12.4.2010 | 20:47
Litla systir
Ég vaknaði mjög snemma morguns hinn 12.apríl fyrir nákvæmlega 50 árum síðan við það að móðurbróðir minn, þá 13 ára - var að drösla mér og frænku minni inn í litla herbergi í ömmuhúsi. Ég var þá þriggja ára (langt gengin í fjögra) og frænka mín tæpu ári yngri.
Móðir mín var þá skyndilega tekin til við að fæða barn sem átti ekki að koma í heiminn fyrr en hálfum mánuði síðar. Ömmuhús var á Stokkseyri - og barnsfæðingu þessa bar svo brátt að, að ekkert svigrúm myndaðist til að koma mömmu upp á Selfoss, heldur kom ljósmóðirin - sem bjó sem betur fer í þorpinu - í loftköstum í ömmuhús.
Og að sjálfsögðu myndaðist heldur ekki svigrúm til að koma okkur frænkunum í pössun. Því var hinn 13 ára frændi minn vakinn - og rekinn með okkur inn í litla herbergi, - og uppálagt að syngja fyrir okkur svo við heyrðum ekki í mömmu. Honum hafði líka verið stranglega uppálagt að syngja eins hátt (þ.e. sterkt) og hann gæti í hvert sinn sem mamma veinaði.
- Og það gerði hann samviskusamlega þessi elska. Umræddur frændi minn hefur mjög oft sungið fyrir okkur og með okkur í gegn um tíðina - og það alltaf bæði fallega og skemmtilega, nema í þetta eina skipti. Við frænkurnar störðum á hann eins og naut á nývirki, því í hvert sinn sem við byrjuðum að brosa af velþóknun yfir blíðum söngnum, - þá rauk hann eins og fífl upp í fff, (rosa sterkt samkvæmt Tónfræði Jóns Þórarinssonar).
Það mætti halda að þessi upplifun mín af fæðingu litlu systur minnar hafi lagt línurnar fyrir hennar framtíð. Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum mannkostum hennar, - þá leyfi ég mér að fullyrða að hún geri ekkert eins vel og fallega og að syngja. Það mætti halda að í kollhríðunum hafi hún heyrt öskrin í honum frænda okkar og einsett sér að gera betur.
Og hvar er hún akkúrat núna. Nei hún er ekki að taka á móti afmælisgestum, þó það sé líka eitt af því sem hún gerir best. Hún er auðvitað að syngja. Á söngæfingu með Gospelkórnum sínum (stórhátíðin verður svo haldin á laugardaginn kemur).
Æ hvað mér finnst eitthvað asnalegt að sitja hér pikkandi á tölvuna - og fá tár í hvarmana við að hugsa til hennar, í stað þess að knúsa hana á sjálfan merkisafmælisdaginn.
Ég fer. 2x50 kílómetrar eru fáránleg afsökun. Ég lauma mér inn á æfinguna og hlusta á sönginn hennar eins og fluga á vegg. Þið lofið að kjafta ekki frá á meðan ég er á leiðinni.
Sæl að sinni.
Athugasemdir
Innilega til hamingju með hana Mallý litlu systur þína.
Var ekki gott að knúsa hana???
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 23:22
Takk Þórunn. Jú það var yndislegt.
Laufey B Waage, 12.4.2010 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.