27.4.2010 | 11:23
Leiðréttar bernskuminningar
Þegar ég var 5 ára, ákváðu foreldrar mínir að flytja til Keflavíkur. Við áttum öngvar tengingar þangað, en pabba bauðst góð vinna þar. Mamma býr þar ennþá (pabbi er löngu dáinn) og systkini mín öll, - en ég flutti þaðan árið sem ég varð 17 ára og eignaðist mitt fyrsta barn.
Ég fílaði mig aldrei í Keflavík. Bregst ókvæða við ef einhver spyr hvort ég sé þaðan. Svara mjög ákveðið NEI.
Ég ólst upp á stórkostlegu heimili og er mjög sátt við foreldra mína og systkini.
Og ég gat verið hrókur alls fagnaðar í leikjum á götunni fyrir framan húsið okkar. Fílaði mig meira að segja stundum dáldið "aðal" meðal krakkanna í næstu húsum.
En um leið og komið var út fyrir þann litla radíus, var ég algjör "kúkur útí horni". Mér fannst ég alltaf vera svo mikið öðru vísi. Eina barnið í bænum sem gekk í regnkápu og stígvélum í rigningu - og ullarsokkum og gammosíum í frosti. Ég gekk í heimasaumuðum og heimaprjónuðum fötum (meira að segja heimasaumaðri úlpu sem mér finnst ofboðslega falleg þegar ég skoða gamlar myndir í dag) á meðan skólafélagarnir gengu í töff fötum af vellinum. Ég mætti í skólann með hollt nesti að heiman, meðan skólafélagarnir fóru út í bakarí í frímínútum og keyptu snúð. Ég hékk aldrei í sjoppum eins og allir hinir, enda fékk ég aldrei penginga fyrir nammi. Það var ekki til sjónvarp heima hjá mér fyrr en ég var 15 ára (rúmum 5 árum eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar), en þá voru allir hinir krakkarnir búnir að horfa daglega á kanasjónvarpið síðan þau mundu eftir sér (svo allir kunnu ensku nema ég). Svo gekk mér vel í námi, var oft hæst í árgangnum (hátt í 200 manna árgangur) sem var auðvitað yfirmáta hallærislegt.
Ég var því sannfærð um að öllu Keflvíska samfélaginu - með skólasystkini mín í alalhlutverki - fyndist ég fáránlegt viðundur. Ég gerði því enga tilraun til að tengjast neinum - og þau reyndu ekkert (mér vitanlega) að vingast við mig. Fyrir utan tvær vinkonur í næstu húsum, tengdist ég lítillega einni bekkjarsystur sem ég hef haldið örlitlu sambandi (jólakortasambandi) við síðan. Á seinni árum hafa svo nokkrar skólasystur (jólakortavinkonan ein þeirra) boðið mér að vera með í 6-8 kvenna hittingi (alls 4-5 sinnum). Og eina konu hitti ég af og til í leikfimi fyrir nokkrum árum. Þar með er allt upptalið.
Ég hef því eins og gefur að skilja - aldrei haft snefil af áhuga á að mæta á ríjúníon með þessum hópi.
Svo gerist það síðastliðið haust, að ég heyri ókunna konu segja frá því hún hafi farið á ríjúníon nýlega - og þar hafi þau undur og stórmerki átt sér stað að ótrúlega margir hafi komið að máli við hana og minnst þess hvað hún hafi alltaf verið æðisleg, skemmtileg og frábær og allt það. Konan missti andlitið af undrun, því hún hafði alltaf haldið að skólasystkinunum þætti hún ömurleg í alla staði - og því aldrei haft samband við neitt þeirra.
"Ég uppgötvaði því" sagði konan "að ÞAÐ ER HÆGT AÐ LEIÐRÉTTA BERNSKUMINNINGAR.
Þetta var stór og blaut tuska í andlitið á mér. Var konan að tala um mig?
Á þeirri stundu ákvað ég að mæta á næsta ríjúníon. Pottþétt!! Auðvitað geri ég ekki ráð fyrir að neinn fari að segja mér að ég hafi alltaf verið svo æðisleg, - en ég hef heldur engar forsendur til að halda að þeim hafi þótt ég algjör auli. Það væru fáránlegir fordómar í mér. Forsendurnar sem ég hafði á þeim tíma voru bara í hausnum á óþroskuðu viðkvæmu stelpuskottinu sem ég var þá. Þær forsendur hafa ekkert með hina krakkana að gera. Þau gerðu mér aldrei neitt. Þetta er væntanlega allt hið vænsta fólk í dag og á sínum tíma voru þau bara saklaus og eðlileg börn, sem gaman hefði verið að kynnast nánar.
Og nú er komið að því. Bara eftir nokkra daga. Ég hlakka ótrúlega mikið til að hitta allt þetta fólk!! Staðráðin í að mæta með galopin huga. Án fordóma og án væntinga. Geri þó frekar ráð fyrir að þetta séu upp til hópa frábærir einstaklingar sem gaman verður að kynnast. Og svo er auðvitað kominn tími til að þau fái að kynnast þeirri stórkostlegu manneskju sem ég er í dag.
Legg ekki meira á ykkur.
Lifið heil.
Athugasemdir
Allar bestu minningar um þig frá Ísó. Drífandi, félagslynd, glöð og hvetjandi. Þú settir allavega lit á mínar minningar og árin í leikklúbbnum, flla mér seint úr minni. Svo vorum við jú nágrannar framanaf. Ég held að þú fáir jákvæða endurskoðun minninganna á ríjúníóninu.
Ég man eftir því að á einu slíku komu tvær skólasystur að máli við mig og sögðust hafa verið veikar af ást, þegar við vorum í skóla. Ég varð aldrei var við það. Við börðum hvert annað með skólatöskum og flissuðum eins og þorpsfífl, horfðum á tærnar á okkur og fannst við öll ómöguleg.
Svona er þetta nú. Ímynd okkar er í okkar eigin höfði. Verst hvað það tekur langan tíma að komast að því.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.4.2010 kl. 14:42
Sæl Laufey mín, ég ætla líka að mæta á ríjúníonið þrátt fyrir alþekkt ófélagslyndi. Ég er stolt af því að vera jólakortavinkona þín og finnst við reyndar þekkjast miklu betur en það. Kannski stafar það m.a. af þessum frábæru bloggfærslum þínum. Ekki meira í bili en hlakka til að hitta þig
Vigdís (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 16:22
Takk Jón Steinar. Ég fílaði mig strax á Ísafirði - og stökk þar út úr skelinni sem fullskapaður gleðipinni.
Takk Vigdís. Ég hlakka líka til að hitta þig.
Laufey B Waage, 27.4.2010 kl. 23:08
Þú ert með þeim yndislegri konum sem ég þekki Laufey mín, þetta verður skemmtilegt reunion.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2010 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.