Ófær Reykjanesbraut

Í tilefni af því að Reykjanesbrautin var ófær í morgunn datt mér í hug gömul saga.

Það var á gamlársdag "82 að börnin voru á Ísafirði og ég ákvað að eyða áramótunum hjá mömmu sem býr og bjó í Keflavík. Sökum skafrennings og slæmrar færðar fékk mamma mig til að taka rútuna (hún hafði ekki sömu ofurtrú á mér og SBK). Sagði að síðasta rúta færi 15.30.

Þegar ég mæti á BSÍ um kl 15.20 kemur í ljós að síðasta rúta fór 13.30. Svo ég náttla legg á brautina á minni gömlu góðu ljósrauðu WW.bjöllu.

Í Engidalnum (á gatnamótum Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness) fauk rúðuþurrkan út í veður og vind, - slíkur og þvílíkur var krafturinn í kára. Sem breytti svo sem ekki miklu, því það sá hvort eð var ekki út úr augum. En við þekktum brautina - ég og bjallan - og héldum því ótrauð áfram.

Það fyrsta sem ég heyrði þegar ég kveikti á útvarpinu (ójú, bjallan var svo vel búin) var að Reykjanesbrautin væri kolófær. En mér datt auðvitað ekki í hug að reyna að snúa við, því einhver ósýnilegur bíll gæti komið úr hinni áttinni og keyrt mig niður. Bað þess bara að mamma væri ekki með kveikt á útvarpinu, því tilkynningin kom aftur og aftur og fólki var mjög ákveðið ráðið frá því að leggja á kolófæra brautina.

Þó þekkingin á brautinni sé þokkaleg, er óráðlegt að keyra hana algjörlega blindandi. Því stökk ég af og til út úr bílnum, hélt dauðahaldi í hann með annarri hendi meðan ég þurrkaði af rúðunni með hinni og reyndi að átta mig á hvort ég væri ekki örugglega á veginum og jafnvel á réttum vegarhelmingi. Stökk inn aftur og keyrði hratt á meðan ég vissi nokkurn vegin hvernig leiðin lá.

Ég var auðvitað dauðhrædd um að einhver keyrði mig niður á þessum úthoppum mínum, því það var ekki möguleiki að eygja mig og bjölluna í þessum staurblindandi skafrenningi. En það vildi mér til lífs að ég var EINI bíllinn á brautinni.

Ég var 2 klst á leiðinni til mömmu (er oftast 35 mín). Mamma var ekkert hissa að sjá mig. Henni hafði ekki hugkvæmst að kveikja á útvarpinu, hún hélt bara að rútan væri svona lengi á leiðinni.

Miðstöðin í bjöllunni var með 2 stillingar; kalt og ískalt. Einungis síðarnefnda stillingin virkaði þennan dag. Ég fór beint í heita og LANGA sturtu hjá mömmu en náði EKKI úr mér hrollinum. Eftir hátíðarkvöldverðinn fór ég undir 2 sængur og 2 teppi fram að skaupi. Fór þá í tvær þykkar peysur af pabba utan yfir sparifötin og vafði 2 teppum um neðri hlutann. Skalf samt fram á nýja árið.

Þreyjum þorrann og þraukum gott fólk.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

'Uff Laufey mín þetta hefur verið feigðarflan hjá þér

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.1.2012 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband