Loksins ein hversdagsleg

bollstell 2Síðast þegar ég heimsótti vinkonu mína fyrir austan fjall, setti hún vatn í ketilinn og teygði sig eftir pakka af Rósu frá Mel, með orðunum; þú vilt te er það ekki? Ja mig langar nú meira í kaffi ef þú átt það - sagði ég. Hún varð eitt spurningarmerki í framan og sagði; ég hélt þú værir löngu hætt að drekka kaffi. Þú veist vel - sagði ég þá - að þetta með mig og kaffið er eins og með þig og reykingarnar. Ég veit aldrei hvort þú ert nýhætt að reykja eða nýbyrjuð aftur næst þegar ég hitti þig. Þessi tiltekna vinkona mín segir oft; það er ekkert mál að hætta að reykja, ég hef oft gert það. 

En þó að ég hafi oft hætt að drekka kaffi, þá get ég ekki sagt að það sé ekkert mál. Því var það, að síðast þegar ég valdi að skera kaffidrykkju við nögl frekar en að stefna á vélindakrabba, - að ég ákvað að taka "einn dag í einu" regluna fram yfir varanlegt bindindi. Því vitið þið aldrei kæru vinir hvort það er kaffidagur eða kaffilaus dagur næst þegar þið hittið mig. 

Eftir nokkra kaffilausa daga, ákvað ég í gær að fá mér góðan kaffibolla. Það var engin blá sojamjólk til á heimilinu, svo ég frestaði kaffidrykkjunni fram yfir hádegi, þ.e. ákvað að koma við á kaffihúsi í Bankastræti á leið minni úr Laugarneshverfi um eittleytið. Ég var svo heppin að fá bílastæði í sjálfu Bankastrætinu. Sat smá stund í bílnum og velti fyrir mér hvort ég hefði tíma í þetta, - maður verður að gefa sér góðan tíma til að njóta þessara góðu drykkja, þegar þeir eru ekki fleiri en raun ber vitni. Spáði líka í það hvort ég væri örugglega nógu góð í opinu (vélindanu) til að leyfa mér þetta. Stóð svo góða stund við stöðumælinn og skammtaði honum gull og silfur eftir að hafa gaumgæft nákvæmlega hvað ég þyrfti langan tíma til að njóta drykkjarins (Látið ekki svona kjánarnir ykkar, ég er vanalega á hjóli og þá þarf ég ekki að borga í stöðumæli).

kaffiBiðröðin var lengri en ég bjóst við. Átti ég að hlaupa út og bæta tíkalli í mælinn. Nei, þá mundi röðin bara lengjast á meðan. Ég gæti bara pantað drykkinn og hlaupið svo út og bætt í á meðan ég biði eftir honum. 

Þar sem ég vil nú alltaf að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig, þá passaði ég mig á því - á meðan sá fyrir framan mig í röðinn var að borga - að hafa allt tilbúið, - og þreifaði eftir pening.... - nei greiðslukorta....... - Laufey ert´ekk´að grínast? Ertu virkilega ekki með neinn greiðslumiðil á þér. Mér varð hugsað til hundraðkallanna og fimmhundruðkallanna sem höfðu legið ónotaðir hjá garði í hanskahólfinu mínu mánuðum eða árum saman - svona til öryggis, ef ég skildi lenda í akkúrat þessari stöðu. Af hverju þurfti ég svo að fjarlægja þá daginn áður en ég þurfti á þeim að halda. Tíkallinn sem ég ætlaði kannski að bæta í stöðumælinn dugði ekki fyrir neinum kaffibolla.

Rétt náði að þjóta út áður en spurningunni; get ég aðstoðað, var bent að mér. Iss þetta var allt í lagi (þau eru súr sagði refurinn), nú gæti ég notað tímann fram að kennslu til að koma við í Byko og kaupa seríur í staðin fyrir þessar ónýtu. Og við hliðina á Byko er Krónan, sem selur þessa fínu bláu sojamjólk. Ég gæti bara keypt hana og komið svo við að láta mæla frostlöginn áður en ég færi heim og lagaði míns eigins sojalatte og sötraði á því við kennsluna.

Nei börnin mín stór og smá - ég er ekki að grínast. - Ég var búin að leggja bílnum fyrir utan Byko og drepa á honum þegar ég uppgötvaði að viðskipti við Byko, Krónuna og Olís fara heldur ekki fram án endurgjalds. 

En þannig mátti sagan ekki enda. Kona sem keyrir eins og bankaræningi á flótta, þýtur náttla eins og píla heim eftir greiðslukorti og nær að kaupa seríurnar og sojamjólkina og láta vinalega afgreiðslumanninn á Olís segja sér að frostlögurinn væri 45, sem væri bara mjög gott. Þannig að áður en fyrsti nemandinn mætti klukkan 13.55 náði ég að laga mér þetta fína "kaffi-vesen" eins og hann kallar það, instantkaffi-drengurinn sem gaf mér bæði sojamjólkurþeytarann og kanilsteytarann.

P.s. biðst afsökunar á þessari síðustu mynd sem vill bara lafa þarna fyrir neðan. Mér tekst hvorki að færa hana ofar né eyða henni.

Góða helgi gott fólk. 

Rennsli

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha Laufey mín, þú ert frábær <3

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.12.2013 kl. 03:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband