kennara sem hafa komist upp með að "liggja í leti" eftir klukkan 3 alla daga og allar helgar.

Þeir sem eitthvað til málanna þekkja vita að sjálfsögðu að langflestir kennarar sinna starfi sínu mjög vel, bæði í kennslustundum og utan þeirra og hafa því öngva afgangsorku til að taka að sér aukavinnu. Í allt of mörgum tilfellum eru þessir kennarar úrvinda af þreytu kvöld eftir kvöld, koma sér svo upp álagssjúkdómum og/eða "brenna út" langt fyrir aldur fram.

Það sem gleymist nefnilega allt of oft í kjarabaráttunni er að við eigum ekki bara skilin betri laun fyrir ábyrgð og vel unnin störf í ákveðinn klukkustundafjölda. Kennslustarfið er mjög mikil ÁLAGSVINNA og fyrir það eigum við að fá borgað.

Sjálf gekk ég í þá gildru fyrir tæpum þremur árum að halda að ég gæti farið upp í ca 130% kennslu, eins og ég gerði þegar ég var ung og orkumikil (lesist; áður en ég skemmdi mig á yfirvinnu og ofurálagi). Þú ert með svo mikla og góða reynslu Laufey, þú getur nýtt þessa reynslu þína, þarft ekki alltaf að vera með 100% undirbúning, sagði ég við sjálfa mig. Svo þarftu nú ekki að vera á útopnu í öllum kennslustundum - hélt ég áfram. Það var stór misskilningur. Nokkrum mánuðum seinna var ég send með sjúkrabíl frá bráðamóttku á hjartadeild með sterkan grun um kransæðastíflu. Slapp sem betur fer við stíflukastið, en var í kjölfarið greind með nokkra varanlega álagssjúkdóma.

Ég vil þó meina að ég geti mjög vel sinnt mínu starfi áfram ef ég fer ekki yfir eðlilegt starfshlutfall. Ég vil líka meina að ég sé mjög góður kennari - og það væri skaði fyrir mörg börn ef ég segði upp og færi að vinna í banka. Og þetta á við um mjög marga kennara. - En að launum viljum við eiga fyrir osti ofan á brauð og þess háttar lúxus án þess að gerum okkur að öryrkjum fyrir aldur fram af ofurálagi.

Svo nú kasta ég boltanum yfir til ykkar skattgreiðenda. Í hvað viljið þið setja skattpeningana? Viljið þið setja þá í rándýrar byggingar og önnur óþarflega dýr mannvirki? Viljið þið setja þá í ofurlaun, sposlur og bitlinga til fólks sem vinnur við annað en að sinna fólki? Viljið þið afskrifa skuldir auðmanna? Viljir þið setja þá í alls kyns bruðl og vitleysu? Og nota svo afganginn til að að borga örorkubætur og lækniskostnað til útbrunninna kennara og hjúkrunarfræðinga? Eða eruð þið með betri hugmynd? 

Ef þið eruð með betri hugmynd, þ.e.a.s. að borga fólki sem vinnur vel með börnum, sjúkum, fötluðum og öldruðum, sómasamleg laun - og jafnvel að búa þeim betri starfsskilyrði, viljið þið þá plíííís koma þeirri hugmynd á framfæri þar sem hún gæti komið til framkvæmda.

Lifið heil. 

 


Annáll ársins 2012

kr-flugeldar_11.jpgÉg hef margoft sagt að þegar (ekki ef) ég verð gömul og rík, þá ætla ég að búa í einhverju heitu landi frá janúar og fram í mars ár hvert. Ekki bara vegna þess að gömul og gigtveik kona með asma og krónískar ennis- og kinnholubólgur (og Guð má vita hvað á eftir að bætast við) hefur gott af því að dveljast langdvölum fjarri frosti og fjúki. Sem er reyndar aðalástæðan. En líka hitt, að á þeim tíma er ekkert spennandi að gerast sem mér finnst ómissandi (nei ég er ekki ein af þeim sem þræði þorrablótin og árshátíðarnar grimmt).

Og svo virðist sem það hafi átt við í ár. Ég man ekki eftir neinu sérstöku frá fyrsta ársfjórðungnum. Sem eru líka góðar fréttir því ég minnist þess ekki að hafa farið í mitt hefðbundna janúarþunglyndi (tók það svo hressilega út 2011).

En með vorinu fóru hlutirnir að gerast. Ég þurfti að grafa gamla góða vegabréfið mitt upp úr skúffunni og athuga hvort það væri í gildi. Ég hafði ekki brugðið mér af landi brott síðan um páskana 2007 eða í rúm 5 ár.

Vegabréfið var útrunnið og ég lenti í meiriháttar veseni í sambandi við ritun nafnsins míns á nýja vegabréfinu. En það er önnur saga sem ég nenni ekki að rifja upp hér.

lw_hja_togo_s.jpg

 Og af því hófsemdin hefur nú aldrei verið ein af mínum helstu dyggðum, þá fór ég náttla í tvær utanlandsferðir með mánaðar millibili. Fyrst með kórnum mínum til Danmerkur - og svo með skólanum mínum til New York. Í New York lét ég langþráðan draum rætast og fór á hárgreiðslustofu í Harlem, hvar kona frá Togo í Afríku fléttaði mig eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

En það sem er sérstakt og öðru vísi við þetta ár sem er að líða, er að 3 stór "drömu" hentu, skeðu og áttu sér stað hjá mér nátengdum. Ég held að það séu bara 3 gjörgæsludeildir (að vökudeildinni meðtalinni) hér á höfuðborgarsvæðinu og ég heimsótti þær allar.  Fram að því man ég bara til að hafa farið tvisvar inn á gjörgæsludeild.

_mmuhamingja.jpgÞetta byrjaði með yndislegri gleðifrétt sem við áttum von á: Ömmustúlka kom í heiminn á Ísafirði að kvöldi 16. júní. Hún var 18 merkur (eins og amma Laufey) og ekki var annað að sjá en hún væri fullkomlega hraust og heilbrigð. En örfáum klukkustundum síðar kom í ljós að hún var með votlungu og tilheyrandi oföndun, svo nauðsynlegt þótti að kalla eftir sjúkraflugvél og flytja hana ásamt foreldrunum á vökudeildina í Reykjavík. Þar var hún í viku, hvar hún braggaðist hratt og vel - og er nú hreystin uppmáluð. Myndin hér til hliðar er tekin af mér með bróður hennar fyrir tæpum 4 árum síðan. - Mér tókst ekki að ná í myndirnar af stúlkunni. En þið getið séð þær á facebook - albúmið heitir Sumarið 2012.

8. júlí fann ég fyrir langmestu áfallseinkennum sem ég hef nokkru sinni fundið, þegar mér var tilkynnt að besta vinkona mín hefði lent í hjartastoppi. Sem betur fer var réttur maður á réttum stað og stund, svo endurlífgunartilraunir tókust vel, en það þurfti mikið til, bæði á staðnum og í sjúkrabílnum. Hún var mánuð á sjúkrahúsi, en hefur verið mjög dugleg í bata og endurhæfingu - og er nú á góðri leið með að verða hraustari og heilbrigðari en nokkru sinni fyrr.

lw_og_sara_2_ag.jpg

Þriðja heimsókn á gjörgæsludeild var svo nú í byrjun des, þegar pabbi stóru barnanna minna (fyrsti eiginmaðurinn minn) lá þar með lífshættulega lungnabólgu. Honum var haldið sofandi í tæpa viku, en eftir það var batinn svo ótrúlega hraður og mikill, að hann væri kominn vestur á Ísafjörð ef veðurstofan og vegagerðin hefðu ekki kyrrsett hann hér syðra.

Já það er nokkuð ljóst að hvert ár hefur sína sérstöðu. Ég held að þetta sé í sjötta sinn sem ég sendi frá mér annálsblogg - og það er alltaf eitthvað einstakt og öðru ólíkt sem einkennir hvert ár fyrir sig. 

Og nú man ég ekki fleira markvert. Nema hvað ég predikaði í kirkjunni minni á jóladag og keypti mér nýja tölvu í fyrradag. Svo poppar örugglega eitthvað fleira upp. Þá skelli ég því í kommentadálk hér fyrir neðan. Njótið áramótanna kæru vinir og alls ársins framundan.

Lifið heil 


Lífsnautnafjötrar - eða frelsi

Ég er haldin fíkn sem lýsir sér m.a. í því að ef ég borða sætindi, þá get ég ekki hætt fyrr en mér er orðið verulega illt. Annað hvort fer þetta sukk fram í leyni, eða þá að ég verð mér til mikillar skammar og ofbýð umhverfinu með dónaskap (stundum hvort tveggja).
Um leið og áétinni vanlíðan linnir lítillega eru tveir möguleikar í stöðunni: Annað hvort held ég sukkinu áfram eða þá ég fer í líkamlegt, tilfinningalegt og félagslegt fráhvarf, sem mjög erfitt og tímafrekt er að losa sig út úr.
Velji ég fyrri möguleikann fitna ég mjög hratt og ét á mig alls kyns sjúkdóma og kvilla sem fara hratt vaxandi og þarf ég því mikla aðstoð frá heilbrigðiskerfinu. - Þeim mun meiri aðstoð eftir því sem ég eldist, því öll fíkn versnar með aldrinum.
Ég veit að ég er ekki ein um þessa fíkn. Ég þykist líka vita að á elliheimilum landsins finnist fólk sem þarfnast aðhlynningar sem það þyrfti kannski ekki á að halda ef það hefði tímanlega fundið lausnina sem ég hef fundið. Þetta fólk væri jafnvel ennþá fært um að sjá um sig sjálft heima hjá sér.

Mér dettur þó ekki í hug að fara fram á það að hætt verði að bjóða upp á sætabrauð með kaffinu á elliheimilum. Hvorki fyrir mína hönd né þeirra sem nú búa á þessum heimilum. Mér finnst sjálfsagt að þeir sem njóta þess að borða sætindi sér og öðrum að skaðlausu, eigi val um það.

Ég er svo heppin að ég get virkilega notið þess að fá mér glas af víni með góðum mat í góðum félagsskap af og til. Án vandræða. Ég veit að það eru ekki allir svona heppnir, - en af hverju í ósköpunum eru sumir svona mikið á móti því að fólk á elliheimilum eigi þetta val?

Jú jú, auðvitað veit ég að afleiðingar virks alkóhólisma eldra fólks geta verið subbulegri og meira áberandi en afleiðingar matarfíknar, - en það á líka við um virka fíkn yngra fólks.
Af hverju reynum við ekki að hafa meiri jákvæð áhrif á neyslu og viðhorf yngra fólks - frekar en að skerða frelsi og lífsnautnir gamals fólks?
Það er skelfilegt að sjá hve margt ungt fólk (og sumir eldri jú jú) drekkur frá sér vit og rænu helgi eftir helgi - oft með hræðilegum afleiðingum.
Mér finnst líka skelfilegt að sjá hve mörgum foreldrum ungra barna finnst sjálfsagt og eðlilegt að drekka vín á meðan þau eiga að bera ábyrgð á sínum börnum. Af hverju skiptum við okkur ekki af því?

- Auðvitað veit ég af hverju við skiptum okkur ekki af því.
Við einfaldlega fáum engu ráðið um það hvað ungu foreldrarnir gera heima hjá sér, á barnum, á ferðalögum o.s.frv.
Hins vegar GETUM við (miðaldra fólkið sem rekur stofnanir og setur lög og reglur í landinu) ráðið þvi hvað má og ekki má á elliheimilum. Og þurfum við þá endilega að notfæra okkur þá GETU og það VALD - og halda sem fastast í þær reglur sem starfsfólkið heldur að valdi sem minnstu veseni, burt séð frá löngun og líðan þeirra sem þar búa - og eiga ekki annara kosta völ? Fólk sem býr á elliheimili býr þar í flestum tilfellum vegna þess að það er ekki fært um að sjá um sig sjálft heima hjá sér (margir þeirra geta t.d. hvorki gengið né keyrt eftir mat og drykk). Er það ekki næg skerðing á lífsgæðum, auk allrar annarar lífsnautnaskerðingar sem fylgir því að vera gamall?

Látum af þessari fáránlegu forræðishyggju (eða beinum henni í aðrar og betri áttir) - og leyfum gömlu fólki að fá sér köku með kaffinu og/eða vín með matnum - á meðan það veldur ekki sambýlisfólki þeirra stórum skaða.

Lifið heil.


15 atriði sem þú vissir ekki um mig

Þegar ég sé e-ð sem kalla má Spurningu dagsins í fjölmiðlum, hef ég dáldið gaman af því að líta upp í loftið - áður en ég sé svar viðkomandi - og svara sjálf.

Í einu af blöðunum sem detta í póstkassann í hverri viku, hafa um hríð verið greinar þar sem þekktir einstaklingar eru fengnir til að tjá sig undir fyrirsögninni: 15 atriði sem þú vissir ekki um mig (það stendur reyndar 15 hlutir, en ég tek ekki þátt í þessari ofnotkun orðsins hlutir).

Þegar ég sá þetta fyrst, leit ég auðvitað upp í loftið og rifjaði upp 15 atriði sem ég hélt þið vissuð ekki um mig. Þetta var á annatíma, svo ég mátti ekki vera að því að blogga þá, en nú er lag. Vafalaust koma allt önnur atriði upp í hugann núna, en ég "kíli áða". Verst að ég hef lengi verið svo opin og einlæg, að einhver ykkar vitið eflaust margt af þessu. Er þá ekki upplagt að þið gerið líka getraun úr þessu og spyrjið ykkur sjálf: Hve mörg af þessum 15 atriðum vissi ég um Laufeyju? Heiðarleg svör óskast.

15 atriði sem þú vissir ekki um mig: 

1) Ég hef þann kæk að plokka límmiða af hinu og þessu (t.d. lyfjapakkningum) og rúlla þeim upp.

2) Þegar ég var eins til fimm ára lék ég mér daglega við bestu vinkonur mínar, sem heita Jóhanna og Sigríður. Ég var að verða unglingur þegar ég uppgötvaði að það sá þær aldrei neinn nema ég.

3) Eitt sinn bjó ég í seglskútu í næstum 4 vikur.

4) Systir Halldórs Kiljan Laxness kenndi mér á píanó þegar ég var 12-16 ára.

5) Ég get í smáatriðum lýst íbúðinni sem ég bjó í þegar ég var hálfs árs til eins og hálfs árs. Líka íbúðinni á neðri hæðinni.

6) Ég er þrígift.

7) Ég er þekkt fyrir að keyra eins og bankaræningi á flótta, en hef þó aldrei valdið tjóni.

8) Ég er óhemju ómannglögg - og það hefur versnað með árunum. En er svo heppin að maðurinn minn er mjög mannglöggur og getur bent mér á fólk sem ég á að þekkja betur en hann.

9) Á seinni árum hef ég verið skelfilega hrædd við kviksetningu (vá hvað það var erfitt að láta þetta flakka).

10) Mér þykir afskaplega vænt um rónana. Fer stundum inn í "Austurríki" og kaupi bjór handa þeim. Nýt þess að setja pening í súpueldhús Samhjálpar.

11) Árum saman vonaðist ég eftir að vera beðin um að leika jólasvein og/eða fjallkonu. Hvorugt gerðist og ég skil ekki ennþá af hverju.

12) Ég átti eitt sinn "míns eigins" kött. Hún hét Víóletta.

13) Ég er næstum aldrei í brjóstahaldara. Á tvo inni í skáp sem ég keypti einhvern tíman á síðustu öld. - Hef hvorugan þeirra þvegið. 

14) Ég var oft kölluð Lubba þegar ég var krakki - og líka stundum eftir að ég varð fullorðin.

15) Ég hef flogið í svifdreka. Bæði sem farþegi og líka pínulítið ein og sér. 

Góða helgi gott fólk. 


Ég vil fara til ....

Þegar einkasonurinn var nýlega 3ja ára og frumburðurinn að verða 8, fórum við faðir þeirra með þau í frí til Danmerkur. Börnin upplifðu "jól og afmæli" daglega. Tívolí í gær, dýragarður í dag, Lególand á morgunn o.s.frv. Drengurinn ungi varð að vonum dáldið æstur og uppveðraður yfir þessum endalausu "jólapökkum". Um leið og einum pakkanum lauk vildi hann opna þann næsta.

Og á kvöldin þegar hann átti að fara að sofa, var nætursvefninn klárlega ekki sá pakki sem hann vildi opna næst.Þá var hann ekki bara æstur og uppveðraður, - heldur orðinn of þreyttur. Meðan ég reyndi að hátta hann, þvo og bursta tennur, hrópaði hann; ég vil ... - ég vil .... En af því undirmeðvitundin veit að þá er best að fara að sofa - tókst honum að "vilja" eitthvað sem var ekki hægt. Strax fyrsta kvöldið söng hann; ég vil fara til Keflavíkur, til ömmu. " Það er ekki hægt, amma er í Júgóslavíu" sagði ég. Það sem eftir var ferðarinnar hljómaði söngurinn "ég vil fara til Keflavíkur" á hverju kvöldi þegar drengurinn var kominn á ákveðið þreytustig.

Við fórum heim með næturflugi. Það var farið að nálgast miðnætti þegar við gengum eftir göngum Kastrup og ofurþreyttur drengurinn byrjaði að væla. Ég reyndi strax að stoppa hann með orðunum "þú geturðu verið glaður, því nú erum við að fara til Keflavíkur". Þá vældi minn hástöfum; ég vil fara til Júgóslavíu!!

Því er það - allar götur síðan - að þegar eitthvert barn í fjölskyldunni kemst á ákveðið þreytustig og einhver spyr; hvað er að honum/henni; - þá höfum við svar á reiðum höndum: Það er ekkert að, hann/hún vill bara fara til Júgóslavíu.

Og nú - 31 ári síðar - er drengurinn loksins búinn að kaupa ferð til Júgóslavíu. Með sinn þriggja ára dreng, eiginkonu og nýfætt stúlkubarn. Það kæmi mér ekki á óvart, þó kvöldin í þeirri ferð muni enda á söngnum; ég vil fara til ömmu Laufeyjar.


Woddy Allen

Þegar til stóð að fara með kennarahópnum til New York í október, var ég ákveðin í að fara á tónleika með Woody Allen. Vissi að hann spilaði á ákveðinni jazzbúllu í NY öll mánudagskvöld. Taldi vissara að kaupa miða (dýrir miðar - kvöldverður innifalinn) strax á netinu, svo það yrði ekki uppselt. Eitthvað innsæi sagði mér þó að bíða með það. Kannski hefur það bara verið mín hefðbundna frestunarárátta. En hún bjargaði mér alla vega frá fjárhagstjóni í þetta skiptið. Því Iceland Express flugfélagið felldi ferðina okkar niður á síðustu stundu - og við hefðum ekki fengið Woody-miðana endurgreidda.

Við fórum því með öðru og betra flugfélagi nú í júní. En þá þorði ég ekki að panta miða á Woody fyrr en hálfum mánuði fyrir brottför - og þá var auðvitað uppselt. En okkur var sagt að við gætum reynt að mæta snemma og þá fengjum við sæti við barinn. 

Við mættum þremur eða fjórum tímum fyrir tónleika, en það voru fleiri en 9 á undan okkur - og einungis 9 manns komast fyrir við barinn. Ég suðaði í kallinum sem réði, sagði honum auðvitað að við værum komin alla leið frá Íslandi - ásamt "það var sagt okkur"-pakkanum, við erum á biðlista, þú ætlaðir að hringja - og allt það. "Ég er með 700 manns á biðlista" sagði hann "en þið getið prófað að bíða - það verður nokkrum úthlutað stæði þegar tónleikarnir byrja.

Og við biðum áfram. Til að gera langa sögu stutta, þá vorum við í hópi þeirra 6 eða 8 sem komust í stæði. Enda var ég svo staðráðin í því að komast inn, að ég hefði ekki yfirgefið staðinn ójárnuð.

Tónleikarnir voru algjör unaður. Og við fengum algjör stúkustæði. Ca 3-4 metrum fyrir framan Woody. Og ég gat andað með tónlistinni sem var algjörlega órafmögnuð. Ég hef reyndar heyrt í klarinettleikurum með betri tón, en það var aukaatriði. Frábær tónlist, frábær flutningur og frábær stemmning.

Því miður tókst mér ekki að ná myndunum hér inn (já ég veit, ég þarf líklega að fá mér nýja tölvu), en þær eru á facebook. Albúmið heitir New York myndir (minnir mig).

Lifið heil. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband