Flókin lýsing á einfaldri fjölskyldu - eða öfugt?

Ég er þrígift. Skil ekki hvað ykkur finnst svona merkilegt við það. - Ég hef einfaldlega aldrei verið mikið fyrir skyndikynni. Get næstum sagt eins og Kristmann Guðmundsson: Ég bara giftist þeim öllum.

Elsti eiginmaðurinn er 6 og 1/2 ári eldri en ég, en samt átti hann engin börn fyrir okkar kynni - svo vitað sé - þannig að ekki er það til að flækja málin. Við eigum 2 börn saman, sem bæði eru gift og eiga börn. Eldri dóttir mín á stjúpbarn sem harðneitar að kalla mig ömmu. Hann neitar líka að kalla eiginkonu líffræðilegs afa síns ömmu, - því þó hann sleppi okkur báðum, ruglast hann alltaf í talningunni á öllum sínum ömmum. Hans fjölskyldusaga er sko töluvert flóknari en mín skal ég segja ykkur.

Milli fyrsta og annars eiginmans átti ég tvo kærasta. Annar þeirra átti barn fyrir og var ég því stjúpmóðir þess barns á því tímabili.

Með mið-eiginmanninum á ég eina dóttur. Sá maður átti einn dreng fyrir, sem var þá stjúpsonur minn og stjúpbróðir eldri barnanna minna. Fyrir tveimur árum tók mið-eiginmaðurinn svo aftur saman við fyrri barnsmóður sína. Það lúkkaði því vel í formála minningargreina þegar móðir þeirrar konu var jörðuð: "maki X er Y - sonur þeirra er Z fæddur 1986". Alveg eins og þau hefðu verið gift í 30 ár eða svo, þó maðurinn hafi búið með mér frá "87 til "97.

Elsti eiginmaðurinn giftist líka aftur og á með seinni konu sinni 2 dætur. En milli þessara tveggja dætra tóku þau sig til og bjuggu til barn handa systur konunnar og hennar manni, sem gátu ekki eignast barn sjálf. Nei nei, ekkert glasa- eða tækni-neitt - allt með gamla laginu.  Dóttir mín af mið-hjónabandi kallaði þessar stúlkur strax stjúpsystur sínar.

- Því var það þegar einkasonurinn varð þrítugur og afmælisviðtal við hann birtist í "Daglegri Vitleysu"; - að hann sagðist eiga 5 systur (sem er auðvitað satt og rétt) - og í upptalningunni kom fram að önnur hvor systir bar sama eftirnafn, en systur númer 2 og 4 báru önnur eftirnöfn. Einkasonurinn varð hálf miður sín og sagði að þetta lúkkaði illa fyrir mig. - Það væri eins og ég ætti öll þessi börn - og hefði alltaf tekið pabba hans í sátt aftur eftir að hafa átt dætur með öðrum mönnum.

Seinni kona elsta eiginmannsinns skildi líka við hann og er nú farin að búa með öðrum. Sá maður á held ég 3 börn fyrir, en hann lítur á stjúpbörn núverandi konu sinnar - þ.e. ömmubörnin mín - sem sín eigin afabörn - og sinnir þeim sem slíkum.

Þegar ég tók saman við þriðja eiginmannin fyrir tæpum 11 árum, var ég orðin löt (enda búin að vera með börn síðan ég sjálf var barn), þannig að við eigum ekkert barn saman. En hann á 2 syni úr fyrra hjónabandi sem eru náttla stjúpsynir mínir og stjúpbræður barna minna. Ég veit þó ekki til þess að þeir telji systkini barna minna til stjúpsystkina sinna.

Fyrri kona þriðja mannsins býr nú með öðrum manni sem á þrjú börn (sem eru þá stjúpsystkini stjúpsona minna, en börnin mín kalla þau ekki stjúpsystkini sín). Þau eiga engin börn saman, en á milli mannsins míns og núverandi sambýlismanns giftist konan öðrum manni og var næstum búin að eignast barn með þeim manni (sem hefði þá verið jafngamalt ömmustelpunni minni). 

Fjölskyldan mín er nú ekki flóknari en þetta. Og við erum bara að tala um "niðrávið"-fjölskylduna. Ekki systkini mín og foreldra eða neitt slíkt (Waage-fjölskyldan þykir mörgum ansi skrautleg).

Áður en tengdadóttir mín kynntist manninum sínum, þ.e. syni mínum, var hún í sumarvinnu með tengdamömmu dóttur minnar. Meðan þær reittu arfa og plöntuðu og snyrtu merkari jurtir var sú yngri alltaf að segja: Segðu mér nú aftur frá fjölskyldunni hennar B, - hvernig var þetta aftur?

- Hvað var hún að meina? - Er þetta eitthvað flókið? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Bara dásemdin ein Þú toppar gersamlega mig og mitt fólk, þó að ýmislegt megi segja þá hafa þau ekki stundað raðkvæni, hefðu kannski betur gert það og þannig gert lífið skemmtilegra

Margrét Birna Auðunsdóttir, 26.5.2012 kl. 14:24

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha elsku Laufey mín.  Ég er afi minn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.5.2012 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband