31.3.2010 | 23:49
Morgunmatargerð
Gerði stórinnkaup í gær. Keypti mér t.d. sérstakt fótabaðsfat, sem ég hef lengi þráð. Er orðin leið á að bíða eftir að einhver arfleiði mig að fótanuddtæki, sem allar geymslur í landinu áttu víst að vera fullar af. Svo nú hvíli ég lúna fætur ofan í heitu góðu vatni. Unaðslegt.
En ég keypti mér líka tvö heimilistæki. Örbylgjuofn og blandara, í staðin fyrir ónýtu eintökin. Var svo heppin að fá hvort tveggja á sértilboði. Blandarann fékk ég meira að segja á aukaafslætti, af því að þetta var sýniseintak. Sem þýddi auðvitað líka að ég þurfti ekki setja hann saman - og lesa leiðinda manúal (hann fylgdi ekki einu sinni með).
Það var spennandi að fara fram úr rúminu í morgunn til að prófa nýju græjurnar. Setti fyrst berin og bananann út í blandarann - og helti síðan hálfum lítra af sojamjólk út í. En hugurinn var greinilega ekki orðinn skýr - og stírurnar enn í augunum, því ég áttaði mig ekkert á því að blandarinn var ekki almennilega skrúfaður saman, - svo mjólkin rann öll niður eftir nýju græjunni og út á borð. Ég hefði sötrað mjólkina upp af borðinu, ef hún hefði ekki verið á hraðferð út á gólf. Svo hún lennti öll í tuskunni.
Eftir að hafa bjargað ávöxtunum í skál, þurrkað upp alla mjólkina og þrifið nýju græjuna, skrúfaði ég hana sundur og saman aftur og hóf síðan tilraunir með vatni. Og viti menn. - Græjan hélt vatni eftir að ég hafði farið um hana höndum.
Og hófst þá taka tvö. Ofurvarlega hellti ég mjólkinni út á ávextina. Allt í sóma. Setti græjuna af stað og wöttin 500 þeyttu þennan fína sjeik á örfáum sekúntum. Ég skrúfaði könnuna lausa og ...... - úps, - þessi gæðasjeik lak niður úr botnlausri könnunni, niður eftir græjunni og út á borð. Já ég sagði botnlausri. maður á greinilega ekki að skrúfa þessa könnu lausa, heldur bara kippa henni upp. "Það var ekki sagt mér". Enda hafði ég ekki fengið neinn manúal til að lesa, eða ekki lesa. Ég hefði alla vega skoðað myndirnar - og ég skil svona örvar á myndum, sem segja hvort þú átt að snúa eða lyfta.
Þegar þarna var komið sögu var ég orðin dáldið svöng - og óþreyjufull eftir mínum morgunmat, auk þess sem ég er að eðlisfarin óhemju nýtin kona, þannig að auðvitað sötraði ég eins mikið og ég mögulega gat upp af borðinu. Svo hófust þrifin.
Það sem ég sötraði upp af borðinu saddi mig ekki alveg, svo í tilraun 3 lagaði ég hálfan skammt. Drakk hann úr bolla.
Og nú er bara að sjá hvort græjan fer í gang í fyrramálið - og hvort ég fæ nokkuð skaðlegan straum. Það var nebbnilega soddan vesen að þrífa hana, að ég freistaðist til að láta leka á hana undir krananum. Já hvað er þetta, - tuskan nær ekki öllu.
Eftir að tilraun 3 var komin í bolla þurfti ég að sjálfsögðu að laga mér kaffi. Og hita sojamjólkina í nýja örbylgjuofninum. Afgreiðslumaðurinn hafði sagt mér allt sem ég þurfti að vita: Stilla á microwave, velja sekúntufjölda og ýta á start. Sem ég og gerði, en ofninn fór ekki af stað. Í því kemur heimasætan á fætur. Ég bar mig illa, svo hún byrjað að fikta í ofninum, sem fór samstundis af stað. "Hvað gerðirðu" spurði ég. "Það veit ég ekki" sagði hún bara eins og ekkert væri eðlilegra. En mjólkin mín hitnaði, meðan pizzaljós blikkaði á ofninum. Þegar ég svo ætlaði að hita sojamjólk í seinni bollann gerðist það sama. Ofninn hafði að engu mín fyrirmæli, en fór af stað um leið og heimasætan byrjaði að fikta.
Ég trúi því ekki að ég neyðist til að lesa manúalinn.
Athugasemdir
Laufey mín þú ert óborganleg. Mér finnst þetta svolítið brussulegt, en held að þú hafir gert þitt besta. Hlakka til að heyra um framhaldið.
Verð í Þýskalandinu góða um páskana með manni og börnum (litlu börnin 3 verða hjá hinum ömmunum og öfum) ætlum að fara á körfuboltaleik m.a. Fer á eftir og hlakka mikið til, er reyndar andvaka núna þannig að ég sef vært í vélinni. Vona að þú og þín fjöldkylda eigið góða páskahelgi.
Bestu kveðjur úr Grindavíkinni.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 01:47
Það á ALLTAF að lesa leiðbeiningarnar! Og ef þær fylgja ekki með, nú þá gúgglar maður þær!
Berglind (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 22:05
Nei Berglind, við Íslendingar eigum ekki að lesa leiðbeiningar fyrr en í fyrsta lagi þegar við erum búnir að klúðra hlutunum. Þannig eflum við rökhugsun og sköpunargleði.
Bjarki (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.