Færsluflokkur: Bloggar

Sojalatte eða hvað?

Það vill svo heppilega til að eftir að Grýlu-kanil-kaffið kom aftur á markað fyrir 2-3 vikum, hef ég verið með besta móti í vélindanu, svo ég hef auðveldlega getað leyft mér 3 bolla á dag án þess að kenna mér meins. Bara nautn og unaður. Í morgunn - í svartasta skammdeginu - þurfti ég að mæta fyrr en vanalega í vinnuna og undir slíkum kringumstæðum er fyrsti kaffibollinn ennþá mikilvægari og betri en vanalega. - Og meðvituð um það gekk ég til náða í gærkvöldi full tilhlökkunar að rífa mig á fætur fyrir allar aldir og smjatta á unaðslegum sojalatte í kjölfar morgunbústsins. En - hvað var nú þetta?!?! - sojalatteinn bragðaðist ömurlega, - ekki viðlit að koma niður einum einasta sopa. Ég helti ógeðinu í vaskinn og lagaði nýjan bolla og vandaði mig sérstaklega við að stappa kaffið hæfilega í expressokönnuna og hafa hitann á hellunni þannig að þrýstingurinn yrði sem heppilegastur. Hitaði sojamjólkina eins og vanalega og blandaði öllu í brottnámsbrúsann minn því ég nú þurfti ég að rjúka á stað í vinnuna. Á fyrsta rauða ljósi setti ég upp unaðs-nautna-svipinn um leið og ég tók fyrsta sopann úr brottnámsbrúsanum. En hann var alveg jafn viðbjóðslegur og fyrsti sopinn úr fyrri lögun morgunsins. Hvað var í gangi? Hef sjaldan upplifað önnur eins vonbrigði. Í vinnunni skellti ég í mig nokkrum earl-gray-bollum. Þegar heim kom skoðaði ég sojamjólkurfernuna í ísskápnum vel og vandlega til að athuga hvort hún væri komin fram yfir síðasta söludag. En - hvað var nú þetta? Coconut-almond-kokos-mandel-hvað-ha? Og það með fjólubláum stöfum. Það átti bara að standa Soya - og það með ljósbláum stöfum. Ég ætlaði mér aldrei að laga mér neitt kókos-möndlu-kaffi. Þessa fernu hlýtur eiginmaðurinn að hafa keypt og sett í ísskápinn án þess að láta mig vita. Það er ekki fræðilegur möguleiki á að ykkar einlæg sé nægilega athyglisbrostin til að hafa keypt þessa fernu. Ég sem bý til mína eigin möndlumjólk í morgunbústið, en vil ekkert annað en Provamel sojamjólk með bláum stöfum í kaffið. Þurfti að drífa mig á kóræfingu og tónleika strax eftir vinnu - og nú er komið kvöld, svo ég verð að láta mig hafa það að ganga til náða eftir kaffilausan dag. En auðvitað keypti ég Provamel sojamjólk á leiðinni heim af tónleikunum og hlakka óheyrilega til að rífa mig á fætur í fyrramálið og laga mér TVO bolla af sojalatte strax og smjatta á þeim. Best að drífa sig í háttinn.


Morgunraunir

Ég var óvenju löt þegar ég fór á fætur í bítið, svo ég hlakkaði virkilega til að hressa mig á morgunkaffinu sem ég fæ mér vanalega strax eftir morgunmatinn. Og ekki var tilhlökkunin minni þegar það rifjaðist upp fyrir mér að eiginmaðurinn átti líka að mæta seinna en vanalega í vinnuna og hafði því skorað á mig í scrabble. En þegar ég kom fram í eldhús, uppgötvaði ég að það var ekki til dropi af sojamjólk. Hefði hugsanlega látið mig hafa "beljulatte" ef þannig mjólk hefði verið til, en svart kaffi drekk ég ekki. Og mig langaði ekki í te þarna í morgunsárið, þó það geti verið gott nálægt hádegi.
Er svo heppin að hellingur af matvöruverslunum er því sem næst á hlaðinu hjá mér og tvær þeirra opnar allan sólarhringinn. Slafraði í mig morgunmatnum í þeirri von að ég fengi smá orku til að fara út í búð eftir sojamjólk. Orkan kom ekki, en ég druslaðist í kraftgallann utan yfir náttfötin, þó að næstum sé komið sumar, - því það er partur af þessu prógrammi að scrabbla og drekka morgunkaffið á náttfötunum. - Og - haldið ykkur fast - ég fór á bílnum (ekki hjólinu) út í Nettó.
Var lengi að leita að "minni" tegund af sojamjólk, en mundi svo eftir því að þeir voru að skipta um umbúðir, svo fernar "mín" er núna grá en ekki blá. Fór heim með gráa fernu, en gretti mig þessi ósköp þegar ég tók fyrsta sopann. Eiginmaðurinn benti mér góðfúslega á að nýju umbúðirnar eru gráar með bláum stöfum en ekki rauðum.
Aftur í kraftgallan - grautfúl - og út í bíl. Þá sló klukkan 9, svo ég fór beint í Krónuna, en þar var ekki ein einasta ferna af Provamel sojamjólk með bláum stöfum - og EKKI HELDUR í 10-11.
Róa sig Laufey, sagði ég við sjálfa mig þar sem ég stóð fyrir framan kælinn í 10-11, - þetta er nett lúxusvandamál - og nú getur þú valið um að kaupa öðruvísi mjólk, eða fara heim og klæða þig og hjóla út á næsta kaffihús. En þá mundi ég eftir því að á kaffihúsinu "mínu" var ekki til sojamjólk í gær, auk þess sem ég var alvarlega innstillt á kaffi+scrabble á náttfötunum. Svo ég valdi G-mjólk og ákvað að búa til cappuchino.
En cappuchinoið var ekki nærri því eins gott og það sem mágur minn lagaði handa mér í fyrrasumar og því síður jafn gott og á franska kaffihúsinu í Kaliforníu í vetur, svo munnvikin lyftust ekki agnarögn meðan ég reyndi að sötra það - og fallega lóðrétta hrukkan milli augnanna var dýpri en nokkru sinni fyrr, - svo eiginmaðurinn sá sitt óvænna og bauð mér á kaffihús, þar sem ég fékk þetta líka fína sojalatte - og tók gleði mína á ný.
Hugsið ykkur bara. - Þessi líka glaðlynda kona sem ég er, - að leggja á sig allt þetta fúllyndi og sjálfsvorkunn, - til þess eins að snapa sér boð á kaffihús.
Ja allt er nú til.

Óhljóð

Ég er alveg óhemju viðkvæm fyrir ýmsum hljóðum. Sem ég held að sé t.d. skýringin á þvi af hverju ég stilli vekjaraklukku eins sjaldan og ég kemst upp með og vakna þá næstum alltaf rétt áður en hún hringir. Hljóðið í vekjaraklukkunni er þó eins og ljúfasta vögguvísa miðað við hljóðið sem toppar allt í að taka mig á taugum; þ.e. hljóðið í REYKSKYNJARANUM. Til að forðast misskilning, þá hef ég ekki lent í eldsvoða, - og ég er óhemju þakklát fyrir tilvist reykskynjara og finnst nauðsynlegt að til séu nokkrir virkir á öllum heimilum, þ.m.t. mínu.

Fyrir tæpum mánuði lennti ég í þeim ósköpum að þetta þarfaþing fór af stað. Var bara að rista hafra á pönnu, - skrapp inn í stofu, - gleymdi mér þar augnablik og skynjarinn byrjar að æpa um leið og ég kem aftur inn í eldhús. Í panikkasti slekk ég á eldavélinni, hleyp með pönnuna út á svalir, opna alla glugga og rikki tröppunni með látum út úr geymslunni. Fyrir ykkur sem ekki hafið komið heim til mín, þá er lofthæðin á fjórða metra. Eiginmaðurinn yfirvegaði var víðs fjarri, svo ég þurfti að gera það sem ég hafði aldrei gert áður, - stökkva sjálf upp í tröppuna að öskurapanum ógurlega. Með þessi ægilegu öskur svo gott sem í eyrunum versnaði panikkastið, svo ég gaf mér ekki þann fjölda sekúnta sem þurfti til að finna út úr því hvernig ætti að stöðva óhljóðin, - heldur var ég snögg að álykta að næst á dagskrá væri að láta aðra íbúa hússins vita að enginn væri eldsvoðinn. Bankaði harkalega á dyrnar fyrir ofan, en beið ekki eftir svari, heldur hljóp niður og réðst aftur til atlögu við öskrandi öryggistækið. Eini takkinn sem ég fann á "skrímslinu" virkaði ekki (enda þóttist ég vita að hann væri bara til að "tékka"). Stökk niður úr stiganum þegar konan á efri hæðinni birtist - og bað hana að taka við. Hún var snögg að skrúfa skynjarann niður úr loftinu, fleygja honum í mig og segja mér að taka rafhlöðurnar úr honum. Svo einfalt atriði fattar maður ekki í panikkasti nema maður sé undirbúinn.

Í gærkvöldi er ég í mestu makindum að bíða eftir að fiskurinn í ofninum verði tilbúinn, þegar eiginmaðurinn vekur athygli mína á hitalyktinni sem kom út úr ofninum. Ég hafði sumsé gleymt að taka ofnskúffuna út þegar ég setti fiskinn í ofninn. Makindin mestu ruku út í veður og vind og á mig rýkur nett æði. Ég ætlaði sko ekki að láta reykskynjarann fara aftur af stað. Þreif skúffuna út úr ofninum (jú ég gaf mér tíma til að setja á mig ofnhanska) og hljóp með hana út á svalir. Hafði að sjálfsögðu gleymt því að í hádeginu hafði ég steikt mér buff - og skellt opinni pönnunni rétt út fyrir svalardyrnar í "smá stund" til að kæla afgangsbuffin. Smáa stundin var nú orðin að klukkustundum og á panikhlaupum mínum með ofnskúffuna steig ég auðvitað ofan í olíuborna pönnuna, renn einhvern vegin snögglega til með þeim afleiðingum að ofboðslegur kippur kom í lærið ofanvert.

Til að gera langa sögu stutta, þá er þetta að öllum líkindum slæm tognun í þessum stóra vöðva. Ég hringdi bæði í bráðamóttökuna, læknavaktina og heilbrigðisstarfsmann fjölskyldunnar til að fá ráðleggingar. Svo nú ligg ég "útúrdópuð" en fæ samt við minnstu hreyfingar - sem ég á erfitt með að finna út hverjar eru (aðrar hreyfingar eru í lagi) - svo slæma stingi að ég æpi upp yfir mig. Þau óp eru þó töluvert skárri en óhljóðin í reykskynjaranum sem fór EKKI af stað í þetta sinn. Mér tókst að forða mér frá því. Fórnarkostnaðurinn er samt dáldið óþægilegur, en fer þó hratt skánandi.

Lifið heil


Bæði betra?

Ég held að ég sé þekkt fyrir mjög ákveðnar skoðanir og oft á tíðum alhæfingar. Samt er ég mjög oft illa haldin af valkvíða, sem getur náð út yfir skoðanir, þannig að stundum finnst mér einfaldlega "bæði betra" eins og hann sagði forðum - strákurinn í Cheerios-auglýsingunni. Og ég tel það vera heilbrigðismerki. Í sumum tilfellum er heimskulegt að vera einstrengislegur og þrjóskur, því um margar skoðanir má segja það sama og um fólk; allir hafa bæði kosti og galla. Skoðanir, breytingar og leiðir (aðferðir) hafa oftast bæði kosti og galla - og stundum er einfaldlega "bæði betra". Og þar sem ekki alltaf er hægt að "gera bæði", finnst manni stundum dáldið súrt að geta ekki bæði átt kökuna og étið hana.

Hérn um árið, þegar við höfuðborgarbúar kusum um það hvort við vildum láta flugvöllinn vera áfram í Vatnsmýrinni eða fjarlægja hann, þá lenti ég í valkvíða. Sem betur fer endaði ég á að krossa við að hann yrði áfram þar sem hann er og sé ekki eftir þeirri ákvörðun (meira um það síðar ef þið endilega viljið). En það breytir ekki því að ég get/gat að mörgu leyti tekið undir sjónarmið þeirra sem vildu hann í burtu.

Um það leyti sem ég gekk í hjónaband í þriðja sinn heyrði ég af dönsku pari sem ætlaði að gifta sig hjá gömlum dönskum presti, sem sagði þeim ósköp vinalega og blíðlega að það væri á móti hans sannfæringu að gifta fólk sem hefði verið gift áður, en hann gæti bent þeim á nokkra góða presta sem væru annarar sannfæringar. Þetta var á þeim tíma sem baráttan fyrir hjónaböndum samkynhneigðra stóð sem hæst á Íslandi (þ.e. rétt áður en ég sagði mig úr þjóðkirkjunni, m.a. vegna vonbrigða minna á hægagangi þeirra mála). Þá hafði ég lengi hugsað með mér: Það að banna samkynhneigðum að ganga í heilagt hjónaband er alveg jafn rangt og að banna fólki að skilja og gifta sig aftur. - Það stendur beinlínis á sömu blaðsíðunni í 3.Mósebók (sem er n.b. ekki mitt persónulega trúarrit). En mér fannst þetta ágætis lausn: þ.e. að sjálfsögðu ætti að leyfa samkynhneigðum að giftast eins og okkur hinum, - en ef það væri á móti sannfæringu einstaka presta, þá gætu þeir brugðist við eins og danski presturinn gerði gagnvart "hórdómnum". Og að vissu leyti finnst mér það ennþá. Og þá fyrst og fremst gagnvart brúðhjónunum sjálfum. Ekki mundi ég vilja gifta mig hjá presti sem væri í hjarta sínu mótfallinn mínu hjónabandi. Því var það þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins í dag, að ég hugsði; jæja, erum við Hildur Eir nú loksins orðnar ósammála?

EN: - Svo kom nánari umhugsun: Af hverju ættu prestar að neita einhverjum um þjónustu sína. Ef ég væri prestur, þá gæti komið upp sú staða að ég þyrfti að gifta mann sem ég væri sannfærð um að kæmi til með að berja konuna sína í spað, eða halda endalaust framhjá henni. Gæti ég neitað að gifta það par? Að maður tali nú ekki um öll fermingarbörnin sem ég þættist viss um að mér hefði mistekist að kristna og að þau væru bara að fermast vegna gjafanna. Hvað með barnaníðinginn og hina glæpamennina - gæti ég neitað að jarða þá? Af hverju í ósköpunum ætti einhver frekar að neita saklausu samkynhneigðu pari um eðlilega þjónustu?

Og hvað með okkur hin, sem vinnum við að þjónusta fólk? Eru ekki vandræðagripir í flestum grunnskólabekkjum? Eiga grunnskólakennarar að fá fullan rétt til að neita að sinna þeim börnum sem t.d. sinna ekki náminu og/eða komast upp með eina alsherjar "fokkjú"hegðun gagnvart kennaranum? Hvað með heilbrigðisstarfsfólk: Á starfsfólk á bráðadeild að fá að neita að sinna slösuðum sjúklingi, ef viðkomandi er glæpamaður eða önnur andstyggileg manneskja að hans mati? Eiga ljósmæður að fá að neita að taka á móti barni, ef þær halda að viðkomandi foreldrar séu óhæfir til að annast barnið? O.s.frv.

Nei, - ég held að mér finnist ekki bæði betra. - Á sama hátt og ég er sannfærð um að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni, - er ég sannfærð um að það er virkilega ljótt mannréttindabrot að ákveðnir prestar geti neitað samkynhneigðum um sína þjónustu. 

Hins vegar eigum við sem þjónum fólki (kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, prestar og fleiri) aldrei að láta það óáreitt ef við höfum minnsta grun um illa meðferð á börnum eða aðra glæpamennsku. - Það er bara allt annar handleggur.

Lifið heil.


Sagan af hjólinu dýra (ásamt leigubílstjórum á Kanarí)

Það eina sem ég var ákveðin í að gera á Kanarí (og er löngu ákveðin í að gera hvenær og í hvaða landi sem ég kem) var að leigja mér hjól. Fyrir ferðina sendi dóttir mín mér linkinn: Biking in Gran Canaria. Þegar ég smellti á hann opnaðist strax auglýsing frá hjólaleigu, sem var meira að segja með alveg eins hjól og ég á. Og þeir sögðust koma með hjólið á gististaðinn og sækja það aftur þegar maður vildi. Ég var ekki sein á mér að leggja inn pöntun.

Þær dætur mínar höfðu líka hamast við að draga mig upp úr sauðskinnsskónum áður en ég fór út. Önnur hafði m.a. sett facebook í nýja æfóninn minn (og kynnt mig fyrir ýmsum möguleikum þar) og hin setti gps-kort í þann sama fón. Hvort tveggja notaði ég óspart, ásamt því að fikra mig áfram sem aldrei fyrr, svo ég upplifði mig sem algjört tæknitröll þarna úti.

Dagur 1:

Í flugvélinni var mér sagt að leigubílar á Kanarí kostuðu skíð-og-ingenting, svo ég leyfði mér þann munað að hoppa inn í einn slíkan við flugvöllinn. Dú jú spík english spurði ég og hann sagði sí madam. Þá sýndi ég honum heimilisfangið mitt bæði á handskrifuðu blaði og á útprentun (með addresu) frá gististaðnum. Sí madam sagði hann og æddi af stað um leið og ég spurði há mení júros (held ég hafi hvorki náð að loka dyrunum né óla mig áður). Sí madam Las Palmas sagði hann og gaf í með báðar framrúður galopnar og báða addresu-pappírana mína í annari hendi.

Eftir fyrstu tilraun til að jafna mig opnaði ég gps-kortið í símanum, og fór að fylgjast hvort hann væri nokkuð að fara með mig einhverja vitleysu.

Þegar inn í borgina var komið fór hann að spyrja (á spænsku, hann talaði ekki stakt orð í ensku) og brosandi sýndi ég honum þessa einföldu leið á frábæra gps-appinu. Hann hrökk í kút eins og ég væri að sýna honum geislavirka galdragræju frá öðrum hnetti. Og hann skildi með engu móti; jor kar blú, mæ hótel red. Svo ég tók að leiðbeina honum á táknmáli (ég tala ekki stakt orð í spænsku). Held að höndin á mér hafi lengst um nokkra sentimetra í ákafa mínum við að benda honum að keyra beint áfram. Og svo barði ég eins og brjálæðingur í vinstri eða hægri rúðuna þegar hann átti að beygja. En hann brosti bara með sitt sí madam og gerði svo bara einhverja bölvaða vitleysu. Fór til dæmis einhvern aukakrók í eitthvert aukahverfi (ég skil ekkert í að höndin á mér skildi ekki rekast harkalega í framrúðuna við að skipa honum beint áfram í það skiptið) og fann þar annan leigubílstjóra, skrúfaði niður rúðuna og bar sig upp við hann. Þú þarft ekkert að tala við hann, taktu bara mark á mér þegar ég navageitora þig, sagði ég bæði á ensku og íslensku. Mér leið eins og ég væri að leika í bíómynd eftir Almodovar. Brjáluðu spænsku konurnar í þeim myndum blikna og blána í samanburði við mig í þessari mynd. Ég reyndi að þrátta við hann loks þegar á leiðarenda var komið, þegar hann rukkaði mig um 6 sinnum hærra gjald en íslendingarnir í flugvélinni höfðu talað um.

Ég hélt að ég hefði verið óvenju óheppin með bílstjóra. - Þessi staður þrífst á ferðamannaiðnaði hugsaði ég með mér, leigubílastjórar og menn í álíka þjónustustörfum hljóta að tala einhverja ensku og hafa meiri þjónustulund hugsaði ég með mér. - Annað átti nú eftir að koma í ljós.

Þegar ég kem á gististaðinn kannaðist íbúðareigandinn Carlos ekkert við þá á hjólaleigunni, - þó hafði ég gefið þeim upp símanúmerið hans. Hann tók mynd af útprentuðum pappírum mínum frá hjólaleigunni (annar af tveimur mönnum þarna sem kominn var upp úr sauðskinnsskónum) og sagðist mundi hafa samband við þá, - líklega næ ég ekki í þá fyrr en í fyrramálið sagði hann, því orðið var áliðið dags.

Dagur 2:

Nálægt hádegi var Carlos búinn að ná í þá á leigunni en þeir könnuðust ekkert við mína pöntum og sögðust ekki vera með neina heimsendingarþjónustu. Viltu senda mér sms með addresunni þeirra og ég fer til þeirra, sagði ég. Þú getur gúgglað xxx stóð í sms-inu sem hann sendi mér. Ég gúgglaði, en á heimasíðunni, sem var bara á spænsku fann ég öngva addresu.

Þá fékk ég þá bráðsnjöllu hugmynd að koma mér út á hjólastíginn meðfram höfninni og freista þess að stoppa einhvern hjólreiðamann og spyrja hann um leigu. Það tókst (hann talaði meira að segja smá ensku). Benti mér á turn (hótel) í 3-5 km fjarlægð og sagði að hjólaleigan væri vinstra megin við hann. Hann vissi hvorki götunafn né númer, sagði að ég skildi spyrja vegfarendur þegar þangað væri komið. Ég fullvissaði mig um að hann væri að meina nyrðri turninn af þessum tveimur, þ.e. þann sem var lengra í burtu - og lagði svo af stað.

Gekk meðfram höfninni þangað til ég var komin á móts við turninn. Ætlaði þá að turninum með því að fara yfir mestu og breiðustu umferðargötu eyjarinnar, en komst þá ekki einu sinni að götunni fyrir endalausum sambyggðum skemmum. Loks þegar ég komst framhjá skemmunum (til baka - í suðurátt) og að götunni, þá þurfti ég að ganga annað eins og rúmlega það (líka í suðurátt) til að komast yfir götuna. Og þá var eftir heilmikil ganga að nyrðri turninum. 

Vinstra megin (sunnan) við turninn leitaði ég og leitaði - og spurði og spurði, en svarið var alltaf það sama; engin hjólaleiga hér, bara í Santa Katalina. Og samkvæmt kortinu mínu var S.Katalína vinstra megin (sunnan) við syðri turninn. Ég hef þá greinilega misskilið þennan elskulega hjólastrák, hugsa ég með mér og tek strikið að S.K. sem er stærðar svæði með fullt af kaffihúsum, tónleikasvæði o.fl. Enginn talaði ensku og ég þurfti að látbragðsleika konu á hjóli þó nokkrum sinnum áður en mér var vísað á staðinn sem gæti leigt mér hjól.

Þar var kona sem var sæmileg í ensku og ég fékk að vita að hjólin þeirra væru leigð í hámark 3 klukkustundir (já hún sagði og meinti klukkustundir) í senn. En hún gat vísað mér á stað sem leigði hjól í viku eða meira - og gat meira að segja merkt þann stað inn á kort fyrir mig. En þá var orðið það áliðið dags að hún taldi líklegt að þeir væru um það bil að loka.

Dagur 3:

Ég fór snemma á stúfana, spennt að komast á leiguna. En þar voru eingöngu leigð rafmagnshjól sem ég kærði mig ekkert um. Og þeir vissu ekkert um neina leigu með venjulegum hjólum.

Svo ég rölti yfir á hina ströndina þar sem ég vissi af góðum hádegisverðarstað, settist niður til að fá mér að borða (eins og strákurinn í sögunni um Búkollu) og sendi sos-sms á dætur mínar (tæknitröllið ég var nú ekki lengi að rigga upp einum 3ja manna spjallhópi) og sagði þeim farir mínar ekki sléttar: Getiði plííís fundið fyrir mig ADDRESU á hjólaleigu sem leigir mér almennilegt hjól í 11 daga. Þær sendu mér nokkrar hugmyndir. Þær sem virtust nothæfar voru: Önnur fann símanúmerið á leigunni sem Carlos hafði sagt mér að gúggla. Ég hringdi þangað, en þeir töluðu bara spænsku. Ég tönnlaðist á orðinu addresa og tókst að draga hana upp úr þeim. Prófaði allar mögulegar útgáfur á stafsetningu á kortinu í símanum, án árangurs. Hin dóttirin fann eina addresu; Callejón del Molino múmeró 3 (mér skilst að Callejón þýði lítil gata, allar göturnar þarna heita Calle-eitthvað).

Þarna var sólin farin að skína og klukkan farin að tifa, svo ég þorði ekki annað en hoppa upp í næsta leigubíl, heim að bera á mig vörn 30, því Callejón del Molinu var í stóru hverfi (Triste) syðst á höfuðborgarsvæðinu (mitt hverfi var nokkurn vegin nyrst). Upp í næsta leigubíl og af stað til Triste. Ég hafði sýnt bílstjóranum addresuna á miða og bent honum nákvæmlega á staðinn á korti, en þegar við nálgumst Triste, segir hann bara; Triste grande (stórt) og vissi ekkert hvert hann átti að fara. Ég sýndi honum kortið og benti á götuna, en hann lét eins og hann hefði aldrei séð svona fyrirbæri áður (venjulegt götukort á pappír) og hélt langa ræðu á spænsku. Þá loksins þorði ég að sýna honum gps-ið í símanum, en viðbrögðin voru eins og hjá fyrsta bílstjóranum. - Og ég upphóf sama látbragðsleikinn og áður með bendingum og hrópum, en hann tók ekkert mark á mér, - keyrði einhverja bölvaða vitleysu, - skrúfaði niður rúðuna til að tala bæði við akandi og gangandi - og ég öskraði bæði á ensku og íslensku (hann skildi ekki heldur stakt orð í ensku): Hættu að þykjast vera að fá upplýsingar hjá öðrum, - ÉG ER AÐ SEGJA ÞÉR hvort þú átt að keyra beint eða hvert þú átt að beygja.

Þegar ég sá (á bláa punktinum á appinu, sem var bíllinn hans sem hreyfðist) að við vorum að fjarlægjast áfangastaðinn, en samt í göngufjarlægt, bað ég hann að stoppa (STOP hélt ég að væri alþjóðlenska). Hann keyrir þá upp að nálægu húsi og bendir brosandi á töluna 3; sí madam númeró 3. Ég borga honum með rammfalskt bros á vör og ætla að drífa mig út úr bílnum, en þá tekur hann miðann með addresunni, strikar yfir rétta götunafnið og skrifar í staðin nafnið á götunni sem við vorum stödd í.

Ég læt appið leiða mig gangandi eftir krókóttum bröttum götum í gömlu skemmtilegu hverfi, en þegar ég kem á rétta staðinn lýst mér eiginlega ekkert á blikuna. Númer 3 var bakhús í dimmu og skuggalegu húsasundi og þar stóðu 2 óálitlegir náungar sem litu út fyrir að vera að bíða eftir einhverjum sem ekki var ég. Þeir virtu mig fyrir sér og eftir að hafa "heyrt" þá spá í hvort ég hefði verið send í staðin fyrir viðskiptavin þeirra, eða hvort ég væri óeinkennisklæddur lögregluþjónn, - greip ég á orskotsstundu til þess ráðs að ýkja þá sem ég var; Benti hlæjandi á hús númer þrjú og spurði mennina; þetta er ekki hjólaleiga er það? Þeir stóðu sem steinrunnir. Ég prófaði látbragðsleikinn, var orðin mjög þjálfuð í að leika konu á reiðhjóli. - Engin viðbrögð. Nei augljóslega ekki, sagði ég þá brosandi og reyndi að ganga afslappað og eðlilega út úr húsasundinu.

Þá datt mér í hug að þetta götunafn fyrirfyndist á fleiri en einum stað á höfuðborgarsvæðinu, svipað og sömu nöfn finnast í bæði Hafnarfirði og Kópavogi. Fór á facebooksíðu sem önnur dóttirin hafði sent mér link á - og þeir höfðu þá verið svo elskulegir að setja götukort af rétta staðnum. Hugboð mitt reyndist rétt, - rétti staðurinn var í "Kópavogi" en ekki "Hafnarfirði" (Triste). En þarna var klukkan orðin rúmlega 5, svo ég tók ekki sjensinn á að koma að lokuðum dyrum í "Kópavogi", heldur rölti um staðinn eins og það væri partur af ferðaáætluninni, fann huggulegt kaffihús og settist þar niður og naut lífsins.

Dagur 4:

Tók leigubíl að Callejón del Molino í "Kópavogi". Sá bílstjóri var alveg í stíl við hina þrjá. T.d. eigum við bara örstutt eftir þegar hann stoppar, skrúfar niður rúðu og fer að spjalla við fólk á förnum vegi. Þetta er hérna, bara upp þessa stuttu brekku og svo annað hús til vinstri - segi ég. Þegar hann tekur ekki mark á mér, losa ég beltið og ætla að æða út úr bílnum, en þá tekur hann auðvitað á rás upp brekkuna og beygir - alveg hissa þegar hann sér götuskiltið með rétta nafninu.

Þarna var ég komin í einhvern ægilegan útnára - einhvers konar verksmiðjuhúsnæði virtist mér og númer 3 (annað húsið af tveimur við "götuna") leit alls ekki út fyrir að vera hjólaleiga.

Út úr húsinu kemur maður aðeins eldri en ég - og hann virtist kunna smá ensku. Sí, - jú þetta er hjólaleiga, komdu með mér inn. Ég rétt svo þorði með honum (einu manneskjunni í 300 metra radíus) inn, þar sem hann sest við skrifborð og TÖLVU (þá varð ég undrandi) og biður um vegabréfið mitt. Ég vildi nú fá að sjá hjólin fyrst, en þarna voru greinilega engin hjól. Honum tókst að koma mér í skilning um að hann þyrfti að skrá niður upplýsingar úr vegabréfinu mínu og skrá mig í einhvern hjólaklúbb og borga honum, svo færi ég á einhvern af þessum stöðum sem hann sýndi mér í tölvunni sinni (og voru í "norðurbænum mínum"), þar fengi ég lítið borgarhjól sem ég gæti notað í hámark 3 klukkustundir án endurgjalds. 

- Ónei ónei, það er ekki það sem ég er að biðja um. En þá gerðust undur og stórmerki; maðurinn skildi hvað ég vildi, fann addresuna á RÉTTU hjólaleigunni og - haldið ykkur fast - prentaði hana út úr tölvuprentara handa mér. Æ þetta er svo lítið sagði hann (addresu-auglýsingin með bút af götukorti var bara á ca 1/6 af A4-blaði). Ekkert mál, sagði ég - þetta er frábært, nákvæmlega það sem ég þarf, þú ert búin að bjarga lífi mínu. 

Og úr því að hann var byrjaður að bjarga lífi mínu, þá bað ég hann að segja mér hvar ég fyndi strætó sem færi í norðurbæinn. - Og ef hann vildi líka bjarga deginum mínum, þá gæti hann leyft mér að nota salerni.

Ég fann strætó (auðveldlega með mitt korta-app) átti auðvelt með að fara úr á réttum stað eftir appinu og FANN HJÓLALEIGUNA. Hún var þá í næsta húsi fyrir norðan (til hægri en ekki vinstri) nyrðri turninn sem hjólastrákurinn hafði bent mér á þarna fyrsta morguninn.

Yndislegi kallinn á leigunni var ca 10 árum eldri en ég, talaði sæmilega ensku og sagði mér að hjóli eins og ég vildi helst yrði skilað kl 6 (klukkan var rúmlega 2). Ég kem þá sagði ég, - viltu halda því fyrir mig, - ég er ALVEG ÁKVEÐIN í að taka það. Snéri aftur inn á leiguna og spurði hvort hann vildi ekki fá nafnið mitt eða eitthvað, - hvort hann myndi örugglega eftir mér? Ég man eftir þér, sagði hann og brosti.

Ég gekk nokkrar húslengdir yfir á yndislegu (vestur)ströndina og fékk mér þar hádegismat í rólegheitum. Kl 4.30 þorði ég ekki annað en kíkja á leiguna, bara svona til að hann væri með það á hreinu að mér væri alvara. Og þá var hjólið mitt komið.

Ég held að ég hafi flogið frekar en hjólað út af leigunni og suður með allri austurströndinni. Lét klukkuna segja mér hvenær ég ætti að snúa við, til að ná heim fyrir myrkur.

Dagur 5 var sögulegur og dvölin í heita landinu unaðsleg í alla staði, en ég legg ekki meira á ykkur að sinni. Enda lauk hér leitinn að hjólinu dýra. Leigan á hjólinu var mjög lág, þjónustan og hjólið frábært. Þetta hugtak "dýra" er auðvitað bara tilvitnun í Laxnes, auk þess sem leitin sjálf kostaði "blóð, svita og tár" og hellings peningur (datt ekki í hug að telja það saman) fór í leigubílana.

En ef þið ætlið að leigja ykkur hjól í Las Palmas, hafið þá samband við mig - Ég hef allar upplýsingar sem þið þurfið.

Lifið heil.


Heilsubót í heitu landi

Þegar gigtin versnaði aftur í vetur sagði læknirinn að það besta sem ég gæti gert væri að vera hálfan til heilan mánuð í heitu landi á meðan kaldast væri á Íslandi. Jessss hugsaði ég, - nú er loksins komið að því. - Ég er nefnilega búin að vera á leiðinni til Kúbu í ca 30 ár. Eiginmaðurinn hafði fram að þessu ekki verið sérlega áhugasamur um að ferðast með mér til "kommúnistalandsins", en þegar þarna var komið sögu skellti hann sér í tölvuna og fann fyrir okkur vikuferð til Kúbu. - En ég þóttist vita að ein vika væri ekkert að gera fyrir gigtina mína og reyndi að framlengja, en það dæmi gekk ekki upp nema fyrir ca hálfa milljón bara fyrir mig eina.

Svo við ákváðum að vera tímanlega í þessu Kúbudæmi fyrir næsta fyrir næsta vetur og fara þess í stað til Kanarí núna, - ég í hálfan mánuð og eiginmaðurinn með mér seinni vikuna. Við bókuðum með miklum hamagangi og látum - á eigin vegum - bæði ferð og gistingu (þ.e. án ferðaskrifstofu) og allt í einu var þetta bara frágengið, án þess að ég svo mikið sem pældi í því hvar á eyjunni ég mundi halda til. Enginn tími til að setja sig inn í staðhætti fyrr en eftir á. 

Þegar ég svo sagði frá því að ég væri að fara, spurðu viðmælendur mínir allar að því sama: Verðurðu á ensku ströndinni eða hinni ströndinni? Ég verð í Las Palmas svaraði ég. Nú - verðurðu í borginni - sögðu allir, mjög hissa. Er það eitthvað verra spurði ég á móti. Nei það bara eru allir íslendingarnir á ströndinni, - auk þess sem það er yfirleitt aðeins sólríkara þar suðurfrá. Jesss - sögðum við hjónin hvort við annað, - borgin er klárlega meira fyrir okkur. Við erum ekki þessar típur sem liggja í sólbaði allan daginn - æða í mollin þegar dregur fyrir sólu - og hanga svo á "klörubörunum" öll kvöld, syngjandi Anna í Hlíð og Ó Jósep Jósep.

 - Nei - ég sá mig frekar fyrir mér í eins og konu í skáldsögu eða bíómynd, - aleina í ókunnri borg, hjólandi á milli kaffihúsa hvar ég sökkti mér í spennandi bók á milli þess sem ég skoðaði mannlífið - innan um svo gott sem eintóma innfædda. Og þetta gekk algjörlega eftir. Mikið sem ég naut þess. Um leið og ég andaði að mér heita loftinu sem umlék mig og læknaði gigtina mína. Það var alltaf skýjað, en það skipti mig engu, ég fæ allt mitt sólskin í Vesturbæjarlauginni minni. 

Á fjórða degi gerði ég mér grein fyrir því að ég ætti efni í 2 hnausþykkar bækur. Aðra með nafninu; Leigubílstjórar á Kanarí og svo Leitin að hjólinu dýra. Innan tíðar geri ég heiðarlega tilraun til að þjappa efninu í eina bloggfærslu, vonandi ekki allt of langa (set inn myndir í millitíðinni).

Bíðið spennt.


Frjálst land?

Fórum í fermingarveislu á sunnudaginn sem haldin var í sal Hjálpræðishersins á Ásbrú (Reykjanesbæ). Það er mjög auðvelt að rata á þennan stað, - en í þetta sinn var ég upptekin við að hlusta á frásögn heimasætunnar úr aftursætinu - og keyrði því fram hjá afleggjaranum. Um leið og ég átta mig á því, sé ég afleggjara með skiltinu: Ásbrú 2 og tek hann auðvitað. Er í eðli mínu ratvís og taldi víst að ég myndi fljótlega rata á réttan stað.

Við byrjum á að keyra fram hjá mannvirki sem var (að ég taldi) hlið inn á herstöðina á meðan hún var og hét. Ég keyri svo sem leið liggur (samferðafólkinu fannst ég keyra dáldið hratt yfir háar hraðahindranir) og svipast um eftir beygju í áttina að veislusalnum, en alls staðar voru lokuð hlið í stað eðlilegra hliðargatna. Eftir hátt í 2ja km akstur, snéri ég við - tautandi yfir þessu furðulega gatnakerfi þarna á Ásbrú. - Ákvað að fara bara aftur út á þjóðveginn og þessa einföldu leið sem ég kunni.

Þegar ég kem að "fyrrum herstöðvarhliðinu" stendur þar ungur maður með ljótan svip. Hann gerði ekki ákveðna tilraun til að stöðva mig, það var frekar eins og svipurinn á honum gæfi skýrt til kynna að hann teldi víst að ég myndi stöðva á þeim forsendum að ég vissi upp á mig einhverja sök. Sem ég gerði svo sannarlega ekki. En ég stoppaði samt og skrúfaði niður rúðuna (svipurinn á manninum gerði klárlega ráð fyrir því).

"Hvert ert þú að fara" spurði hann.

"Við erum að fara í fermingarveislu" gall í 5 ára drengnum aftur í.

"Þetta er harðbannað að fara inn á þetta svæði" sagði "vörðurinn" þá.

Ég: Nú?, hvernig í ósköpunun átti ég að vita það?

Hann: Sástu ekki hliðið?

Ég: Jú, er þetta ekki síðan á dögum hersins? Herinn er löngu farinn.

Hann: Þetta er öruggissvæði Nató, - stranglega bannað að fara inn á það.

Ég: Hvernig átti ég að vita það? Það var ekkert sem stoppaði mig.

Hann: Það er búið að kalla á lögregluna, hún er á leiðinni að elta þig. 

Ég:  Ert´ekkað grínast?

Hann steinþagði og horfði bara á mig eins og ég væri allt í senn; útsmoginn glæpamaður, óþægur krakki og heimskingi.

Ég: Ég gat ekki vitað að ég væri að gera neitt sem ég mátti ekki.  Ég hélt að þetta væri frjálst land.

Áfram þögn og ljótur svipur.

Ég: Er ekki best að ég fari bara aftur út á þjóðveginn og leiðina sem ég rata að Hjálpræðishernum.

Hann steinþagði áfram og starði.

Ég: Hliðið fyrir framan mig er lokað. - Ætlarðu ekki að opna það? 

Áfram þögn og stara.

Ég: það er bíll þarna hinu meginn við skúrinn svo ég get ekki farið á hina akgreinina (bíllinn sá innihélt greinilega öryggisvörð sem hafði verið kallaður út).

Áfram þögn og stara. Svo hristi hann hausinn, snéri sér við og opnaði hliðið. Um leið og ég kom út um það mætti ég löggubílnum sem búinn var að slökkva á bláu ljósunum, - þ.e. hættur við að elta "glæpamanninn" mig.

Í fermingarveislunni var mér bennt á að ástæðan fyrir svipnum á verðinum hafi ekkert haft með hugmyndir hans um greindarfar mitt og glæpamennsku að gera, - heldur hafi hann greinilega verið í sjokki yfir því að hafa sofnað á verðinum. - Það hefði örugglega verið hægt að reka hann fyrir að ég skildi komast þarna í gegn.

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

Lifið heil. 


Big-Fan

Skrapp á Rosenberg í gærkvöldi með vinkonu minni. Sem er svo sem ekki í frásögur færandi, - ég fer þangað nokkuð oft. Og þetta byrjaði frekar hefðbundið: Þ.e.a.s. það var setið við öll borð og staðið upp við alla veggi þegar ég mætti á staðinn um það leyti sem tónleikarnir áttu að byrja. Svo ég hóf mína hefðbundnu leit að tveimur sætum við borð hjá einhverju elskulegu fólki. Svo vel vildi til að fremst fyrir miðju sat kona nokkur einsömul og var það auðsótt mál að við vinkonurnar fengjum að setjast hjá henni.

Vinkonan skrapp strax á barinn og þá hóf ég náttla hina hefðubundnu "há dú jú læk æsland" samræður, þar sem ég hafði uppgötvað að konan að konan væri af erlendu bergi brotin. Samtalið var með eftirfarandi hætti (biðst fyrirfram afsökunar á slakri enskri stafsetningu - nenni ekki að pæla í henni núna). 

Ég: Where do you come from?

Hún: Germany.

Ég: How long have you been here in Iceland?

Hún: I just came today and I´ll go back home tomorrow. 

Ég: What!?!?!?!?!?!?!

Hún: I just came for this consert here tonight.

Ég: You are joking arn´t you?

Hún: No.

Ég: Then you must have heard them (hljómsveitin Árstíðir) before.

Hún: Yes.

Ég: In Germany?

Hún: Yes and in other places. I just wanted to see them here.

Ég: In Iceland.

Hún: Here in this place, - I´ve heard so much about this place (Rosenberg). (Þarna láðist mér því miður að spyrja hana hvort hún hefði heyrt í þeim á öðrum stöðum á Íslandi, en geri fastlega ráð fyrir að svo hafi verið). 

Ég: You must be a great fan. 

Og ég hugsaði með sjálfri mér: How big fan can you be - og hversu mikla peninga áttu ef þér finnst sjálfsagt og eðlilegt að nota þá á þennan hátt, - þ.e. fara í dagsferðir út um víða veröld til að elta uppáhalds hljómsveitirar þínar. Mikið sem ég væri til í að láta slíkt og þvílíkt eftir mér - eftir að hafa lagt mitt að mörkum til styrktar góðum málefnum.


Afmælisbarn dagsins

Scan 116

Daginn eftir fertugsafmæli ömmu Fríðu (sem við minntumst í gær, því þá voru 100 ár frá því hún fæddist) hringdi síminn hjá henni og ókunnug rödd spurði eftir pabba mínum sem þá var 18 ára. Ömmu fannst pabbi eitthvað kindarlegur í símann svo hún reyndi að fá hann til að segja sér hvað þetta hafi verið. En pabbi fór allur undan í flæmingi og sagði þetta bara hafa verið eitthvað bull. En amma linnti ekki látum fyrr en hann sagði henni að hringt hafi verið frá fæðingardeild Landspítalans og honum tjáð að honum hefði fæðst dóttir. Það hlýtur að vera ástæða fyrir þessari tilkynningu - sagði amma. Ætlarðu ekki upp á deild að athuga málið? En pabbi hélt nú ekki. Amma reyndi eins og hún gat að fá hann til að fara, en honum varð ekki haggað. Nú þá fer ég - sagði amma og fór. - Og kom til baka með þessum orðum: Láttu þér ekki detta í hug að þræta fyrir þetta barn, hún er alveg eins og þú.

Og amma gerði meira: Hún myndaði strax gott samband við barnsmóðurina sem bjó í sveit fyrir austan fjall ásamt foreldrum sínum, systur, systurdóttur, föðursystur og náttla henni systur minni. - Bað hana að lofa sér því að í hvert sinn sem hún kæmi til borgarinnar þá hefði hún þá stuttu með - og leyfði henni að vera hjá ömmu og afa í Reykjavík. Og hún lét ekki þar við sitja: Eftir að ég fæddist rúmum tveimur árum síðar, bað hún alltaf um að fá mig líka, þegar von var systur minni úr sveitinni. Þannig sá hún um að tengja og treysta tryggðarböndin milli okkar systranna alveg frá upphafi. Og þegar hún og afi fóru í heimsókn til þeirra mæðgna í sveitinni, þá tóku þau mig alltaf með sér.

Ég er henni ömmu minni alveg einstaklega þakklát fyrir þetta. Sérstaklega þar sem að á þeim árum tóku ungir feður ekki alltaf upp hjá sjálfum sér að sinna mikið þeim börnum sem ekki bjuggu hjá þeim. Meira að segja ekki besti pabbi í heimi, sem pabbi okkar svo sannarlega var. Svo var langt á milli heimila okkar (og töluvert verri vegir en nú) og ég var orðin 14 ára (eldri systirin 16) þegar foreldrar mínir eignuðust bíl.

Og hún stóra systir mín hlýtur líka að vera þakklát henni ömmu. Í það minnsta er hún og hefur alltaf verið alveg einstaklega ræktarleg við föðurfólkið okkar. Amma dó allt of snemma (53ja ára), en ömmusysturnar töluðu um það á meðan þær lifðu að þessi stóra systir mín væri sá ættingi sem lang oftast kæmi í heimsókn. Svo bjó hún líka á tímabili hjá afa og seinni konu hans. Þegar hún svo fór sjálf að búa með sínum manni, settist þau að í sama sveitarfélagi og pabbi og mamma bjuggu og búa þar enn. Pabbi dó því miður ca þremur árum seinna (44ra ára), en stórasystir er alltaf í miklu og góðu sambandi við mömmu, okkur systkinin og allt okkar fólk. Við hin mættum svo sannarlega taka hana til fyrirmyndar í þeim efnum, því flest eða öll höfum við fallið í hina dæmigerðu gryfju nútíma íslendingsins að rækta ekki eins oft og mikið og við vildum sambandið við okkar nánustu.

Og í dag er hún systir mín sextug. Eitthvað sem hvorki pabbi né amma náðu. - Fólkið sem tengdi okkur. En mikið sem ég er þeim þakklát fyrir að hafa gefið okkur hvor aðra. Og mikið sem ég er þessari yndislegu systur minni þakklát fyrir að hafa aldrei gefist upp á að sinna mér, þó ég hafi ekki haft rænu á að gjalda nærri nóg í sömu mynt. Ég held að besta afmælisgjöfin sem ég get gefið henni - og okkur báðum - sé að lofa bót og betrun þar á. Og standa við það loforð. 

Hún vildi alls ekki halda upp á afmælið sitt, en við áttum frábæra stund saman í gærkvöldi - ásamt föðurfjölskyldunni okkar - í minningu hennar ömmu okkar. Hlakka til að drekka með henni prívat afmæliskaffi við fyrsta tækifæri.

Meðfylgjandi mynd af afmælisbarni dagsins er tekin við snyrtiborðið hennar ömmu (amma sést í speglinum að taka myndina).


Bleika hálsfestin

Mér fannst ég svona frekar í fínni kantinum á fundinum í gærmorgunn. Í nýju rósóttu sokkabuxunum, vínrauðum kjól, spari-sparipeysu (Hildur designe) og með bleika hálsfesti. Og náttla með bleikan varalit og bros á vör. Eftir fundinn fór ég svo í gömlu góðu 66gr norður úlpuna og útivistarbuxurnar yfir herlegheitin, og setti á mig doppóttu hanskana og hjálminn sem mér tókst loks að venja mig á fyrir nokkrum árum - og meira að segja eiginmaðurinn viðurkennir að fari mér hræðilega illa (þótt hann sé rauður). Svo ef þið sjáið mig hjólandi úti í bæ, þá segir lúkkið ekkert um hugsanlegt fínerí sem fyrir innan leynist.

Sem ég hjóla fram hjá Spron-kaffihúsinu á Skólavörðustíg, heyri ég skyndilega eitthvert nett hljóð sem fær mig til að snarstoppa, stíga af hjólinu og líta afturfyrir mig. Liggur þar ekki bleika hálsfestin u.þ.b. 30 sentimetra frá afturdekkinu. Sjúkket og Guði sé lof og eins gott - og allur sá pakki þaut í gegn um hugann þar sem ég beygði mig eftir festinni. Það er nú ekki mér líkt að taka eftir svona nettum hljóðum og láta þau hafa áhrif á mig.

Eftir hádegismat á Gló hjólaði ég niður í Eymundsson Austurstræti, með stuttri viðkomu í apóteki við Laugaveginn. Þegar ég kem út úr Eymundsson er komið leiðindaveður, svo ég renni úlpunni upp í háls og smelli báðum smellunum við hálsinn, en passa mig þó á að fara hvorki illa með festina né hálsinn þegar ég þrýsti smellunum að hálsinum. Festina!?!?! - Ertu ekki að grínast í mér? - Ég finn ekki fyrir neinni festi.

Með hamagangi og látum smelli ég frá og renni niður og þreifa á hálsinum. - Engin festi. Ég þreifa inn undir úlpuna eftir allri peysuni að aftan og framan, fer síðan inn undir peysuna og þreifa mig í bak og fyrir. Tek þá eftir því að Austurstrætisdætur og synir eru farin að stara á mig - og velta því greinilega fyrir sér með hvaða ósköpum þetta brjálæðislega káf og þukl muni eiginlega enda.

Svo ég fer inn í Eymundsson og fínkembi gólf á öllum hæðum og spyr slatta af starfsfólki. - Engin festi.

Renni aftur upp í háls og fínkembi Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að númer 20. Fór inn í apótekið og Gló þar sem ég leitaði dauðaleit á gólfum, borðum og salerni og spurði starfsfólk. - Engin festi.

Hjólaði upp í kirkju með grátstafinn í kverkunum. Var ég ekki búin að tapa nógu mörgum ægifögrum og sérdýrmætum hálsfestum með nákvæmlega þessum hætti? Þær bara runnu niður af mér án þess að ég tæki eftir því fyrr en allt of seint.

Þegar ég kom í kirkjuna (til að undirbúa veisluhöld við vígsluhátíð Bösendorferins) velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki í góðu lagi að hafa úlpuna í fatahenginu þó það væru seðlar í innanávasanum (það vantar alveg í mig þjófhræðslugenið). Og sem ég hugsa þessa hugsun, þá verður mér það á af einhverri rælni að klappa á innanávasann. - What!?! - Þessi lögun samrýmdist ekki alveg peningaseðlum einum saman. Opnaði innanávasann og við mér blasti bleika hálsfestin. 

Nei ég held ekki að hún hafi runnið af mér og ofan í vasann. Er frekar á því að ég hafi sett hana þarna og rennt kirfilega fyrir, svo hún rynni ekki aftur af mér í þessari sömu ferð. Gleymdi bara að festa það í minninu. 

Er með hana á mér núna - alsæl. Finn því miður ekki myndavélina svo ég get ekki tekið mynd og látið fylgja eins og ég hafði hugsað mér. Biðst afsökunar.

Lifið heil. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband