31.8.2010 | 17:26
Þöggun.
Þegar frændi minn í Reykholti skrifaði í blöðin um skilyrðislausan trúnað presta við þá sem til þeirra leituðu, brást ég reið við og sagði að yfir engu kynferðisofbeldi mætti þegja, síst af öllu gagnvart börnum.
Og auðvitað stend ég fast á þeirri skoðun minni, þó ég geti að vissu leyti tekið undir skoðun þeirra sem segja að það sé skárra að perraglæponar opni sig við prest sem getur hugsanlega leitt hann frá sinni glæpaiðju, en að þeir (perrarnir) segi engum neitt af ótta við tilkynningaskylduna.
En mál málanna í dag snýst bara ekki um það. Ég leyfi mér að fullyrða að það gerist nokkurn vegin aldrei að einhver barnaperri komi til skrifta hjá presti.
Það sem gerist hins vegar allt allt of oft, bæði innan kirkjunnar og utan er þetta:
Segjum að þú sért prestur, kennari, eða haldir með einhverjum hætti utan um æskulýðsmál (skátaforingi, forstöðumaður sumarbúða, íþróttafélags o.s.frv.). Þú færð ástæðu til að gruna einhvern í þinni kirkju eða skóla eða .... um að hafa farið yfir strikið í sambandi sínu við barn eða ungling.
Hvað gerirðu? Þú hugsar strax: Nei þetta er bara einhver ímyndun í mér, hann er bara svona elskulegur og almennilegur, nú eða þá svo spaugsamur.
Þú jafnvel heyrir á tal vinnufélaga þinna sem gorta sig af því hvernig þeir fara að því að komast upp í rúm hjá unglingsstúlkunum sem þeir hafa umsjón með. Og þú hugsar: Alltaf sama kallagrobbið í þessum strákum. Þeir ættu nú að passa sig að fara ekki yfir strikið í montinu og spaugseminni. Það gæti nú misskilist. Málið dautt.
Eða þá að stúlka á viðkvæmum ("ólöglegum") aldri kvartar undan ósiðlegri hegðun eða jafnvel kynferðislegri misnotkun af hendi félaga þíns. Þú þekkir félaga þinn af góðu einu saman og hugsar með þér: Meira hvað þessar stelpur geta dramatiserað. Reynir að róa stúlkuna og telja henni í trú um að upplifun hennar hafi verið verulega ýkt.
Þar sem þú tekur ekki mark á stúlkunni, heyrir þú ekki frá henni frekar. Þú heldur því að málið sé dautt. Telur sjálfum þér í trú um að þetta hafi allt saman verið stormur í vatnsglasi - og engin ástæða til að hafa frekari áhyggjur.
Svona dæmi eru alltaf að gerast út um allt því miður. Við viljum ekki trúa neinu slæmu upp á þá sem okkur líkar vel við. Það er miklu þægilegra að trúa því að menn séu saklausir og lífið sé gott. Það er erfitt að stíga út úr þægindahringnum og það krefst mikils hugrekkis. Þú getur hæglega átt það á hættu að verða úthrópaður af öllum á vinnustaðnum, vinahópnum eða fjölskyldunni.
Það er heldur ekki að ástæðulausu að þú átt erfitt með að "sakfella" vin þinn. Öll erum við bæði búin kostum og göllum, - og perrinn á sér mörg andlit. Getur hæglega komið vel fyrir og jafnvel verið hinn vænsti maður að flestu leyti. Auk þess þurfa gerendur ekki alltaf að vera perrar. Gerendur geta í sumum tilfellum verið hinir vænstu menn, sem átta sig ekki á mörkunum í samskiptum sínum við viðkvæmar sálir og fara því "óvart" yfir strikið.
Við eigum samt ekki að þegja!!
Nýlega var ég í veislu og sat milli ungrar fréttakonu og yndælis eldri borgara. Við fréttakonan vorum að tala um efni þessa pistils, - og þá hvíslar eldri borgarinn að mér: Vertu ekki að tala um ÞETTA við HANA. Hún fær nóg af þessum viðbjóði í vinnunni.
Það er akkúrat málið. Viðhorf eldri borgarans hefur allt of lengi verið ríkjandi. Við eigum að hlífa öllum við óþægindum. Hlífa gerendum og öllum þeim sem málið varðar eða varðar ekki (varðar það kannski okkur öll?). Mörgum okkar tekst jafnvel að telja sér í trú um að við hlífum þolendum með því að gera lítið - helst ekkert - úr upplifun þeirra.
Ég fagna því að þessi mál eru komin upp á yfirborðið með þeim heiðarlega, einlæga, sannleiksleitandi hætti sem raun ber vitni. Ég dáist að þeim fórnarlömbum sem stigið hafa fram af gífurlegu hugrekki. Ég dáist líka að þeim kirkjunnar mönnum sem hafa sýnt máli þessu stuðning og iðrast þess að hafa ekki haft dáð og dug til að gera slíkt fyrr. Ég vona svo sannarlega að þeim eigi eftir að fjölga, bæði innan kirkju og utan.
Eitt að lokum: Gleymum því ekki, að vissulega koma upp mál, þar sem "fórnarlömb" dramatisera, ýkja, eða jafnvel ljúga upp á saklausa menn. Það hlýtur að vera skelfilegra en tárum taki að vera dæmdur saklaus, hvort sem það er af dómstólum og/eða almannarómi. Sannanir í þessum málum eru oft svo hræðilega erfiðar í báðar áttir. Látum það samt ekki hindra okkur í að sýna hugrekki og ganga fram fyrir skjöldu. Gerum það sem í okkar valdi stendur til að sannleikurinn megi koma í ljós.
Sannleikurinn og iðrunin eru af hinu góða fyrir alla. Líka fyrir gerandann.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér Laufey mín, góður pistill.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 18:02
Þetta er frábær pistill og sjónarhóll inn í þessi viðkvæmu mál. Og svo sönn. Takk Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.9.2010 kl. 11:22
Orð í tíma töluð - .
Vona að ekki verði lang í næsta blogg.
I.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.