1.4.2010 | 00:35
Páskafrí
Það er ýmist langt eða skamm stórra högga á milli. Í seinni tíð er eins og ég sé alveg hætt að blogga, en loksins þegar ég fer aftur af stað, þá eru það 2 færslur sama kvöldið. Það mætti halda að ég væri komin í páskafrí.
Loksins að ég þori að nefna páskafríið. Ég er nefnilega í forréttindastétt, þ.e. kennarastétt og er því alla dymbilvikuna í fríi. En nú eru "venjulegar" vinnandi stéttir líka komnar í páskafrí, svo ég óska ykkur öllum til hamingju með það.
Reyndar hef ég alltaf haldið því fram að samviskusamir kennarar (já t.d. ég að sjálfsögðu) séu ekkert of góðir af þessum löngu fríum. Maður er alltaf orðin illilega langþreyttur þegar þau loksins bresta á, auk þess sem maður hefur oftar en ekki frestað einu og öðru, sem manni veitir ekkert af smá "fríi" til að sinna.
Og þetta páska"fríið" hef ég svo sannarlega nóg af verkefnum á minni könnu. Nei ég er ekki bara að tala um kennsluverkefnin, rykið heima hjá mér - og út-í-bæ-erindi (t.d. heimilistækjakaup). Ég var nýlega beðin um að spila í brúðkaupsveislu, nokkuð sem ég hef aldrei gert áður - og þarf því að æfa frá grunni. Og þar sem brúðkaup þetta verður haldið í vikunni eftir páska fannst mér þetta ekta verkefni fyrir mig, - ég hefði allt páskafríið til að æfa mig.
Síðustu árin hef ég reyndar alltaf tengt páskana við unaðsdvalir á Hótel Glym. Við hjónin vorum þar nokkra páska í röð, þar sem eiginmaðurinn var að spila "undir borðum".
En nú veit ég ekki betur en að þar sé detox-námskeið í gangi. Í heila 11 daga. Og við hjónin erum auðvitað svo yfirmáta ofurhrein, eftir alla hollustumataræðisáráttu húsmóðurinnar að við þurfum ekkert á slíku að halda. Enginn hroki í minni (hm hm). Ekki heldur öfund út í þá sem hafa tíma og pengina í svona lagað.
En í alvöru, þá held ég að þetta sé alls ekki svo galið. Mér var boðið á "sýnishorn" af svona námskeiði þar uppfrá, einn sólarhring í janúar. Var örlítið skeptísk, af því þetta er nú eitt af því sem er dáldið töff að vera með fordóma gagnvart. En sólarhringur á Glym er ekki eitthvað sem maður slær hendinni á móti, það er alveg á hreinu.
Svo ég þáði gott boð - og mætti á staðinn án væntinga og án fordóma. Og þetta var mun merkilegra en mig hefði grunað. Ég þóttist nú vita ýmislegt, eins og t.d. það að maður fær mun meiri orku úr grænmeti en úr þyngri mat - en samt var dáldið merkilegt að finna það svona greinilega.
Nei kjánarnir ykkar, - ég fór ekki í ristilskolun. Maður gerir það ekki á sólarhringsnámskeiði. En það er von að þið hafið mestan áhuga á því, - þið sem eruð búin að gúffa í ykkur alls kyns draslmat í gegn um tíðina (svona svona, það eiga auðvitað ekki allir að taka þetta til sín). En í alvöru, - okkur voru sýndar myndir af ógeðinu sem safnast fyrir í venjulegu fólki með árunum, - og þær myndir voru sko ekki fallegar.
Þið sem hafið áhuga, það er kannski of seint að skrá sig á páskanámskeiðið (nei ég er ekki á prósentum), en það verður örugglega annað námskeið síðar. Alla vega verður enginn svikinn af dvöl á Glym, hvert sem erindið er.
Best að vera rosa dugleg að æfa sig næstu daga. - Aldrei að vita nema ég fái að taka generalprufu fyrir Hansínu hótelstýru (já ég veit - drím on) - og smakka í leiðinni á einhverju grænmetisgúmmolaðinu. Að ógleymdu ozonvatninu.
Gleðilega páska gott fólk.
Athugasemdir
Gleðilega Páska Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2010 kl. 12:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.