13.4.2010 | 13:19
Flugan
Sat í mestu makindum á kaffihúsi í fyrradag, þegar ég rak allt í einu augun í flugu sem sveimaði við hlið mér. Mér fannst hún hegða sér eitthvað undarlega. Hún hélt sig nokkurn vegin í ákveðinni fjarlægð, um það bil 30 cm frá vinstra gagnauga mínu, - og hreyfingar hennar tengdust greinilega augn- og höfuðhreyfingum mínum. Hún fylgdi mér að vísu ekki alveg eftir, enda er undirrituð þekkt fyrir að vera með endemum snör í snúningum og snögg upp á lagið.
"Þetta hlýtur að vera eitthvað í hárinu á mér" hugsaði ég, - en eins og þeir vita sem mig hafa borið augum, þá geta mínir ægifögru hrokknu lokkar þyrlast víða um nágrennið, eins og þeir hafi sjálfstæðan vilja. Ég reyndi að hemja lokkaflóðið með handafli og ryðja því úr vegi, en flugan sveimaði áfram á svipuðum slóðum.
"Það er eitthvað á gleraugunum mínum" sagði ég við eiginmanninn, sem sötraði áhyggjulaus sinn expresso, án þess að kippa sér upp við hegðan mína, enda orðinn ýmsu vanur. Ég tók af mér gleraugun og pússaði þau óvenju vandlega, skoðaði þau í krók og kima og setti þau upp aftur. Flugan enn á sínum stað. Við athugun mína á gleraugunum hafði ég komist að því að gleraugnaumgjarðirnar voru algjörlega simmitrískar, þannig að ef flugan væri á þeim, þá ætti önnur fluga líka að sveima hægra megin við mig. En svo var ekki. Flugan, eða sýn mín á hana var klárlega vinstrisinnuð, eins og sýn mín á flest annað. Svo ekki tengdist hún gleraugunum.
Ég tók aftur af mér gleraugun og bað eiginmanninn að rannsaka í mér vinstra augað og bera það saman við það hægra. Ekkert kom út úr þeirri rannsókn.
Þá ákvað ég að reyna að gleyma fluguskömminni. Hjólaði heim og reyndi að gleyma mér við áhugaverð verkefni. Því ekki hugnaðist mér sú hugmynd að ég væri með flugu í höfðinu.
En flugan hélt uppteknum hætti næstu klukkustundirnar. Þegar ég hafði látið eiginmanninn vita hvað hann ætti að segja við sjúkraflutningamennina ef ég skildi missa meðvitund af upprennandi bráðkveddu, hringdi ég í dóttur mína ljósmóðurina og lýsti flugunni fyrir henni. Lýsingin hafði örugglega staðið minna en mínútu þegar hún sagði mér að þetta væru vel þekktar sjóntruflanir sem oftast tengdust háum blóðþrýstingi eða mígreni. Hvorugt hef ég nokkurn tíma átt vanda til að fá, en þorði þó ekki annað en að renna við hjá dótturinni í blóðþrýstingsmælingu. Kom mjög vel út eins og ævinlega.
Dóttirin sagði mér að fara til læknis ef flugan hætti ekki að sveima eftir hálfan til heilan sólarhring. Og hún sveimar enn. Já já ég veit, - ef flugan sveimaði á tölvuskjánum, væri ég örugglega á leið með hana á "eplaverkstæðið". Ég fer (stundum a.m.k.) með hluti á verkstæði, en ef einkenni gera vart við sig innra með með sjálfri, þá sveiflast ég á milli þeirra hugmynda að eitthvað bráðdrepandi sé að mér, - og að þetta sé svo eðlilegt og ekki neitt að það sé kjánalegt að mæta með slíkt til læknis.
Svo er ég líka búin að ákveða hvað þetta er. Ég hef aldrei verið eins stressuð og síðustu vikuna áður en flugan gerði vart við sig. Og stress virkar stundum þannig, að líkamleg einkenni gera vart við sig þegar hætta er liðin hjá. Svo ég leyfi blessaðri flugunni bara að sveima þangað til hún fær leið á mér og fer eitthvert annað. Hún truflar mig ekkert rosa mikið. Mér finnst hún meira að segja dáldið fyndin.
Lifið heil.
Athugasemdir
Ekki láta eins og kjáni. Ef flugan er ekki farin þá borgar sig að láta athuga hvurn fjárann hún er að vilja þarna. Jú, jú, það getur vel verið að þetta sé ekki neitt og þú gerir þig að algjöru fífli með því að fara til læknis. En það er bara allt í lagi! Betra en bráðkveddan alla vega ;-) Ef þú trúir mér ekki skaltu kíkja t.d. á þennan link:
http://doktor.is/index.php?option=com_d-greinar&do=view_grein&id_grein=1998
Berglind (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 15:49
Elsku Laufey, drífðu þig til doksa, það er betra að fara tvisvar of oft heldur en einu sinni og sjaldan. Knús á þig. Erla Birgis
ps. gaman að þú bloggir á ný, þú kemst svo skemmtilega að orði
Erla B (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 17:54
Já, það er vonandi að læknirinn finni út úr þessu. Þetta hlýtur fyrir það fyrsta að vera ægilega pirrandi. En það hjálpar engum að hafa of miklar áhyggjur af þessu og sofa ekki á nóttinni.
Ef ekkert gengur þá skal ég gefa þér gæluflugu í stuttu bandi sem við getum bundið við hægra eyrað á þér, svona upp á symetríkina.
Bjarki (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 08:35
Laufey mín, ég hef aldrei heyrt annað eins. Reyndu bara að skipa henni í burtu Vonandi losnarðu við hana sem fyrst elskuleg mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2010 kl. 18:00
Búin að fara til heimilislæknis, sem sendi mig strax til augnlæknis. Það kom í ljós að ég er með glerhlaups-samfall. Góðu fréttirnar eru þær að þetta er vita skaðlaust, svo fremi sem það rífi sjónhimnuna ekki með sér (þá mundi ég sjá eldglæringar). Slæmu fréttirnar eru þær, að flugan er komin til að vera. Ekkert hægt að gera nema venjast henni. Ég er strax byrjuð að vinna í því.
Laufey B Waage, 19.4.2010 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.