13.7.2008 | 15:15
Áskoranir í brúðkaupi.
Merkilegt hvað ég er endalaust að fá nýjar og spennandi áskoranir á gamalsaldri. Í gær gerði ég nokkuð sem ég hef aldrei gert áður. - Ég spilaði í brúðkaupi.
Ykkur finnst það kannski ekkert sérstök áskorun fyrir konu sem hefur spilað á skriljón tónleikum (bara nemendatónleikum nota bene) - og nokkrum öðrum viðburðum, en þetta var dáldið öðruvísi. Ég er alltaf að segja við nemendur mína (og sjálfa mig) að maður verði hvorki hengdur né skotinn þó maður ruglist á tónleikum, en mér fannst þetta dáldið mikið öðruvísi. Þú klúðrar ekki tónlistinni á meðan brúðhjónin eru að ganga inn kirkugólfið, - það er bara einfaldlega ekki í boði.
Svo hafði brúðguminn líka beðið mig að spila undir hjá sér, þar sem hann söng vísur sem hann hafði samið til brúðurinnar (hún vissi ekki af því fyrirfram). Virkilega persónulegar og einlægar ástarvísur. Þetta var einstaklega fallegt og viðkvæmt atriði, sem ég mátti að sjálfsögðu ekki skemma fyrir þessum góða vini mínum. Ég varð að vera stuðningur en ekki hið gagnstæða.
Það var því dáldið stress á minni fyrrihluta gærdagsins.
Auk allrar spilamennskunnar gat ég ekki stillt mig um að vera með afbrigði af brúðkaupsleiknum sem sló í gegn hjá mér í brúðkaupi vinkonu minnar í fyrra.
En allt gekk þetta glimrandi vel. Mér tókst sem betur fer ekki að eyðileggja neitt fyrir þessum góðu hjónum - og brúðkaupið þeirra var allt hið yndislegasta.
Í spennufallinu röltum við hjónin niður í bæ, þar sem við enduðum á tónleikum hjá Hjálmum. Ekki algengt að ég orki að hlusta á hljómsveit sem byrjar að spila klukkan hálf tvö eftir miðnætti (fórum reyndar heim eftir 4-5 lög), en spennufallið verður að fá sína afgreiðslu.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.7.2008 | 00:03
Ljósmæður.
Vá hvað ég hefði viljað vera með myndavélina á mér í gærmorgunn, þegar ég fór í samstöðu með ljósmæðrum við stjórnarráðið. Þar lá kunningjakona mín, sem á von á barni eftir 3 vikur með bera bumbuna út í loftið - og á hana hafði hún teiknað bresti, eins og í brotnandi eggi. Hún hélt á spjaldi sem á stóð: In case of no midwife, break an egg. Það er reyndar stór mynd af henni í mbl. í dag, nema hvar þar segir að hún sé ljósmóðir, sem hún er ekki.
Í staðin reyndi ég að taka mynd af mynd af mér, sem er tekin 3 vikum áður en dóttir mín ljósmóðirin fæddist. Hún fæddist 16 merkur, en það er varla hægt að sjá að ég sé ólétt, þó ég reyni að þrýsta bumbunni út í loftið. Enda var maður bara unglingur. Afsakið hvað myndatakan tókst illa. Ég verð greinilega að læra að skanna.
Ég vona bara að stjórnvöld sjái sóma sinn að leiðrétta launin þeirra. Það er nóg til af peningum í þessu landi og hefur lengi verið svo. Mér sem skattgreiðanda í þessu landi hefur lengi gramist að ekki skuli vera hægt að nota peninga úr sameiginlegum sjóði í það sem manni finnst skipta máli, eins og t.d. að borga kennurum og heilbrigðisstarfsmönnum sómasamleg laun. Ég trúi ekki öðru en að flestum skattgreiðendum finnist það. Af hverju getum við þá ekki krafist þess?
Best að hætta áður en ég verð alvarlega pirruð á þessu. Segi frekar frá því, að ég gladdist verulega þegar ég las, í fréttablaðinu í gær, að Davíð Þór Jónsson (ekki vinur minn jazzpíanistinn, heldur hinn) ætlar að vera spurningahöfundur og dómari í Gettu betur næsta vetur. Ég held mikið upp á Gettu betur, - auk þess sem ég er einlægur aðdáandi Davíðs Þórs, þess greinda og húmoríska góðmennis. Þannig að ég hlakka mikið til.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.7.2008 | 00:21
Sumarbúðir, Þröstur "barnabarn" og fleiri fréttir.
