Lífið er áskorun

Fyrir nokkrum árum kom eiginmaðurinn, sem er gítarkennari og gítarleikari - heim úr skólanum með kontrabassa, sem hann þurfti að æfa sig á í tengslum við tónleikaverkefni sem hann var að vinna þar. "Spilum saman" sagði hann og dró mig með sér inn í píanóherbergi. "Ég get það ekkert" sagði ég auðvitað, - enda hógvær og lítillátur "bara píanókennari" sem aldrei treystir sér til að spila neitt óæft, sér í lagi ekki með öðrum. En við prófuðum - og ég uppgötvaði samstundis að þetta var eitthvað sem mig virkilega langaði til að gera meira af.

Þannig að; - stuttu seinna átti maðurinn 38 ára afmæli, - og ég af minni alkunnu óþolinmæði gaf honum þann dag þennan líka fína kontrabassa í fertugsafmælisgjöf. Sá öngva ástæðu til að bíða með það í tvö ár. En við vorum ekki alveg jafn óþolinmóð að byrja að æfa saman. Munum næstum aldrei eftir þeim möguleika á lífsnautn. Höfum þó tvisvar troðið upp á jólahlaðborði.

Svo kom stóra tækifærið. Ég var beðin um að spila í brúðkaupsveislu (40 mínútna prógramm meðan gestirnir eru að ganga í salinn og byrja að borða), - og bauðst til að taka kontrabassaleikara með mér. Við plönuðum giggið í nokkrum stuttum "settum" til skiptis kb+pno, - og svo ég með nokkur sólólög inn á milli (gítarfingurnir ekki alveg komnir með bassastrengjasiggið).

Frá því ég sagði já við brúðkaupsveislugigginu og þangað til það brast á í gærkvöldi, var ég nánast á barmi taugaáfalls af stressi. Sagði aftur og aftur við sjálfa mig: Ég veit að lífið er áskorun, en það er samt hægt að ráðast á garðinn þar sem hann er aðeins lægri. Af hverju get ég ekki bara verið venjuleg miðaldra kona sem liggur uppi í sófa og hefur það huggulegt? Af hverju get ég ekki verið þessi "play-safe-týpa"?

Verst fannst mér að þetta bláókunnuga fólk sem við spiluðum fyrir stóð örugglega í þeirri meiningu að það væri að ráða til sín prófessional-dinnermúsík-spilara með reynslu (sem eiginmaðurinn hefur reyndar á gítar). En ég er bara prófessional kennari, - ekki hljóðfæraleikari, - og þóttist viss um að ég stæðist engan vegin þær væntingar sem til mín væru gerðar. Af hverju í ósköpunum sagði ég þá ekki nei? Góð spurning.

Eftir þrotlausar daglegar æfingar og annan undirbúning hófust herlegheitin. Við byrjuðum vel. Mér varð að ósk minni; - stöðugt skvaldur var í salnum, sem mér fannst gott að fela mig í. Og ég leyfði mér að njóta þess að spila. Í lok sjötta lags (sem var sólólag) kom veislustjórinn og sagðist ætla að tala núna. Þegar hún hafði lokið velkomin-ávarpi sínu byrjaði ég á næsta lagi, sem var n.b. það lag sem ég var óöruggust með (ég vildi samt alls ekki sleppa því af því það er svo skemmtilegt). Þá uppgötva ég mér til skelfingar að það er þögn í salnum. OMG - af hverju beið ég ekki með að spila þangað til skvaldrið var byrjað. Og yfir mig helltist þvílíkt panikástand að lagið fór í rúst. Ég reyndi að gera það sem ég hafði ákveðið fyrirfram, halda bara áfram að spila eins og ekkert hefði í skorist, en mér tókst ekki með nokkru móti að bjarga mér. Stökk að lokum á einhvern aulalegan endi og gaf svo eiginmanninum örvæntingafullt augnaráð að koma og hefja næsta "sett".

Mér er ómögulegt að skilja hvernig í ósköpunum mér tókst að halda áfram með prógrammið (bæði samspil og sóló) eins og ekkert hefði í skorist. En síðan hef ég verið á megabömmer - og heltekin hugsuninni: Ég get aldrei komið á billann aftur (sbr. Dúddi í Með allt á hreinu).

- Þangað til núna fyrir augnabliki (í miðjum þessum skrifum) að vinkona mín (sú eina sem ég þekkti í veislunni) hringir til að þakka mér innilega fyrir síðast. Mikið hafi þetta nú verið frábært hjá okkur. "Við vorum sammála um það öll við mitt borð að þið væruð algjörir snillingar sem við getum heldur betur mælt með. Svo vel og skemmtilega spilað - og frábær stemmning sem skapaðist".

Ég: Þú ert að grínast er það ekki?

Hún: Nei af hverju ætti ég að vera að því? Þetta var ferlega flott.

Ég: Ertu að segja mér að þú hafir ekki heyrt lagið sem ég klúðraði svo hressilega - og það á versta augnabliki, í einu þögninni sem skapaðist?

Hún: Ertu að meina lagið sem kom á eftir ávarpinu? Ég heyrði að þú byrjaðir aftur og hoppaðir yfir eitthvað en það var ekkert mál. Það tók örugglega enginn eftir því.

Ég: Ertu að reyna að telja mér í trú um að mér hafi ekki tekist að rústa brúðkaupsveislunni  fyrir þessum saklausu hjónum?

Hún: Hættu að bulla Laufey, þetta var ferlega flott og ekkert annað. Og það hlustaði enginn eins vandlega og ég.

Svo nú er ég í vanda stödd. Get ég virkilega trúað því sem vinkonan segir? Ég sem var byrjuð á massívri meðferð við stærstu skömm lífs míns. - Byrjuð að hamra á því við sjálfa mig, sem ég hef oft sagt við aðra: - Að mistök séu áhrifaríkasta námsefnið í lífsins skóla, ef maður notar þau sem slík (þ.e. lærir af þeim). Ég var meira að segja farin að plana 9.sporið á brúðhjónunum.

Ég held ég velji hvort tveggja. Reyni að trúa vinkonunni, - og reyni líka að læra af þessum mistökum (klúðri - reynslu - whatever).

Legg ekki meira á ykkur.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laufey mín,

hættu þessari fullkomnunaráráttu, ég er viss um að vinkonan hefur rétt fyrir sér. Vertu kát og búðu þig undir fleiri "gigg". Það er svo leiðinlegt að brjóta sig niður fyrir eitthvað svona. Ég er viss um að þetta hefur verið flott, það getur ekki annað verið. Verðum að fara að hittast.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband