20.5.2010 | 11:23
Kynjaskipt þrifatilfinning
Við hjónin höfðum ekki búið mjög lengi saman þegar við sáum Hellisbúann. Samt nógu lengi til að fá tryllt hláturskast yfir ákveðnu atriði.
Hellisbúinn segir: Svo vilja þessar elskur líka að við þrífum á heimilinu. Og við eigum helst að taka það upp hjá okkur sjálfum. Hvað gerist svo ef við þrífum óumbeðnir? Þá ÞRÍFUM VIÐ VITLAUST!! HVERNIG ER HÆGT AÐ ÞRÍFA VITLAUST!?!?!
Ég er svo heppin að allir mínir eiginmenn hafa verið frekar eða mjög snyrtilegir á heimili. Einn þeirra skildi iðulega eftir sig uppúrstignar nærbuxur, síðbuxur og sokka hér og hvar um íbúðina, sem er bara fyndið svona eftir á - og algjörir smámunir miðað við subbuskapinn sem margar konur þurfa að líða af sínum mönnum. Þannig að ég hef verið heppin.
Fyrri eiginmennirnir sýndu öngvan áhuga á að sinna þrifum á heimilinu - og ég var nógu óþroskuð til að gera öngvar kröfur á þá.
Svo kemur þriðji maðurinn og tilkynnir mér skýrt og skorinort áður en við hefjum búskap að hann hafi séð um þrif og önnur heimilisstörf síðan hann var 8 ára og muni að sjálfsögðu gera það áfram. Hvað kom svo í ljós? Eldamennska og þvottar eru efni í aðra grein, en höldum okkur við þrifin: AUÐVITAÐ ÞRÍFUR HANN VITLAUST eins og Hellisbúinn.
Svo þrif á heimilinu héldu áfram að vera í mínum verkahring. Með einni undantekningu þó. Þegar nýja parketið var komið á stóran hluta íbúðarinnar, uppástóð eiginmaðurinn að það væri stórhættulegt að leyfa hamhleypum með skrúbb og sápu að koma nálægt svona fínu gólfefni, hann ætlaði að sjá um þrif á parketinu. Ég samþykkti það með semingi (segi honum aldrei hvað ég hef oft laumast til að bæta um betur þegar hann er "búinn" að skúra). Fannst þetta vera í stíl við kallana sem koma aldrei nálægt eldavélinni, en sitja stoltir yfir útigrillinu með grillspaða í annari og bjór í hinni. Karlrembuheimilisstörf.
Þá yfir í seinni hluta formálans: Ég hef alltaf verið óhemju löt að þrífa bílinn minn. Mér finnst það bara svo leiðinlegt, því sama hvað ég skrúbba og skrúbba, það koma alltaf helgidagar. Því finn ég oftast hjá mér þörf fyrir að þrífa bílinn þegar kuldinn er slíkur og þvílíkur að ég neyðist til að nota sjálfvirku þvottastöðvarnar. En það er auðvitað takmarkað hvað maður tímir að setja marga þúsundkalla í þær. Þess vegna er bíllinn minn oftast skítugur.
Svo var það í fyrradag, nokkrum klukkustundum fyrir öskufall í Reykjavík (típískt fyrir mína "heppni") að ég er í miðju bílaskrúbbi á þvottaplani. Leggur þá við hlið mér karlmaður ca. sextugur á tandurhreinum dökkgráum bíl og fer að þvo hann. Þá rennur upp fyrir mér í ljós: Tilfinning fólks fyrir þrifum fer algjörlega eftir kynjum!! Ég þekki öngvan karl sem þrífur ásættanlega inni á heimili, þeir hafa ekki tilfinningu fyrir því sem skiptir máli og þrífa því VITLAUST. Hins vegar virðast þeir hafa gaman af að nudda alls kyns tegundir af bílasápum og bónum á bíla sem mér virðast tandurhreinir. Á meðan allar konur sem ég þekki þrífa bílana sína illa, sjaldan eða aldrei - og finnst það hundleiðinlegt.
Ég viðraði þessa kenningu mína við eiginmanninn um kvöldið - og röksemdafærslur mínar voru með slíkum glæsibrag að hann samþykkti - loksins eftir öll þessi ár - að þrífa bílinn minn næst þegar ég sæi ástæðu til - og leyfa mér að skúra parketið. Og ég fór auðvitað hamförum strax í gærmorgunn. Þvílíkur unaður að ganga berfætt um gólfin núna. Mér finnst þau aldrei hafa verið jafn hrein. Hins vegar finnst mér allt í lagi að hafa öskuna aðeins lengur á Yarisnum.
Læt þetta duga í bili - og bíð spennt eftir femíniskum mótmælum og öðrum athugasemdum.
Lifið heil.
Athugasemdir
Það er alveg deginum ljósara að ´þeir taka það ekki upp hjá sjálfum sér að þrífa. Sjálfsagt til undantekningar sem ég þekki ekki.
Það er lykilatriði að kenna þeim að halda á tusku. Þeir verða líka að kunna að fara í hornin þegar þeir skúra gólfin. Einnig er mikilvægt að hafa ekki mikla sápu þegar þvegin eru gólf. Ef þeir kunna þetta gera þeir vel. Óli, Jóhann og Lalli kunna þetta allt og gera alltaf vel. En blessaður drengurinn er ekki eins laginn og það er allt mér að kenna. Ég gleymdi alveg að ala hann upp eins og þú veist. Karlmennirnir á mínu heimili sjá alveg um bílana. Og ekki má gleyma Sigríði Önnu hún er útskrifuð, með Akbrautargráðu í þrifum. Og þrír af fjórum körlum á heimilinu er líka með Akbrautargráðuna. Eina vandamáið hjá mér er að fá þá til að þrífa, en ef þeir komast í verkið virkar gráðan vel!!!!!
Maðurinn, þessi sextugi hefur örugglega verið Hrafnhildur systir mín í dulargerfi, hún þvær hreina bíla, og hún skúrar líkahrein gólf svo tekið sé dæmi. " Maður á bara að þrífa þegar maður þarf", og það er misjafnt hvað fólk "þarf að þrífa".
Eigum við eitthvað að ræða hvernig best er að ganga frá þvotti, hvað er straujað og hvað ekki. Hvernig á að hengja út á snúru og.....................................
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 20.5.2010 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.