5.11.2010 | 10:42
Tuðað um velferðarkerfið
Sökum aldurs og erfða þarf ég að hafa mikið fyrir því að vera hraust. Það kostar mig bæði fjármagn og fyrirhöfn. En mér dettur ekki annað í hug. Ég hef fullan hug á að verða allra kellinga elst - dansandi og syngjandi af fullum krafti fram í háa elli. Og það geri ég ekki liggjandi uppi í sófa, gleypandi niðurgreidd lyf og ódýra ruslfæðu.
Fyrir 8 árum greindist ég með asma, - ofan í slitgigtina, háa kolesterolið og hina lífstílstengdu kvillana. Lífstíllinn var þó ekkert slæmur, bara þessi dæmigerði íslenski; að borða flest það sem mann langar í og hreyfa sig bara þegar maður nennir.
Lungnasérfræðingurinn sagði mér að asminn væri ekkert "bara", þ.e. ég væri ekki neðst á skallanum, en hann gæti þó versnað töluvert. Og að lykilatriðin í að láta hann ekki versna mikið væru tvö: Að taka reglulega eitt púst á hverjum morgni (4-6 púst á dag til að byrja með og þegar ég væri slæm!!!) og regluleg hreyfing. Ég tók að sjálfsögðu mark á lækninum, keypti mér árskort í leikfimi - og eftir nokkra mánaða hopp var ég komin niður í 1 púst á dag.
Þegar kom að því að endurnýja árskortið, hugsaði ég með mér: Tryggingastofnun er tilbúin að niðurgreiða 5 sinnum meiri lyf en ég tek, - af hverju í ósköpunum vill hún ekki niðurgreiða leikfimikortið mitt?!?!?!?!?!
Fyrir tæpum 4 árum hætti ég svo alveg að borða sykur - og gerði fleiri stórar breytingar á mataræði mínu. Sem er eina skýringin sem ég finn á þeirri staðreynd að fyrir hálfu ári hvarf asminn með öllu. Eitthvað sem átti ekki að geta gerst.
Hreyfingin og mataræðið gerir það líka að verkum að ég þarf ekki að taka nein lyf við slitgigtinni, háa kolesterolinu og öllu hinu (t.d. þunglyndi) sem væri virkilegt vandamál í mínu lífi, ef ég leggði ekki fé og fyrirhöfn í að halda mér hraustri. Ég gæti hæglega verið orðin óvinnufær og komin á örorku eins og allt of margir eru langt fyrir aldur fram.
Eina "lyfið" sem ég þarf að taka eru gleraugun. Ég hef frá barnsaldri verið haldin sjúkdómi sem heitir nærsýni á frekar háu stigi og er þar að auki núna komin með snert af aldurstengdri fjarsýni. Ég kemst því varla fram úr rúminu án gleraugna, alla vega er ég ófær um flest (óökufær, ógöngufær, óvinnufær o.s.frv.) án þeirra. Á fárra ára fresti þarf ég að kaupa mér nýjan "lyfjaskammt" upp á vel yfir hundrað þúsund krónur. Mér tekst ekki að lækna mig af nærsýninni með lífstílsbreytingum. Af hverju í ósköpunum vill tryggingastofnun ekki niðurgreiða gleraugun mín?!?!?!?!??!
Auðvitað er ég þakklát fyrir að vera ekki haldin alvarlegum sjúkdómi sem gera mig lyfjaháða og jafnvel óvinnufæra. Margir sem það eru, eiga bæði samúð mína og aðdáun. Er í mörgum tilfellum bráðduglegt fólk, sem skapaði sér ekki sjúkdóminn á nokkurn hátt. Og ég vildi ekki vera í þeirra sporum. En hinir eru líka allt of margir sem úða í sig niðurgreiddum lyfjum og þiggja jafnvel örorkubætur, en gætu verið hraust vinnandi fólk, með smá fyrirhöfn.
Svo ég hlýt að spyrja enn og aftur: Af hverju niðurgreiðir tryggingastofnun ekki heilbrigðar leiðir sem virka betur en efnafræðiundrin, - bæði fyrirbyggjandi og sem lækning (ekki bara hreyfingu, heldur líka t.d. sjúkranudd)? Og af hverju gerir hún upp á milli líkamshluta, þ.e. niðurgreiðir flest annað en tannviðgerðir fullorðinna og gleraugu?
Svo gæti ég líka tuðað um verðið á óunnum hollum fæðutegundum - versus verð á sætindajukki og ofurunninni óhollustu. En ég er bara búin að fá nóg af þessu leiðindatuði.
Farin að gera eitthvað skemmtilegra.
Góða helgi gott fólk.
Athugasemdir
Góð Laufey.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 19:05
Laufey er ekki bara góð, hún er frábær!
Þessi lífsstíll þinn skilar líka miklu til okkar hinna sem umgöngumst þig!
Þorvaldur Örn Árnason (IP-tala skráð) 6.11.2010 kl. 09:04
Þetta er þörf og góð grein hjá þér Laufley mín. Ég ætti að taka þig mér til fyrirmyndar. En ég tek þó lýsi á hverjum morgni vegna slitgigtarinnar og hef haldið henni í skefjum í yfir 30 ár.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.11.2010 kl. 11:17
Já, þetta eru góðir puntkar hjá þér. Mér hefur lærst það, bæði í námi og starfi, að heilbrigðiskerfið okkar er fast í afleiðingafeni. Allt tiltækt fjármagn fer í að takast á við afleiðingar af hinu og þessu, m.a. í formi sjúkdóma. Það er bara enginn peningur eftir til að fyrirbyggja af einhverju viti. Ef við ætluðum að gera það þyrfti annað hvort að reka kerfið á tvöföldum útgjöldum í einhvern tíma, eða veita fénu að mestu til forvarna og leyfa fólki bara að hrökkva upp af úr þeim vandamálum sem þegar hafa orðið til. Önnur leiðin er ekki fær og hin er ... ja, ekki fær! Dálítil klípa.
Berglind (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 22:53
Berglind ég er ekki bara að tala um fyrirbyggjandi aðgerðir. Með mataræði og hreyfingu hef ég lækkað kolesterolið (mér var hótað lyfjum við því), haldið slitgigtinni í skefjum (þ.e. innan lyfja- og aðgerðamarka), unnið bug á þunglyndi (á lágu stigi, en sem hefði auðveldlega getað þróast yfir á lyfjastig) og alls kyns verkjum, auk þess sem ég hef læknast af asma (átti ekki að geta gerst).
Ég leyfi mér að fullyrða að það kosti ríkissjóð mun minna að niðurgreiða leikfimikort og hollan mat, en það sem fer í að niðurgreiða lyf og aðgerðir fyrir þá sem gætu læknast með hreyfingu og mataræði.
Vandinn er bara sá að við getum ekki tryggt að fólk mæti í niðurgreiddu leikfimitímana sína - og úði ekki í sig óhollustu til viðbótar við niðurgreiddu hollustuna.
Laufey B Waage, 9.11.2010 kl. 10:13
Ég er að mögu leiti mjög sammála þér. Það hafa margir talað fyrir uppáskrifuðu leikfimikorti og ég held að það sé ekki einu sinni svo erfitt í framkvæmd. Erfiðleikarnir liggja kannski í því að fá fólk til að nota það, s.s. vera ekki bæði með lyfin og leikfimikortið. Er þetta ekki ástæðan fyrir því að verkalýðsfélög niðurgreiða líkamsrækt; til að minnka líkur á örorku/veikindum sem lendir oft að einhverju leiti á þeim?
Þetta með gleraugun og tennurnar er auðvitað endalaus vitleysa. Betra að brjóta hönd en tönn í falli. Ég er þó svo heppin að nýlega voru samþykkt ný lög um endurgreiðslur á gleraugum og þar með datt ég inn í kerfið. Hef ekki enn nýtt mér það en þetta mun muna miklu fyrir mig, sem eins og þú, væri algjörlega óvinnufær án gleraugna.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.