Ekki dauð úr öllum æðum

Hér á forsíðunni stendur að ég skrifi aðallega um eigin hegðun og hugsanir, sem eru ekki alltaf í takt við það þó-nokkuð-góða vit sem Guð gaf mér. Mikið rétt. Margar færslur eru til vitnis um það. Tökum bara t.d söguna af pottaplöntunni, sojamjólkurfernunni og því sem ég gleymdi á bílþakinu. Og ég hef haft lúmskt gaman af þessum skrifum, því ég er svo heppin að eiga auðvelt með að gera grín að seinheppninni og flumbruganginum í sjálfri mér.

Af hverju líður þá svona langt á milli bloggfærslna í seinni tíð? Hefur seinheppni mín og flumbrugangur verið á hröðu undanhaldi?

Ónei, því fer fjarri. Þvert á móti, þá eru öll þessi atvik mér svo töm, að mér finnast þau beinlínis hversdagsleg - og því ekki frásagnarverð.

Eins og til dæmis í gær, þegar ég fylgdi eins og hálfs árs ömmudrengnum í Ísafjarðarflugið. Í hliðinu þar sem brottfararspjöldin eru afhent, spurði ég starfsmanninn eins blíðlega og ég gat hvort ég mætti ekki halda á honum út í vél - og skilja hann þar eftir hjá vinkonu minni. "Því miður" sagði starfsmaðurinn, "ég má ekki hleypa neinum öðrum en farþegum hér í gegn".

Ég knúskyssti því drenginn einu sinni enn (sonur minn segist hafa átt í mesta basli með að þvo af honum patchouli-lyktina) og horfði á eftir honum í fangi vinkonu minnar. Bjó mig undir að fara til baka, en þreifaði fyrst eftir lyklunum í bleika veskinu sem hékk um hálsinn á mér.

Hva? - Öngvir lyklar? Bíddu nú við. Ég man að þegar ég kom út úr bílnum með barnið í fanginu, þá stakk ég lyklunum í framhólfið á  - úps!!! - það er ekkert framhólf á bleika veskinu. - Ég stakk lyklunum í framhólfið á litla bakpokanum sem drengurinn var með í handfarangri!!!

Lyklarnir!!!!! öskraði ég um leið og ég æddi með látum út á flugbrautina á eftir farþegunum. Starfsmaðurinn varð víst ansi ferkantaður í framan áður en hann rauk á eftir mér, í stað þess að klára að afgreiða farþegana.

En eins og ég segi; - svona atburðir eru ósköp hversdagslegir þegar ég á í hlut. Ég meira að segja náði að bjarga málum í tæka tíð. Það var aðeins meira vesen síðast þegar ég sendi drenginn frá mér. - Þá skildi ég greiðslukortaveskið eftir í bakpokanum hans - og var því algjörlega eins og þorskur á þurru landi uns ég hafði fengið það sent til baka í ábyrgðarpósti. 

En nú læt ég undan miklum þrýstingi og fjöldaáskorunum - og held áfram að blogga. Þangað til ég sé eitthvað frásagnarvert við mína daglegu hegðun og hugsanir, get ég bara sagt gamlar sögur.

Að vísu segir eiginmaðurinn, - sem er einn minna fjölmörgu aðdáenda, - að ég sé alltaf svo ótrúlega fyndinn að af nógu sé að taka. Honum finnst t.d. alltaf jafn fyndið þegar formálarnir að sögunum mínum verða svo langir að ég gleymi sögunni sem ég ætlaði að segja. En ég segi bara (í anda Þórbergs) að betri sé langur og góður formáli, en stutt og auðgleymanlegt meginmál.

Svo fannst honum mjög fyndið fyrir nokkrum dögum þegar ég bað hann að sjóða kartöflur kl 19.05, því ég ætlaði að koma heim af fundi kl. 19.25. Áður en ég fór á fundinn hafði ég útbúið þennan yndælis rétt sem var í ofninum meðan ég var á fundi. Ég gleymdi bara að kveikja á ofninum. Mér fannst þetta ekkert rosalega fyndið, því ég þurfti auðvitað að bjóða sambýlisfólki mínu að borða á veitingastað. - Sjálf orðin öskrandi af hungri kl 19.25.

Hins vegar er eiginmanninum alveg hætt að finnast það fyndið, þegar ég býð honum á veitingastað - og uppgötva svo í miðri máltíð (gerðist t.d. einu sinni eftir að við höfðum keyrt á Stokkseyri til að bora á Við fjöruborðið) að ég hafði gleymt að taka með mér gjaldmiðla.

Við erum þó sammála um það hjónin að sagan af Grýlukanilkaffinu er alveg týpísk ég. Síðustu 2 eða 3 aðventur hef ég verið í daglegu nautnakasti við neyslu þess drykkjar. Í janúar síðastliðnum, þegar varan hætti að fást í stórmarkaðnum og búin úr boxinu heima hjá mér, - varð ég verulega fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki keypt ca 10 pakka og fryst. Í síðustu viku var ég orðin spennt að bíða, - fann aðventuna nálgast - og leitaði að tegundinni í hverri stórmarkaðsferð. Árangurslaust. Ákvað loks að hafa samband við Kaffitár himself og spyrja hvenær varan kæmi á markað. "Það hefur aldrei farið af markaði" svaraði stúlkan í Bankastrætinu, "við seljum það allt árið. Svo þessa dagana þarf ekkert átak til að rífa sig á fætur. Ég flýti mér með morgunmatinn á meðan ég laga tvöfaldan skammt af þessum unaðsdrykk.

Kannski hefur minn ástkæri bara rétt fyrir sér. Kannski eru hugsanir mínar og hegðun alltaf til frásagnar. Ég er samt að hugsa um að skella á ykkur gömlum sögum - alla vega svona í bland.

Bíðið spennt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laufey. Þú ert yndisleg.

I (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 06:09

2 identicon

Hvar værum við ef ekki væri þessi rugludallur?

Berglind (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 10:38

3 identicon

Laufey mín þú ert yndisleg.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 15:19

4 identicon

 Ha ha ha, þú ert alveg kostuleg og engum lík, og þannig áttu einmitt að vera. 

Ég bíð speeeennt :) (alveg kyrfilega spennt)

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband