Færsluflokkur: Bloggar

Hreyfigeta.

Ása 90-aVinkona vinkonu minnar vinnur á hjúkrunarheimili í Danmörku. Hún segir að þar á bæ sé staðan sú, að sökum manneklu og tímaskorts sé sólarhringsbleiju skellt á alla vistmenn á hverjum morgni. Þegar ég nefndi þetta við eina vinkonu mína, sagði hún að ástandið væri lítið skárra hér á landi.

Hugsið ykkur bara. Allt þetta gamla fólk, sem er algjörlega með fulle fem andlega, - og líkamlega líka að öðru leyti en því, að það hreyfir sig mjög hægt, - og treystir sér ekki til að rölta á salernið stuðningslaust. Og sá stuðningur fæst ekki!!!

Ég er miður mín af vorkunn með þessu fólki. Og ekki bara það. Eins og fram hefur komið, stefni ég að því að verða allra kellinga elst, en ég get ekki hugsað mér að lenda í ofangreindri stöðu.

Ég er því ákveðnari en nokkru sinni fyrr, í að gera það sem í mínu valdi stendur til að viðhalda eigin hreyfigetu fram í það óendanlega.

Ég man hvað mér fannst það flott fyrir einhverjum árum síðan, þegar það kom í kvöldfréttum eftir Reykjavíkumaraþonið; að 82ja ára maður hefði dottið niður og dáið í miðju 10 kílómetra hlaupi. Það kom fram í fréttinni, að hann hafði vandræðalaust hlaupið 10 km fyrr í vikunni (það kom svo í ljós að ég þekkti þennan mann). Stórkostlegt. Að vera í þvílíku toppformi til 82ja ára, - og deyja svo án nokkurrar sjúkdómslegu.

Meira fljótlega um uppáhaldshreyfingarnar mínar (nei, ekki enn eitt regngöngu- eða hjólreiðamontið).

Góða helgi. 


Ömmustelpur.

Solla stirða og Lína langsokkur

Frænka mín í Grindavík á ömmustelpu sem er besta vinkona ömmustelpunnar minnar. Ekki að við frænkurnar höfum troðið þeim saman, heldur kynntust þær á leikskólanum, og vonu búnar að vera bestu vinkonur í margar vikur áður en mæður þeirra sóttu þær loksins á sama tíma, - og skyldleikinn uppgötvaðist.

Núna í sumarfríinu, flutti vinkonan svo til Grindavíkur. Svo í gær fékk ég að sækja ömmustelpuna með fyrra fallinu, - og bjóða henni í heimsókn til Grindavíkur. Það var mikil gleðistund. Við ömmunar tjilluðum yfir tebollum á meðan prinsessurnar sprelluðu óspart. Og að sjálfsögðu þurftu þær að fara í búninga (báðar í þeirri deildinni).

Varð að skella þessu inn, - bara fyrir Grindavíkurfrænkuna mína, sem er í hópi dyggustu lesenda minna og einlægra aðdáenda.  

Lifið heil. 


Lengi getur vont versnað.

Einu sinni hafði ég miklar áhyggjur af manneskju, sem mér fannst vera að fara illa með sig. Velti mikið fyrir mér hvernig ég gæti haft áhrif, svo að viðkomandi færi eftir mínum hugmyndum um betra líf. Þá var mér bennt á, að það eina sem ég gæti hugsanlega gert, - væri að koma því til leiðar að viðkomandi liði ennþá verr. Mannskepnan er nefnilega þannig gerð, að hún sér ekki alltaf hvernig fyrir henni er komið - og leið til úrbóta, - nema hún sé komin á botninn. 

Mér datt þetta í hug í morgunn, þegar ég hlustaði á framhaldsfréttirnar um borgarstjórnina. Nú stefnir allt í að ömurleg borgarstjórn verði ennþá verri, með því íhaldið skipti frjálslynda oddamanninum út fyrir framsóknarmanninn. Frábært hugsaði ég. Það fer að styttast í nýjar kosningar, - og þá hljóta borgarbúar að vera farnir að sjá, - að eina vitið er að kjósa þannig; - að samfylking og vinstri grænir geti myndað góðan meirihluta. 

Húrra fyrir því. 


Í rigningu ég geng.

Kjólasýning í Vindáshlíð

Hvað er þetta eiginlega með mig og óveðursgöngur? Lesendur mínir muna kannski eftir laugardeginum 7.júní síðastliðnum, en þá dundi á okkur suðvestlendingum mesta rok-og-rigningarholskefla ever. Og akkúrat þá var ég í 5 tíma gönguferð á Reykjanesskaga. 

Síðastliðna viku var ég að vinna í Vindáshlíð (já það er skýringin á fjarveru minni úr bloggheimum). Strax á öðrum degi átti að ganga á Hádegisfjall með hópinn (70 stelpur, 13-15 ára). Sem og var gert. Þetta var 5 tíma ganga, þar af klukkutími aðra leið frá Vindáshlíð að fjallsrótum. Við lögðum af stað í uppáhaldsveðrinu mínu; hlýtt og logn og nýbúið að rigna. Þegar við komum að fjallsrótum, kom úrhelli, sem stóð þangað til við vorum komnar aftur í hús. 

Þar sem stelpurnar voru mismetnaðarfullar og mishressar með veðrið, skiptum við tvisvar liði. Og í bæði skiptin valdi ég auðvitað að vera í hópnum sem fór upp á topp. 

Ég fór úr fötunum í sturtunni. - Þau gátu ekki orðið blautari. Vatt þau þar eins og hvern annan sundbol.

Það ótrúlega er, að ég átti að vera í pásu þennan eftirmiðdag, en var ekki alveg á því að láta hafa af mér góða fjallgöngu. 

Annars var þetta skemmtileg vika. Stelpurnar eru snillingar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þá höfðum við fengið hverju herbergi eina rúllu af salernispappír, sem þær áttu að nota til að hanna og búa til prinsessukjól. Ég skil ekki ennþá hvernig þær fóru að þessu.

En ég er ofboðslega þreytt. Eiginlega hálflasin og ósköp andlaus. Ég hlýt að vera orðin gömul og lúin, fyrst ég þoli ekki massíva vinnuviku betur en þetta.

Best að leggjast út á svalir og safna kröftum.

Lifið heil. 


Enskunám.

Ensk-íslensk orðabókFrá því ég var unglingur hef ég þjáðst af skorti á tveimur ákveðnum hæfileikum. Annar er enskukunnátta. Allir íslendingar á mínum aldri eru flinkir í ensku. - Nema ég.

Af því ég er nú að öðru leyti bráðklár, skarpgreind, flínk og frábær (afsakið hógværðina og lítillætið), þá reyndi ég auðvitað að finna ástæðuna fyrir þessum ósköpum. Og hún var auðfundin:

Á grunnskólaárunum bjó ég í Keflavík. Á öðrum heimilum horfðu krakkarnir á Kanasjónvarpið daginn út og daginn inn. Á mínu heimili var hins vegar ekki til sjónvarp fyrr en 5 árum eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar, - auk þess sem foreldrum mínum var illa við að ég horfði á Kanasjónvarpið í öðrum húsum. Og af því að ég var svo hrikalega þægur krakki, hafði ég ekki taugar í að stelast nema einu sinni til að horfa á Bonanza, einu sinni Beverly Hibbilis og einu sinni Stjána bláa og félaga. Ekki mikil enska sem lærðist af þessum þremur skiptum, - sérstaklega þar sem ég var allan tímann á taugum yfir því að vera að stelast. 

Enskukennslan í mínum skóla hófst svo ekki fyrr en ég var orðin 14 ára, - og þá voru allir í skólanum orðnir fúllbífærir í enskunni. - Nema ég!! Þá stimplaðist það svo hressilega inn í mína meðvitund að enskukunnátta væri ekki minn tebolli, - ég væri og yrði alltaf algjör auli í þeim efnum (nú er meira að segja mér farið að ofbjóða alhæfingarnar í þessum pistli, - held samt mínu striki).

Þrátt fyrir sjálfsvorkunnartóninn sem þið eruð vafalaust farin að lesa í gegn um þennan pistil, - þá er ég nú ekki þessi típa sem leggst upp í sófa og væli; aumingja ég. Alla vega ligg ég ekki lengi. Ég reyni nú yfirleitt að gera eitthvað í málunum.

Sumarið 1979 var ég því á leið í mánaðar-enskunám í Brighton, ásamt vinkonu minni. Við vorum búnar að fá inni í skóla og á heimili, þegar upp kom sú staða, að draumaíbúð fyrir mína 4ra manna fjölskyldu var til sölu. Við skelltum okkur á hana - og þá varð ég auðvitað að vinna á fullu allt sumarið, í stað þess að eyða peningum og tíma í að dingla mér á Englandi. 

