1.7.2012 | 22:44
Woddy Allen
Þegar til stóð að fara með kennarahópnum til New York í október, var ég ákveðin í að fara á tónleika með Woody Allen. Vissi að hann spilaði á ákveðinni jazzbúllu í NY öll mánudagskvöld. Taldi vissara að kaupa miða (dýrir miðar - kvöldverður innifalinn) strax á netinu, svo það yrði ekki uppselt. Eitthvað innsæi sagði mér þó að bíða með það. Kannski hefur það bara verið mín hefðbundna frestunarárátta. En hún bjargaði mér alla vega frá fjárhagstjóni í þetta skiptið. Því Iceland Express flugfélagið felldi ferðina okkar niður á síðustu stundu - og við hefðum ekki fengið Woody-miðana endurgreidda.
Við fórum því með öðru og betra flugfélagi nú í júní. En þá þorði ég ekki að panta miða á Woody fyrr en hálfum mánuði fyrir brottför - og þá var auðvitað uppselt. En okkur var sagt að við gætum reynt að mæta snemma og þá fengjum við sæti við barinn.
Við mættum þremur eða fjórum tímum fyrir tónleika, en það voru fleiri en 9 á undan okkur - og einungis 9 manns komast fyrir við barinn. Ég suðaði í kallinum sem réði, sagði honum auðvitað að við værum komin alla leið frá Íslandi - ásamt "það var sagt okkur"-pakkanum, við erum á biðlista, þú ætlaðir að hringja - og allt það. "Ég er með 700 manns á biðlista" sagði hann "en þið getið prófað að bíða - það verður nokkrum úthlutað stæði þegar tónleikarnir byrja.
Og við biðum áfram. Til að gera langa sögu stutta, þá vorum við í hópi þeirra 6 eða 8 sem komust í stæði. Enda var ég svo staðráðin í því að komast inn, að ég hefði ekki yfirgefið staðinn ójárnuð.
Tónleikarnir voru algjör unaður. Og við fengum algjör stúkustæði. Ca 3-4 metrum fyrir framan Woody. Og ég gat andað með tónlistinni sem var algjörlega órafmögnuð. Ég hef reyndar heyrt í klarinettleikurum með betri tón, en það var aukaatriði. Frábær tónlist, frábær flutningur og frábær stemmning.
Því miður tókst mér ekki að ná myndunum hér inn (já ég veit, ég þarf líklega að fá mér nýja tölvu), en þær eru á facebook. Albúmið heitir New York myndir (minnir mig).
Lifið heil.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.