31.12.2011 | 15:54
Annáll ársins - ekki fyrir töffara
Stundum er tekið fram að ákveðnar bíómyndir séu ekki fyrir viðkvæma. - Þessi pistill er hins vegar ekki fyrir þá sem nenna ekki að lesa eitthvert kellingavæl.
Árið hófst með þeim ósköpum að ég grét út í eitt allan janúarmánuð, - eða svo gott sem. Ég hef oft átt vanda til skammdegisþunglyndis í janúar - og þessi janúar stóð algjörlega undir nafni að því leyti. Og það sem meira var; heimasætan lagði upp í rúmlega 4ra mánaða heimsreisu til Suður-Ameríku og Asíu 14.janúar, - og ég átti afskaplega erfitt með að beina sjónum mínum frá þeim hugsanlega möguleika að ég væri að kveðja hana í síðasta sinn. Reyndi ítrekað að segja við sjálfa mig að slys, nauðganir og jafnvel morð ættu sér líka stað á Íslandi, en þá æpti alltaf á mig fullvissan um það að t.d mansöl væru töluvert algengari í fjarlægum löndum, - og fallega ljóshærða tvítuga stúlkan mín væri mikil freisting fyrir alla slíka glæpamenn. Svo var líka óþægilegt að hugsa til þess að ef eitthvað kæmi fyrir, þá gæti ég ekki stokkið til og bjargað henni.
Það eina sem ég gat gert var að leggjast á bæn. Hóf bænagjörðina strax og þær byrjuðu að plana ferðina (fóru 3 vinkonur saman). Varð svo yfirmáta hneyksluð þegar þær voru búnar að bóka stóru leggina - og í ljós kom að legginn frá S-Ameríku (Perú) til Asíu ætluðu þær að taka á 4 dögum yfir Atlandshafið en ekki Kyrrahafið. Hvað kom svo á daginn? Meðan þær flugu yfir Atlandshafið varð stóri mannskæði jarðskjálftinn í Japan. Ef þær hefðu farið yfir Kyrrahafið eins og mér fannst liggja beinna við, þá hefðu þær verið nýlentar á austurströnd Japan þegar skjálftinn og flóðbylgjan riðu yfir - og væru líklega ekki til frásagnar í dag. En stúlkan kom heil heim (enda er ég alltaf bænheyrð).
Þá að næsta kellingavæli: Um miðjan júní lét minn eigin líkami mig vita af því að ég væri oðin of gömul til að ofbjóða honum með sama álagi og þegar ég var ung. Hann hafði reynt að benda mér vinsamlega á það, en fannst ég ekki taka það nógu alvarlega, svo hann skellti á mig hressilegri hásinabólgu ofan á slitgigtina, svo ég neyddist til að ánafna heimasætunni leikfimikortinu. Fékk mér árskort í sundi í staðin og rifjaði upp gamla góða bringusundið (töffarinn ég hafði auðvitað bara synt skriðsund fram að því).
Ég byrjaði í kór. Ég sem er með próf í kórstjórn (síðan "86) hafði fram að þessu aldrei haft áhuga á að syngja í kór. Hafði bara sungið í skólakórnum sem var hluti af náminu í tónmenntakennaradeildinni, þ.e. skylda. Eina undantekningin voru 3 helgarnámskeið hjá Óskari Einarssyni gospelstuðbolta (reyndar söng ég líka smá með gospelsönghóp suður með sjó í fyrra). Svo kom að því að ég átti þess kost að syngja með gospelkór sem téður Óskar stjórnar við Lindakirkju. Eini kórstjórinn sem ég hef getað hugsað mér að syngja með. Og þetta er ÆÐI. Þvílík gleði og gaman. Við erum líka ógessssla góð (hraðsuðan á þessum pistli er einmitt af því ég þarf að fara að drífa mig þangað - messa kl 5 - mæting hálf 5).
Ég endurnýjaði kynnin við Fljótavíkina, hvar ég eyddi löngum og góðum stundum á árunum "72-"83, en hafði ekki komið þangað síðan. Var reyndar alveg afspyrnu óheppin með veður (lárétt slydda allan tíman), en lét það ekki eyðileggja fyrir mér.
Ýmislegt fleira markvert átti sér stað, - en það sem upp úr stendur er eins og árin á undan - þakklæti fyrir ánægjulegar samverustundir með öllum þessum frábæru einstaklingum í fjölskyldunni minni, - einum sér eða í smærri og stærri hópum. - Sem og þakklæti fyrir það hvað hversdagslífið mitt er unaðslegt í alla staði.
Vil aldrei strengja áramótaheit, - en ef ég gerði það, - þá mundi ég einfaldlega heita því að njóta lífsins - einn dag í einu.
Gleðilegt ár kæru vinir. Lifið heil.
Athugasemdir
Þú ert æði mamma mín! Gleðilegt nýtt ár :)
Ásbjörg Einarsdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2011 kl. 16:22
Gleðilegt ár elsku Laufey mín, takk fyrir fróðlegan pistil. Þegar ég var í Fljótavíkinni rigndi hundum og köttum og allt fór á flot, en eins og þú lét ég það ekkert á mig fá. Vonandi hittumst við á nýju ári. Hafðu það sem allra allra best
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2011 kl. 16:24
Gleðilegt á Laufey frænka mín, takk fyrir öll gömlu árin.
Það er svo margt sem breytist í áranna rás. Líkaminn breytist t.d. við að eldast, þó að aldurinn sé ekki hár. En eitt breytist aldrei og það er umhyggja okkar fyrir börnunum okkar.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 1.1.2012 kl. 16:37
Kæra Laufey.
Gleðilegt ár.
Þú ert yndisleg.
Kveðja,
Imba
Ingibjörg (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.