31.12.2012 | 00:08
Annáll ársins 2012
Ég hef margoft sagt að þegar (ekki ef) ég verð gömul og rík, þá ætla ég að búa í einhverju heitu landi frá janúar og fram í mars ár hvert. Ekki bara vegna þess að gömul og gigtveik kona með asma og krónískar ennis- og kinnholubólgur (og Guð má vita hvað á eftir að bætast við) hefur gott af því að dveljast langdvölum fjarri frosti og fjúki. Sem er reyndar aðalástæðan. En líka hitt, að á þeim tíma er ekkert spennandi að gerast sem mér finnst ómissandi (nei ég er ekki ein af þeim sem þræði þorrablótin og árshátíðarnar grimmt).
Og svo virðist sem það hafi átt við í ár. Ég man ekki eftir neinu sérstöku frá fyrsta ársfjórðungnum. Sem eru líka góðar fréttir því ég minnist þess ekki að hafa farið í mitt hefðbundna janúarþunglyndi (tók það svo hressilega út 2011).
En með vorinu fóru hlutirnir að gerast. Ég þurfti að grafa gamla góða vegabréfið mitt upp úr skúffunni og athuga hvort það væri í gildi. Ég hafði ekki brugðið mér af landi brott síðan um páskana 2007 eða í rúm 5 ár.
Vegabréfið var útrunnið og ég lenti í meiriháttar veseni í sambandi við ritun nafnsins míns á nýja vegabréfinu. En það er önnur saga sem ég nenni ekki að rifja upp hér.
Og af því hófsemdin hefur nú aldrei verið ein af mínum helstu dyggðum, þá fór ég náttla í tvær utanlandsferðir með mánaðar millibili. Fyrst með kórnum mínum til Danmerkur - og svo með skólanum mínum til New York. Í New York lét ég langþráðan draum rætast og fór á hárgreiðslustofu í Harlem, hvar kona frá Togo í Afríku fléttaði mig eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
En það sem er sérstakt og öðru vísi við þetta ár sem er að líða, er að 3 stór "drömu" hentu, skeðu og áttu sér stað hjá mér nátengdum. Ég held að það séu bara 3 gjörgæsludeildir (að vökudeildinni meðtalinni) hér á höfuðborgarsvæðinu og ég heimsótti þær allar. Fram að því man ég bara til að hafa farið tvisvar inn á gjörgæsludeild.
Þetta byrjaði með yndislegri gleðifrétt sem við áttum von á: Ömmustúlka kom í heiminn á Ísafirði að kvöldi 16. júní. Hún var 18 merkur (eins og amma Laufey) og ekki var annað að sjá en hún væri fullkomlega hraust og heilbrigð. En örfáum klukkustundum síðar kom í ljós að hún var með votlungu og tilheyrandi oföndun, svo nauðsynlegt þótti að kalla eftir sjúkraflugvél og flytja hana ásamt foreldrunum á vökudeildina í Reykjavík. Þar var hún í viku, hvar hún braggaðist hratt og vel - og er nú hreystin uppmáluð. Myndin hér til hliðar er tekin af mér með bróður hennar fyrir tæpum 4 árum síðan. - Mér tókst ekki að ná í myndirnar af stúlkunni. En þið getið séð þær á facebook - albúmið heitir Sumarið 2012.8. júlí fann ég fyrir langmestu áfallseinkennum sem ég hef nokkru sinni fundið, þegar mér var tilkynnt að besta vinkona mín hefði lent í hjartastoppi. Sem betur fer var réttur maður á réttum stað og stund, svo endurlífgunartilraunir tókust vel, en það þurfti mikið til, bæði á staðnum og í sjúkrabílnum. Hún var mánuð á sjúkrahúsi, en hefur verið mjög dugleg í bata og endurhæfingu - og er nú á góðri leið með að verða hraustari og heilbrigðari en nokkru sinni fyrr.
Þriðja heimsókn á gjörgæsludeild var svo nú í byrjun des, þegar pabbi stóru barnanna minna (fyrsti eiginmaðurinn minn) lá þar með lífshættulega lungnabólgu. Honum var haldið sofandi í tæpa viku, en eftir það var batinn svo ótrúlega hraður og mikill, að hann væri kominn vestur á Ísafjörð ef veðurstofan og vegagerðin hefðu ekki kyrrsett hann hér syðra.
Já það er nokkuð ljóst að hvert ár hefur sína sérstöðu. Ég held að þetta sé í sjötta sinn sem ég sendi frá mér annálsblogg - og það er alltaf eitthvað einstakt og öðru ólíkt sem einkennir hvert ár fyrir sig.
Og nú man ég ekki fleira markvert. Nema hvað ég predikaði í kirkjunni minni á jóladag og keypti mér nýja tölvu í fyrradag. Svo poppar örugglega eitthvað fleira upp. Þá skelli ég því í kommentadálk hér fyrir neðan. Njótið áramótanna kæru vinir og alls ársins framundan.
Lifið heil
Athugasemdir
Gleðilegt ár kæra vinkona og bestu þakkir fyrir það sem er að líða
Margrét Birna Auðunsdóttir, 31.12.2012 kl. 00:16
Takk sömuleiðis Bidda mín :)
Laufey B Waage, 31.12.2012 kl. 00:43
Takk fyrir árið mamma mín :*
Ásbjörg (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 01:00
Takk sömuleiðis ástin mín.
Laufey B Waage, 31.12.2012 kl. 10:43
Knús og kram frá mér elsku Laufey og bestu óskir um góð áramót og gleðilegt nýtt ár. Það var gott að allar bráðadeildarferðirnar fengu góðan endi, svo sannarlega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2012 kl. 13:48
Gleðilegt ár frænka mín og takk fyrir öll gömlu góðu árin. Vonandi hafa áramótin verið góð hjá þér og þínum.
Satt egir þú það er misjafnt hversu viðburðarrík árin eru, og hvað er svo sem viðburður. Allavega finnst mér það viðburður að Bergljót Einarsdóttir frænka okkar er komin á feisbúkk. Hér eru allir sæmilega hressir og við erum bjartsýn á að árið verði okkur gott. Það er líka vona mínað það verði þér og þínum gott og hamingju ríkt.
Verðum að fara að hittast eldku barn.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.