Þá erum við hjónin komin úr okkar árvissu sumarbúðadvöl á Hólavatni. Við vorum þar ásamt stjúpsyni, ömmudreng og 18 öðrum drengjum á þeirra aldri. Þetta er yndislegur staður, fjarri farsíma- og netsambandi (svona ef einhver skyldi hafa saknað mín úr bloggheimum).
Daginn áður en við fórum þangað, sagði tengdasonurinn mér í óspurðum fréttum að ég hefði eignast nýtt barnabarn. Hann héti Þröstur Pálsson. Ég mætti að sjálfsögðu á staðinn með myndavélina.
Það gerðu greinilega fleiri, því í Fréttablaðinu í dag, sunnudag, bls.30, er frétt af Þresti "ömmubarni" ásamt þremur myndum. Mæli með að þið kíkið á fréttina.
Annars er aðalfrétt þessa pistils af alvöru ömmubarni. Fyrir stuttu fékk ég leyfi til að opinbera þá gleðifrétt að einkasonurinn og tengdadóttirin eiga von á sínu fyrsta barni í byrjun janúar. Ég er að springa úr gleði.
Svo er rosalega mikið af afmælum í kring um mig núna. Ég er að koma úr afmæliskaffi hjá bróður mínum, fyrrum mágur minn varð fimmtugur í dag - og sjálf átti ég afmæli á Hólavatni. Það var meira að segja svo fyndið, að stúlkan sem aðstoðaði mig þar í eldhúsinu átti afmæli daginn á undan mér.
Einhver ykkar hafa kannski furðað sig á myndinni sem fylgdi síðasta pistli. Málið var það, að ég ætlaði að vera með úttekt á bloggfærslum þessa fyrsta árs - og geta þess m.a. að langmestu viðbrögðin (og þá er ég ekki bara að tala um komment, heldur viðbrögð frá fólki sem ég heyrði í og hitti) fékk ég eftir færsluna um pottaplöntuna (færsla frá 19.nóvember). Enda var sú uppákoma ekkert smá fyndin. En ég var bara svo rosalega mikið að drífa mig af stað, að þetta fyrirfórst. Biðst afsökunar á því.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.6.2008 | 10:30
Eins árs blogg.
Í dag á ég eins árs bloggafmæli. Það var 29.júní í fyrra sem ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu. Það er auðvelt fyrir mig að muna það, því tengdasonur minn á afmæli þennan dag. Að vísu er ég þeim eiginleikum gædd, að ég á mjög auðvelt með að muna dagsetningar.
Þetta hefur verið ömmur skemmtilegt (ennþá skemmtilegra en afar skemmtilegt) og ég hef alls ekki hugsað mér að hætta þessu. Ég er mjög þakklát fyrir öll kommentin ykkar. Þó þau séu kannski ekkert rosalega mörg, miðað við hvað maður sér hjá sumum, þá veit ég að það eru margir sem lesa. Ég er oft að hitta fólk, sem segir: Frábært að lesa bloggið þitt. Og ég verð alltaf jafn hissa, af því að maður veit ekkert hverjir eru að lesa. En ég er auðvitað líka þakklát ykkur sem lesið, án þess að kommenta.
En nú er best að drífa sig í afmælisbröns. Ýmislegt á dagskrá í dag og næstu daga.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.6.2008 | 18:03
Afrek.
Ég verð að segja frá nýjasta afrekinu. Í gær létum við hjónin nokkurra ára draum rætast og hjóluðum upp í Vatnaskóg. Við tókum strætó upp á Kjalarnes, og hjóluðum svo inn allan Hvalfjörðinn og upp í Skóg. Þetta var ekki nærri eins erfitt og ég hélt. Eða kannski er ég bara miklu þrekmeiri en ég hélt. Oft og reglulega þurfti ég meira að segja að stoppa og bíða eftir eiginmanninum, sem er bæði ungur, hraustur og þrekmikill (mont mont). Hann hafði reyndar gengið á Esjuna daginn áður, - hafði það sér til málsbótar þess´elska.
Ég lét mig meira að segja hafa það að hjóla í íþróttaskóm - og með hjálm á hausnum, - í þeirri trú að ég myndi ekki mæta neinum litlum börnum, sem héldu að geimveran ógurlega væri mætt á staðinn til að hræða úr þeim líftórunna. En að sjálfsögðu var ég í rauða kjólnum og með rauðu hanskana. Ég meina; er maður lady eða er maður lady?
Þegar við vorum komin framhjá gamla Botnskálanum, hafði þó nokkuð bætt í vindinn, sem var þá á móti okkur út fjörðinn - og einmitt í lengstu brekkunum. En þá var þetta líka farið að styttast.
Mest alla leiðina var ég á stöðugri þakkargjörð. Ég er svo þakklát fyrir þetta land sem ég fæddist á, - og svo er ég svo alsæl með að hafa heilsu og þrek til að ferðast með þessum hætti. Það eru ekki allar konur á sextugsaldri sem hafa það.
Það var gott að koma í Vatnaskóg. Og ennþá betra að hvíla lúin bein á Hótel Glym.
Í dag hjóluðum við svo áfram á Akranes (á móti vindi), hvaðan við tókum strætó í bæinn. Það var létt verk og löðurmannlegt (ekki nema 25-30 km) miðað við afrek gærdagsins.
Best að leggjast í bleyti og láta líða úr sér meðan ýsan er að sjóða.
Sumarfrí á Íslandi, - Æ lovvitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.6.2008 | 19:18
Skemmtanir.
Við skelltum okkur á Sex and the city myndina í gærkvöldi mæðgurnar. Vorum löngu ákveðnar í að fara saman, en sú í miðið brá sér til útlanda á frumsýningardaginn - og svo beint til Ísafjarðar (sjá síðustu færslu), en í gær var komið aððí (þessi mynd er ekki tekin í bíó, heldur í afmæli sonarins á laugardaginn - og heitir; 1x17, 2x17, 3x17).
Salurinn var stappfullur af fólki, - þ.e. kvenfólki. Með okkar haukfránu augum leituðum við með logandi ljósi að einhverju karlkyns - og enduðum á að finna heila 5. Stemmningin var dáldið sérstök fyrir vikið. Áður en myndin hófst og í hléi var skvaldrið næstum jafn mikið og í hléi á kennararáðstefnu. Ég fer nokkuð oft í bíó, en hef aldrei heyrt svona mikið skvaldur. Ekki misskilja mig, ég er ekki að setja út á, - þetta var bara skemmtilegt. Og ég var ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Á pottþétt eftir að sjá hana aftur síðar.
Auk allra tónleikanna sem Reykjavíkurborg bauð mér upp á á þjóðhátíðardaginn, fór ég á tvenna tónleika á mánudagskvöldið, þ.e. aðfangadagskvöld þjóðhátíðar. Fyrst voru það bráðgóðir tónleikar snillinganna í Mezzoforte, - og síðan útgáfutónleikar hjá hljómsveitinni Hraun. Mikið rosalega eru þeir skemmtilegir. Þá er ég bæði að tala um lögin þeirra, flutninginn og ekki síst spilagleðina. Þetta eru alveg einstaklega skemmtilegir strákar.
Mánudags- þriðjudags- og miðvikudagskvöld svona líka út´að skemmta mér. Aldeilis stuð á minni. Hvernig verður helgin, ef virku dagarnir eru svona?
Njótið lífsins, - það geri ég.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2008 | 14:07
Þrítugur sonur.
Sonur minn Ísfirðingurinn varð þrítugur á laugardaginn. Og að sjálfsögðu keyrði mín vestur, ásamt eiginmanni og dætrum. Þorskafjarðarheiðin og Hestakleifin voru óvenju slæmar yfirferðar (sagði frumburðurinn sem fer þetta mun oftar en ég, - mér fannst ekkert að þessum vegum, - ekki miðað við í gamla daga), en Yarisinn stóð sig eins og hetja, - enda afburðabílstjóri við stjórnvölinn.
Afmælisdagurinn hófst á veislubröns. Alls kyns gúmmolaðis brauðmeti ásamt afmælistertu að sjálfsögðu. Í stað þess að blása á 30 kerti undir afmælissöngnum, skaut drengurinn tappa úr freyðivínsflösku sem tengdafjölskyldan hans mætti með.
Tengdafjölskyldan mætti líka með brandara. Tengdafaðirinn er mikill golfáhugmaður og golfleikari, - en sonur minn hefur hæðst óspart að slíkum plebbaskap. Fyrir afmælið hafði tengdafaðirinn gaukað að honum spurningum á borð við: Er einhver ákveðin tegund af golfsetti sem þú vilt fá í afmælisgjöf? Svo mæta þau í afmælisbrönsið með umslag merkt í bak og fyrir Golfklúbbi Ísafjarðar, og í umslaginu er kvittum fyrir 30 kennslustundum með virtum golfkennara.
Börnin mín eru alveg einstaklega kurteis og vel upp alin. Ég hvíslaði að frumburðinum: Þetta er grín hjá þeim. En hún hvæsti bara; nei, - í umvöndunartóni. Og sonur minn afmælisbarnið brosti kurteislega og þakkaði allri tengdafjölskyldunni með kossi.
"Ertu viss um að þú sért ánægður með þetta" spurði tengdamóðirin aftur og aftur. "Já" sagði minn og brosti sínu blíðasta uppgerðarbrosi. "Já en við erum með plan B", sagði hún þá og benti á kassa með gasgrilli, sem átti að vera alvöru-afmælisgjöfin. "Ég skal samt taka út þessa 30 tíma, vera leiðinlegur nemandi og spyrja virkilega heimskulegra spurninga" tautaði afmælisbarnið meðan hann skrúfaði grillið saman undir styrkri leiðsögn stóru systur sinnar Ikea-drottningarinnar.
Milli afmælisveisla náði ég að heimsækja þrjár vinkonur.
Klukkan 18 byrjaði afmælisbarnið að grilla pylsur ofan í um 40 afmælisgesti. Þetta var bráðskemmtileg veisla, haldin í húsnæði, hvar fyrir aftan var lokað huggulegt port, með tennisvelli, sem var óspart notaður; - fyrst fyrir tennis og badminton, en eftir það fyrir nýja íþrótt sem var uppgötvuð á staðnum og kölluð tennisbolti. Þetta er fótboltaleikur, tvö tveggja manna lið sem sparka bolta yfir lækkað tennisnet. Meira að segja ég hafði mjög gaman af - og hefði örugglega munstrað mig í eitt liðið, ef ég hefði ekki verið í gulu pinnahælaskónum. Klukkan var farin að ganga 3 þegar við röltum heim í ísfirsku næturkyrrðinni.
Ég var einstaklega hrifin af einni afmælisgjöfinni. Það var steinbítur sem einn vinur hans hafði búið til úr fjörugrjóti. Hann sagðist hafa búið til helling af þessu, svo ég fékk að heimsækja hann daginn eftir og kaupa einn af honum. Hann gaf mér svo sól úr grjóti og ekta netakúlu í kaupbæti.
Annan í afmæli röltum við svo niður í Tjöruhús í hádegisplokkfisk. Afmælisbarnið fór auðvitað á hjólinu sem eiginkonan hafði gefið honum í afmælisgjöf.
Á suðurleiðinni voru rigningarskúrir, svo vegirnir voru ekki skárri en á vesturleiðinni. Eitt er á hreinu: Bíllinn verður þrifinn í dag. Bæði að utan og innan.
Best að bretta upp ermarnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.6.2008 | 21:04
Að þurfa, velja og mega.
Nýlega missti ég það út úr mér hér á síðunni, að ég hefði þurft að vinna á sumardaginn fyrsta. Frumburðurinn pikkaði í mig í athugasemdadálkinum - og ég leiðrétti mig hið snarasta. Í mörg ár hef ég haldið því fram, að ég þurfi hvorki að gera eitt né neitt. Allt sé frjálst val.
Meira að segja þegar ég hef unnið sem mest (allt að 170% kennslu), en samt ekki átt fyrir osti ofan á brauðið; man ég eftir að hafa legið í heitu baði og sagt við sjálfa mig: Mikið eigum við íslendingar gott að geta notið þess að liggja í heitu hreinu vatni hvenær sem okkur dettur í hug. Ég sé sko ekki eftir peningunum sem ég borga í hitaveituna í hverjum mánuði. Það eru heldur ekki allir jarðarbúar sem hreiðra um sig í mátulega heitum híbýlum árið um kring. Og hvað ég er heppin að hafa getað keypt þessa yndislegu íbúð. Ég sé hvorki eftir peningunum sem ég borga fyrir hana í hverjum mánuði, né heldur tímanum sem fer í að vinna fyrir henni.
Já það hefur oft komið sér vel, að hafa verið innprentaður Pollýönnuleikurinn í æsku, þó á snemmfullorðinsárum hafi hann oft farið í taugarnar á mér. En í dag hugsa ég þetta ekki sem Pollýönnuleik, þ.e. að láta allt yfir sig ganga - og gera bara gott úr því. Alls ekki. Ég sé allt sem val. Stundum koma upp aðstæður, þar sem manni finnst maður bara eiga val um að láta hengja sig eða skjóta (líkingamál að sjálfsögðu), en þú átt samt alltaf val. Og þegar maður hefur valið, þá verður maður að temja sér að líta á kostina við valið, því þeir eru jú fleiri en við hinn möguleikann.
Ég þekki mann, sem var tilfinningalega stórþjáður af virkum alkóhólisma, en hann gat ekki farið í meðferð, því hann var viss um að lenda í herbergi með illa lyktandi stórreykingamanni, sem hryti allar nætur, svo hann gæti ekkert sofið. Hann gæti jafnvel lennt í herbergi með barnaníðingi eða morðingja. "Þú bara velur þarna á milli. Svo nýturðu kostanna við nýtt og betra líf án drykkjunnar, eða þú nýtur þess að drekka áfram" sagði naívistinn ég. "Þú skilur þetta ekki Laufey mín" var svarið. Enda hefur fíkillinn alltaf réttlætingarnar á reiðum höndum.
Við höfum alltaf val. Og við þurfum aldrei að velja verri kostinn. Ég hef oft fengið fáránlegar spurningar á borð við: Þarftu að spila á öllum þessum tónleikum? Þarftu að fara svona oft í leikfimi? Mörgum finnst að ég gæti sloppið mun billegar frá lífi mínu og starfi. Og ég get valið það. Ég get valið að sleppa billega. Í flestum tilfellum finnst mér bara svo miklu skemmtilegra og dýrmætara að leggja dáldið á mig og njóta kostanna við það. Þess vegna vel ég það.
Að mega ekki, er hugtak sem tengist þessu stundum. Oft er sagt við mig: Þú mátt borða þetta, það er enginn sykur í því. Þá svara ég alltaf eins: Ég má borða hvað sem ég vil, ég hef bara valið að borða ekki sykur í dag, því þannig líður mér svo miklu betur, auk þess sem mig langar ekki að vera virk í þeirri fíkn aftur.
Ég þarf ekki. Ég má og vel. Lökkí mí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.6.2008 | 11:14
Fyrirgefning og iðrun.
Já já ég veit. Það er kominn mánudagur og ég ætlaði að koma með orðhengilspistil á sunnudag. Ég bara fór á svo stórkostlega tónleika í Súlnasalnum í gær, til minningar um Árna Scheving, sem hefði orðið sjötugur. Ég þorði ekki annað að mæta tæpum klukkutíma fyrir tónleika (klukkutíminn sem átti að fara í orðhengilspistilinn) til að fá gott sæti. Það tókst, en hefði annars ekki gert það, því salurinn var stappfullur og margir mættu snemma.
En að hugtakaskilningnum. Sem Kristin 12 spora kona, eru fyrirgefning og iðrun mér hugleikin. En stundum finnst mér þessi hugtök ofnotuð og léttvæg fundin. Þá er ég aðallega með tvennt í huga: Í fyrsta lagi segir fólk oft fyrirgefðu, í staðin fyrir afsakaðu. Ég meira að segja stóð sjálfa mig að því í gær, við kassann í 10-11 að kalla á eftir konu; fyrirgefðu ert þú nokkuð að gleyma þessum poka? Ég er samt að reyna að venja mig af þessu, því ég ber mikla virðingu fyrir þessu hugtaki og tek það alvarlega. Í öðru lagi er allt of algengt (og öllu verra) að fólk biðjist fyrirgefningar, svona eins og til að losna við ásakanir í sinn garð, en haldi síðan áfram fyrri iðju sinni eins og ekkert sé. Ég vona að ég falli aldrei í þá gryfju.
Ég skilgreini fyrirgefninguna svona: Ef ég geri þér eitthvað og bið þig svo að fyrirgefa mér, þá er ekkert sjálfgefið að þú segir já. Ef þú hins vegar gerir það, þá ertu að afsala þér réttinum á að nudda mér upp úr misgjörð minni (bæði í huga þér, orði og verki). En þar með er ég ekki laus allra mála. Fyrirgefningin virkar ekki í báðar áttir, nema ég iðrist. Og að iðrast er ekkert kæruleysislegt; sorrí ég sé eftir þessu. Þeir sem skilja grísku og hafa lesið nýja testamentið á frummálinu, segja mér að iðrunarhugtakið í þeirri bók þýði að snúa við blaðinu, breyta hegðun sinni, viðhorfi, eða því sem þarf að breyta, til að fyrri mistök endurtaki sig ekki.
Pælum í þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2008 | 12:00
Óveðursganga.
"Ég er ekki vatnshrædd. Ef maður ætlar að ferðast um Ísland, - ég
tala nú ekki um, gangandi - þá verður maður að gera ráð fyrir öllum veðrum og búa sig samkvæmt því". Þennan ræðustúf hélt ég einu sinni sem oftar nú fyrir helgi, þegar mér var sagt að roki og rigningu væri spáð fyrir laugardaginn. Ræðustúfinn rifjaði ég upp fyrir sjálfri mér í upphafi göngunnar í gær og litlu munaði að ég æti hann oní mig strax á fyrstu metrunum.
Það var slydda þegar við fórum út úr rútunni við fjallið Þorbjörn. Hún breyttist snarlega í haglél - og nokkrum sekúntum síðar í hellidembu, sem stóð næstu 5-6 klukkustundirnar. Og vindurinn var ekki beint að læðast með veggjum (eða hlíðum), hann æddi um með hávaða og látum. Rok og rigning var mjög vægt til orða tekið.
Ég hélt ég væri í nokkurn vegin regnheldum hlífðarfötum, en ýkjulaust!!; ég var orðin holdvot strax á fyrstu mínútunni. Sokkar, nærbuxur, bolur og allt eins og dregið upp úr ísköldu stöðuvatni. Og 5 stunda ganga framundan. Frekar ónotaleg tilfinning. Hefði átt að taka með mér góða bók og verða eftir í rútunni. En rútan var farin.
Svona eftir á, var þetta samt mjög góð gönguferð. Mér bara líður alltaf svo vel þegar ég geng úti í íslenskri náttúru. Jafnvel við aðstæður sem þessar. Þetta var reyndar ekki fjallganga, eins og ég missti út úr mér í síðustu færslu,- heldur gengum við um heilmikið sprungusvæði þarna á Reykjanesinu og skoðuðum slatta af hlöðnum byrgjum. Reyndar sá ég ekki mikið út um rennblaut gleraugun. Fann þess vegna fyrir smá hræðsluvotti, þegar við gengum yfir grýtt og úfið hraunið, þar sem brussunni mér hefði verið trúandi til að fljúga á hausinn á rennblautu og sleipu grjótinu og bera fyrir mig vettlingalausa fingurna. Af umhyggju fyrir píanófingrunum fór ég varlega.
Eftir 5 tíma göngu tók við hálftíma bið eftir rútunni (gangan hafði verið áætluð fimm og hálfur, en maður gengur auðvitað hraðar í óveðri), sem keyrði okkur í Sundlaug Grindavíkur. Oft hefur verið gott að leggjast í heitan pott, en aldrei eins og þarna. Enda hafði ég séð pottinn í hyllingum mest alla gönguferðina. Við snæddum svo í Saltfiskhúsinu og sungum svo og dönsuðum áður en haldið var heim á leið.
Ég svaf vel og lengi í nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)