23.1.2013 | 18:27
Um almannafé - ábyrgð og ÁLAG
Fjöldauppsagnir virðast nú rétt einn ganginn vera hluti af örvæntingarfullri kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga.
Og nú eru samningar lausir hjá grunnskólakennurum og allt útlit fyrir að neyðin reki okkur í verkfall og/eða hópuppsagnir.
Af hverju í ósköpunum þarf þessi staða alltaf að koma upp aftur og aftur?
Ég sem hélt í "fávisku" minni að stærstur hluti okkar skattgreiðenda ætti börn eða barnabörn eða þætti einfaldlega nógu vænt um landsins börn til að vilja að þeir sem sinna börnunum lungað úr deginum séu góðir, óþreyttir og ánægðir kennarar.
Ég hélt líka að öll þyrftum við einhvern tíman á heilbrigðisþjónustu að halda, - bæði fyrir okkur sjálf, börn okkar, foreldra, maka og aðra sem okkur er annt um, - og vildum þá njóta þjónustu góðra, óþreyttra og ánægðra heilbrigðisstarfsmanna.
Ég geng meira að segja svo langt að halda að það sé þetta tvennt sem við viljum helst af öllu setja peninga í. - Peninga úr sameiginlega sjóðinum okkar, - ríkiskassanum.
Jú þið tókuð rétt eftir - ég nefndi ekki bara góða starfsmenn sem eiga skilin góð laun fyrir vel unnin störf, - ég nefndi líka óþreytta og ánægða starfsmenn. Þetta snýst nefnilega um fleira en krónur per klukkustund.
Mínar hugmyndir um það sem betur mætti fara í rekstri sjúkrageirans bíða eru of plássfrekar hér og nú, auk þess sem ég sjálf er ekki fagmaður þar. Get þó ekki stillt mig um að nefna einn fáránleika þar. Við getum ekki borgað læknum ásættanleg dagvinnulaun, en getum borgað þeim fyrir endalausa yfirvinnu, þannig að við lendum oft í ofurþreyttum læknum, sem hafa jafnvel vakað sólarhringum saman. Er það það sem við viljum? (meira síðar um eftirvinnu).
En í skólakerfinu er ég - og hef lengi verið - innanbúðarmaður.
Ég er orðin hundleið á að reyna að vekja athygli á þeirri ábyrgð sem fylgir því að sinna börnum, gamalmennum, fötluðum og veikum. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið ein um að benda á það. Ég bara skil ekki hvers vegna í ósköpunum þeir sem með fjármálavöldin fara sjá ekki ástæðu til að launa okkur sem þá ábyrgð axla til hálfs á við þá sem vinna við að velta peningum og öðrum dauðum hlutum á milli handanna (með fullri virðingu fyrir t.d. iðnaðarmönnum og mörgum öðrum starfstéttum).
Ég nenni heldur ekki lengur að benda á þá staðreynd að sú vinna sem vér kennarar sinnum (eða eigum að sinna) fyrir utan kennslutíma tekur a.m.k. jafn langan tíma og tíminn sem fer í beina kennslu. Ég nenni nefnilega ekki að svara fyrir þá kennara sem taka að sér allt of mikla aukavinnu - að sjálfsögðu af brýnni fjárhagsþörf. Því síður nenni ég að svara fyrir þá örfáu kennara sem hafa komist upp með að "liggja í leti" eftir klukkan 3 alla daga og allar helgar.
Þeir sem eitthvað til málanna þekkja vita að sjálfsögðu að langflestir kennarar sinna starfi sínu mjög vel, bæði í kennslustundum og utan þeirra og hafa því öngva afgangsorku til að taka að sér aukavinnu. Í allt of mörgum tilfellum eru þessir kennarar úrvinda af þreytu kvöld eftir kvöld, koma sér svo upp álagssjúkdómum og/eða "brenna út" langt fyrir aldur fram.
Það sem gleymist nefnilega allt of oft í kjarabaráttunni er að við eigum ekki bara skilin betri laun fyrir ábyrgð og vel unnin störf í ákveðinn klukkustundafjölda. Kennslustarfið er mjög mikil ÁLAGSVINNA og fyrir það eigum við að fá borgað.
Sjálf gekk ég í þá gildru fyrir tæpum þremur árum að halda að ég gæti farið upp í ca 130% kennslu, eins og ég gerði þegar ég var ung og orkumikil (lesist; áður en ég skemmdi mig á yfirvinnu og ofurálagi). Þú ert með svo mikla og góða reynslu Laufey, þú getur nýtt þessa reynslu þína, þarft ekki alltaf að vera með 100% undirbúning, sagði ég við sjálfa mig. Svo þarftu nú ekki að vera á útopnu í öllum kennslustundum - hélt ég áfram. Það var stór misskilningur. Nokkrum mánuðum seinna var ég send með sjúkrabíl frá bráðamóttku á hjartadeild með sterkan grun um kransæðastíflu. Slapp sem betur fer við stíflukastið, en var í kjölfarið greind með nokkra varanlega álagssjúkdóma.
Ég vil þó meina að ég geti mjög vel sinnt mínu starfi áfram ef ég fer ekki yfir eðlilegt starfshlutfall. Ég vil líka meina að ég sé mjög góður kennari - og það væri skaði fyrir mörg börn ef ég segði upp og færi að vinna í banka. Og þetta á við um mjög marga kennara. - En að launum viljum við eiga fyrir osti ofan á brauð og þess háttar lúxus án þess að gerum okkur að öryrkjum fyrir aldur fram af ofurálagi.
Svo nú kasta ég boltanum yfir til ykkar skattgreiðenda. Í hvað viljið þið setja skattpeningana? Viljið þið setja þá í rándýrar byggingar og önnur óþarflega dýr mannvirki? Viljið þið setja þá í ofurlaun, sposlur og bitlinga til fólks sem vinnur við annað en að sinna fólki? Viljið þið afskrifa skuldir auðmanna? Viljir þið setja þá í alls kyns bruðl og vitleysu? Og nota svo afganginn til að að borga örorkubætur og lækniskostnað til útbrunninna kennara og hjúkrunarfræðinga? Eða eruð þið með betri hugmynd?
Ef þið eruð með betri hugmynd, þ.e.a.s. að borga fólki sem vinnur vel með börnum, sjúkum, fötluðum og öldruðum, sómasamleg laun - og jafnvel að búa þeim betri starfsskilyrði, viljið þið þá plíííís koma þeirri hugmynd á framfæri þar sem hún gæti komið til framkvæmda.
Lifið heil.
Athugasemdir
Heyr heyr mín kæra Get ekki ímyndað mér að nokkur maður geti mótmælt þessari færslu en einhverra hluta vegna viðgengst þetta ástand, erum við svona dofin að við trúum því ekki að þessu sé hægt að breyta - eða eimir enn eftir af því gamla viðhorfi að kennsla og hjúkrun eigi að vera hluti af vinnuskyldu kvenna heimafyrir og þar með ólaunað?
Margrét Birna Auðunsdóttir, 23.1.2013 kl. 21:17
Nei Laufey ég vil fyrst og fremst setja launin mín í fólkið í landinu, það fólk sem kennir okkur hjúkrar og bætir og lagar. Hús og prjál mega bara bíða þangað til við höfum efni á slíku.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.1.2013 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.