Það varð úr, að pabbi og mamma fóru í minn stað, ásamt vinkonunni. Ég var mjög ánægð með að þau skildu fara, sérstaklega þar sem pabbi dó langt fyrir aldur fram seinna um sumarið. Það yljar mömmu um hjartaræturnar að rifja upp þennan yndislega mánuð sem þau voru saman úti í Brighton.

Síðan hef ég verið á leiðinni. En alltaf hafa einhverjar ástæður komið upp á, þannig að ég hef frestað því.

MorseÍ vor frestaði ég því rétt einn ganginn. Ástæðan sem ég gaf mér í þetta sinn var sú sama og í fyrra. - Heimasætan vildi ekki koma með mér, - og ég gat ekki hugsað mér að skilja hana eftir heima svona lengi. 

En við svo búið varð ekki unað lengur. Maður verður að kunna ensku. (Á námsárunum sat ég alltaf langt fram á nótt og las kennslufræði á ensku. Það tók mig óendanlegan tíma, því ég var alltaf að fletta upp sömu orðunum aftur og aftur. Ég var búin að stimpla svo fast inn í mig, að ég væri auli í ensku). 

En í vor fékk ég frábæra hugmynd. Ég er mikill aðdáandi breskra og skoskra sakamálaþátta. Svo ég ákvað að leita þangað til ég finndi einhvern af uppáhöldunum mínum á DVD. Með enskum texta. Og nota sumarfríið til að læra ensku heima hjá mér. Ég var svo heppin að finna sjálfan Morse. 8 seríur, 4 þættir í öllum seríum (nema einni), samtals 31 þáttur (ca 100 mínútur hver).

Svo nú sit ég löngum stundum og glósa Morse. Fyrst horfi ég non stop. Svo er ég ofvirk á pásutakkanum og glósa og glósa. Fleiri hundruð og fimmtíu orð í hverjum þætti. Svo horfi ég aftur, með glósubókina við hendina - og reyni að læra glósurnar um leið og ég horfi. Ég reyni að rífa mig ekki niður, þó ég glósi aftur og aftur sömu orðin, - heldur segi ég við sjálfa mig, það sem ég segi gjarnan við nemendur mína (í píanóleik), að endurtekningin skapi meistarann. Og ég reyni að telja sjálfri mér í trú um að nú fari þetta að koma. 

Lifið heil.


Hjólaviðgerðir.

Garðar gerir við hjólVinurinn í næstu götu tók mjög vel í að laga sprungna dekkið. Það vill meira að segja svo vel til að hann hefur aðstöðu í húsnæði íslenska fjallahjólaklúbbsins, sem er í næsta húsi við hann. Ég þáði tesopa hjá konunni hans, en eftir við langt og skemmtilegt spjall kom að því að okkur þótti maðurinn vera orðinn óeðlilega lengi.

Ég hafði rekið hann úr rúminu þennan hlýja sumarfríisdag, - og ekki einu sinni gefið honum færi á að fá sér morgunmat áður en hann hófst handa. Ég var því farin að halda að hann hefði lognast út af sökum magnleysis. Erfiðisvinna á fastandi maga kann ekki góðri lukku að stýra.

Svo ég fór yfir í klúbbinn til að athuga með hann. Þá var hann að klára viðgerðina, sem var aldeilis og heldur betur meira en að líma og bæta eina slöngu. Öxullinn var brotinn í sundur, gírarnir og bremsurnar komnar í alvarlega þörf fyrir stillingu, - og svo mætti lengi áfram telja. Hann átti ekki til orð af undrun yfir láninu sem væri yfir mér. Hjólið í þessu ástandi hefði hvenær sem er getað hrokkið í sundur, - og ég stórslasast. 

Eftir smá prufuhring og ennþá frekari stillingar tók svo að leka úr dekkinu aftur. "Mér hefur yfirsést 3ja gatið" sagði vinurinn. "Enda er slangan orðin léleg. Það vill svo heppilega til að ég á hérna splunkunýja slöngu af réttri stærð, svo ég skipti bara".

Ég fékk að skreppa í Bónus á meðan, - og þegar ég kom til baka, var vinurinn loksins farinn að fá sér morgunmat. Þegar við komum svo út til að kíkja á gripinn var enn og aftur farið að leka úr hjólinu. "Mér er bara ekki nokkur leið að skilja þetta" sagði vinurinn og fór eina ferðina enn í klúbbinn. Þá kom í ljós að sundurtekin bréfaklemma hafði stungist á kaf í dekkið í þessum örstutta prufutúr.

En nú er hjólið orðið eins og það á að vera. Kosturinn við vanstillinguna var reyndar sá (og ég vissi af þeirri vanstillingu), að 1.gírinn var þyngri en sá 2. er núna, svo ég var (er) orðin mjög sterk í lærunum. Núna eru gírarnir orðnir svo léttir að lærin fara örugglega í orlof.

Næsti pistill verður ekki um reiðhjól. Promis. 


Aftur og nýbúið

LW hjólar á rauðum kjólÉg held ég sé orðin háð hjólinu. Frá apríl og fram í október nenni ég hvorki að ganga né keyra. Enda hentar það mér mjög vel. Ég bý í 101, þar sem flest er í mátulegri hjólafjarlægð. Auk þess sem mikið er um einstefnur og hæga umferð í kring um mig, þannig að ég er fljótari að hjóla en að keyra.

Í gærkvöldi fórum við frumburður á tónleika Buena Vista Social Club. Við fórum ekki í fyrra skiptið þegar þau komu - og vorum ákveðnar í að láta þessa snillinga ekki framhjá okkur fara í annað sinn. Og sáum sko ekki eftir því.

Tónleikastaðurinn var svo gott sem mitt á milli heimila okkar mæðgnanna, svo það var upplagt að hittast þar, hvor á sínu hjóli. En hrokagikkurinn ég lét auðvitað eins og það tæki því varla að hjóla svo stutt. Ég hjóla til þín og svo hjólum við saman á tónleikana sagði ég.

En - wottt?!? Ekki er sprungið, - aftur og nýbúið. Ójú, ekki bar á öðru. Nú var það afturhjólið. Og það er miklu erfiðara að ná því af, en framdekkinu. Auk þess er ég auðvitað ekkert búin að kaupa bótagræjur. Og eiginmaðurinn víðs fjarri. Þannig að ég mætti til frumburðar á Yaris. Hún þáði far með mér þessi elska, þreytt eftir vinnudaginn (á meðan sumir eru bara í sumarfríi).

Það voru greinilega fleiri en við sem ætluðu á þessa tónleika. Við áttuðum okkur í tíma - beygðum í andstæða átt og lögðum við krabbameinsfélagið. Það var ekki fyrr en eftir tónleikana sem við áttuðum okkur á klípunni sem við vorum í. Það var bara ein leið út úr Skógarhlíðinni - og það var eins og landsmenn allir samanlagt hefðu fetað í fótspor okkar og lagt bíl sínum þar.

Við vorum búnar að sitja mjög lengi í kyrrstæðum bílnum, með bíla á alla kanta og ekkert að gerast, þegar ég sagði: Ég væri löngu búin að hjóla heim til þín og heim til mín. Þetta var algjört skólabókardæmi um að það hefði verið betra að vera á hjóli. Af hverju þurfti endilega að springa núna.

Við komumst þó fyrr en margir út úr prísundinni, þar sem við búum báðar fyrir vestan Kringlumýrarbraut að sjálfsögðu.

Nú man ég eftir vini mínum í næstu götu sem er snillingur í öllu sem viðkemur hjólum. Best að hringja í hann og athuga hvort hann hefur tök á að miskuna sig yfir mig.

Góða helgi.    


Skilnaðir.

Ég var byrjuð að skrifa komment á annari bloggsíðu, en þegar það var næstum því orðið lengra en færslan sjálf, ákvað ég að skrifa frekar mína eigin færslu um málefnið. Málefnið var: Er það rétt að konur eigi frumkvæði að skilnaði í 75% tilfella - og þá hvers vegna. Og ennfremur: Er það ekki sá sem gerir hjónabandið ómögulegt, sem á frumkvæði að skilnaði, - skilnaðurinn er þá bara afleiðing af ómögulegheitunum?

Auðvitað er það sá sem vill skilja, - sá sem ákveður að vera ekki lengur í þessu hjónabandi, - sem á frumkvæðið að skilnaðinum. Það er bara eðlilegt íslenskt málfar. Þó það hafi verið hinn aðilinn sem var óalandi og óferjandi í hjónabandi.

Ég hef reyndar heyrt að það sé í yfir 80% tilfella sem konan á frumkvæði að skilnaði. Og ég trúi því.

Ég er líka með ákveðna kenningu um þetta. Hún er að sjálfsögðu ekki algild (nota bene!!), en töluvert algeng:

Konur gera meiri væntingar til eiginmanns og hjónabands. Þegar væntingarnar standast ekki, reyna þær að breyta og bæta. Eiginmaðurinn er oft á tíðum hvorki duglegur að rækta hjónabandið, né til í að breyta og laga það sem laga þarf. Þá endar með því að konan gefst upp - og telur sig betur komna án eiginmanns. Þess vegna er algengara að konan eigi frumkvæði að skilnaði.

Í þeim (ca 20%) tilfellum sem karlinn á frumkvæði að skilnaði, er það oftast vegna þess að hann er kominn með aðra konu, eða langar í aðra konu.

Eftir skilnað (hvort hjóna sem átti frumkvæðið) fara flestar konur í að skapa sér nýtt líf sem sjálfstæðar konur, en karlarnir fara strax að leyta sér að nýrri konu. 

Ég held að þetta sé bara eitt af því sem er ólíkt með kynjunum. Þrátt fyrir goðsagnir um hamingjusama piparsveininn og þá "staðreynd" (?) að karlar séu líklegri til framhjáhalda, þá eru karlarnir alveg ómögulegir ef þeir eru ekki í hjónabandi eða öðru varanlegu sambandi. Margar konur eru hins vegar alsælar þegar þær eru hamingjusamlega fráskildar. Enda sér maður alltaf helling af frambærilegum konum á lausu, á meðan frambærulegustu karlarnir eru flestir uppteknir (vúbbs, þarna fæ ég örugglega harkaleg viðbrögð).

Vek að lokum athygli á því sem ég sagði áðan: Kenning mín er að sjálfsögðu ekki algild, - mér finnst bara leiðinlegt að vera með endalausa fyrirvara inni í miðjum setningum.

Lifið heil. 

 


Rigning.

Rigning á rúðuNú er úti veður vott. And I love it. Með fullri virðingu fyrir sólskini. Auðvitað er það líka yndislegt.

Hann er bara svo misjafn, mælikvarðinn sem við notum á gott og vont veður. Ég hef aldrei skilið það fólk sem notar þann einfalda mælikvarða að sólskin sé gott veður og rigning sé vont veður.

Þegar ég var ung, notaði ég þann einfalda mælikvarða, að logn væri gott veður - og rok væri vont veður. Burtséð frá hitastigi og skýjafari.

Á seinni árum finnst mér hitastigið skipta meira máli. Í 5-25 stiga hita finnst mér oftast frábært veður. Frost og kaldan vind þoli ég illa. Þarna spilar að vísu stóra rullu, að ég er með krónískar bólgur í ennis- og kinnholum, svo ef það er frost eða kaldur vindur, þá get ég einfaldlega ekki verið úti. Ég á því erfitt með að þola froststillur með sólskini, sem margir eru hrifnir af. Sólskin + þurr (og kaldur) vindur finnst mér óþægilegt veður.

Rigning 21.07Uppáhaldsveðrið mitt er logn og hlýtt (ca 15 stig) og nýbúið að rigna. Hlý lognrigning er líka í miklu uppáhaldi hjá mér.

Veðrið í dag finnst mér yndislegt. Að vísu fær maður leið á íslensku rigningunni ef hún varir mjög marga daga í senn. Sólbaðsveður er auðvitað frábært, en rigning líka góð inn á milli.

Voðalega veð ég úr einu í annað. Líklega er ég bara orðin mótuð af þessu veðurfari sem einkennir Ísland. Endalaus sýnishorn. Alltaf að breytast.

Bjarki 4ra ára í rigninguVerð að vekja athygli á einu sem ég sakna í dag. Ég fór út með myndavélina áðan (milli 10 og 11), í leit að krökkum að sulla í pollum, eða leika sér í rigningunni. Fann ekki einn einasta. Leikskólinn á bak við húsið mitt er að vísu lokaður. Er það málið? Fara krakkar ekki út í rigningu, nema það sé á dagskránni í leikskólanum?

Myndin hér til hliðar er af drengnum mínu 4ra ára, tekin fyrir 26 árum. Í þá daga léku börn sér ennþá úti í rigningu - og þótti það gaman. Mikið vildi ég að foreldrar í dag hvettu börnin sín meira til slíkra hluta, frekar en að halda að þeim því ótrúlega viðhorfi að rigning sé vond - og hennar sé á engan hátt hægt að njóta, nema maður sé gróður jarðar.

Njótið rigningarinnar elskurnar. 

 

 


Himnasending á Þingvallaleið.

Hjól við ÞingvallakirkjuVið hjónin vorum svo rosalega ánægð með hjólaferðina í Hvalfirði nú nýverið, að við ákváðum strax þá, að hjóla fljótlega á Þingvöll. Sem við svo stóðum við í gær.

Strætókonan í símanum sagði að leið 15 færi upp í Mosfellsbæ og þaðan áfram upp í Reykjahverfi, sem væri endastöðin. Frábært. Frændi minn á heima í húsi sem heitir Reykir og er í hverfi sem heitir Reykja-eitthvað - örugglega Reykjahverfi. Vestast í Mosfellsdalnum. Nákvæmlega þar sem við vildum byrja að hjóla.

Eftir heilmikla króka í gegnum Mosfellsbæ, tók leið 15 stefnuna á Reykjalund. Nei, framhjá Reykalundi og í gegnum hverfi, sem hét Reykjahverfi. Þegar hann var kominn langleiðina upp að Hafravatni, stoppaði hann og fór ekki lengra. "Vegur endar skrapp í mat" eins og ég sá eitt sinn á skilti frá Vegagerð Vestfjarða.

ReykjahlíðVið reyndum að stytta okkur leið eftir krókóttum malarhjólastígum, í átt að Álafosskvosinni - og þaðan meðfram þjóðveginum yfir í Mosfellsdalinn. Við afleggjarann að hverfi frænda míns, sá ég að það heitir Reykjahlíð, en ekki Reykjahverfi. Ég hefði betur hringt í annan frænda minn, sem keyrir leið 15 (hann var að keyra þegar við fórum Hvalfjörðinn, en ekki núna).

Þegar við vorum búin að hjóla í einn og hálfan tíma, sáum við skilti, sem á stóð; Þingvellir 16 kílómetrar. Upphófst þá hrokakeppni okkar hjónanna: "Þetta er allt of stutt" sagði eiginmaðurinn, "eigum við ekki að hjóla kringum vatnið líka?" "Við hjólum bara heim aftur í kvöld" sagði ég. "Það tekur því ekki að gista fyrir svona stutta ferð" Og í huga mér bætti ég við: "Hvað eru allir þessir bílar að gera hérna? Það tekur því ekki að setjast upp í bíl fyrir svona skottúr".

Gert við sprungið dekkOg þá gerðist það. Skyndilega kom mjög grunsamlegt hljóð úr framdekkinu. Ég snarsteig af baki. Ójú, - það var sprungið. Er verið að hegna mér fyrir hrokann? var það fyrsta sem ég hugsaði. Og við þessir týpísku fyrirhyggjulausu Íslendingar, með öngvar bætur eða því um líkt. Áttum við að labba að Þingvöllum, í þeirri von að þjónustumiðstöðin þar gæti þjónustað mig í þessum vandræðum. Eftir smálabb, settist ég út í móa til að hringja. 

En um leið og ég lagði á, kom englasending af himnum ofan. Englar þessir voru sænskir strákar á hjóli, búnir að hjóla m.a. norður Sprengisand og suður Kjöl, - og voru að sjálfsögðu með allar viðgerðargræjur - og snillingar í hjólaviðgerðum. Þvílík himnasending.

Heimferðin gekk glimrandi, þrátt fyrir dáldin meðvind og örlítið svona uppímóti. Við vorum nákvæmlega 2 klst frá Almannagjá, að Hlégarði í Mosfellsbæ.

Hjól við AlmannagjáSumsé létt verk og löðurmannlegt.

En alveg varð ég ótrúlega þreytt á að sitja í leið 15 á bakaleiðinni. Þegar ég steig út úr vagninum á Hlemmi, var ég svo þreytt, að ég ætlaði varla að nenna að hjóla heim á Vesturgötu.

Strengjum þess heit að fara ekki framar hjólandi út fyrir höfuðborgarsvæðið án viðeigandi bótabúnaðar. 

Njótið helgarinnar í íslenska sumrinu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband