Bleika hálsfestin

Mér fannst ég svona frekar í fínni kantinum á fundinum í gærmorgunn. Í nýju rósóttu sokkabuxunum, vínrauðum kjól, spari-sparipeysu (Hildur designe) og með bleika hálsfesti. Og náttla með bleikan varalit og bros á vör. Eftir fundinn fór ég svo í gömlu góðu 66gr norður úlpuna og útivistarbuxurnar yfir herlegheitin, og setti á mig doppóttu hanskana og hjálminn sem mér tókst loks að venja mig á fyrir nokkrum árum - og meira að segja eiginmaðurinn viðurkennir að fari mér hræðilega illa (þótt hann sé rauður). Svo ef þið sjáið mig hjólandi úti í bæ, þá segir lúkkið ekkert um hugsanlegt fínerí sem fyrir innan leynist.

Sem ég hjóla fram hjá Spron-kaffihúsinu á Skólavörðustíg, heyri ég skyndilega eitthvert nett hljóð sem fær mig til að snarstoppa, stíga af hjólinu og líta afturfyrir mig. Liggur þar ekki bleika hálsfestin u.þ.b. 30 sentimetra frá afturdekkinu. Sjúkket og Guði sé lof og eins gott - og allur sá pakki þaut í gegn um hugann þar sem ég beygði mig eftir festinni. Það er nú ekki mér líkt að taka eftir svona nettum hljóðum og láta þau hafa áhrif á mig.

Eftir hádegismat á Gló hjólaði ég niður í Eymundsson Austurstræti, með stuttri viðkomu í apóteki við Laugaveginn. Þegar ég kem út úr Eymundsson er komið leiðindaveður, svo ég renni úlpunni upp í háls og smelli báðum smellunum við hálsinn, en passa mig þó á að fara hvorki illa með festina né hálsinn þegar ég þrýsti smellunum að hálsinum. Festina!?!?! - Ertu ekki að grínast í mér? - Ég finn ekki fyrir neinni festi.

Með hamagangi og látum smelli ég frá og renni niður og þreifa á hálsinum. - Engin festi. Ég þreifa inn undir úlpuna eftir allri peysuni að aftan og framan, fer síðan inn undir peysuna og þreifa mig í bak og fyrir. Tek þá eftir því að Austurstrætisdætur og synir eru farin að stara á mig - og velta því greinilega fyrir sér með hvaða ósköpum þetta brjálæðislega káf og þukl muni eiginlega enda.

Svo ég fer inn í Eymundsson og fínkembi gólf á öllum hæðum og spyr slatta af starfsfólki. - Engin festi.

Renni aftur upp í háls og fínkembi Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að númer 20. Fór inn í apótekið og Gló þar sem ég leitaði dauðaleit á gólfum, borðum og salerni og spurði starfsfólk. - Engin festi.

Hjólaði upp í kirkju með grátstafinn í kverkunum. Var ég ekki búin að tapa nógu mörgum ægifögrum og sérdýrmætum hálsfestum með nákvæmlega þessum hætti? Þær bara runnu niður af mér án þess að ég tæki eftir því fyrr en allt of seint.

Þegar ég kom í kirkjuna (til að undirbúa veisluhöld við vígsluhátíð Bösendorferins) velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki í góðu lagi að hafa úlpuna í fatahenginu þó það væru seðlar í innanávasanum (það vantar alveg í mig þjófhræðslugenið). Og sem ég hugsa þessa hugsun, þá verður mér það á af einhverri rælni að klappa á innanávasann. - What!?! - Þessi lögun samrýmdist ekki alveg peningaseðlum einum saman. Opnaði innanávasann og við mér blasti bleika hálsfestin. 

Nei ég held ekki að hún hafi runnið af mér og ofan í vasann. Er frekar á því að ég hafi sett hana þarna og rennt kirfilega fyrir, svo hún rynni ekki aftur af mér í þessari sömu ferð. Gleymdi bara að festa það í minninu. 

Er með hana á mér núna - alsæl. Finn því miður ekki myndavélina svo ég get ekki tekið mynd og látið fylgja eins og ég hafði hugsað mér. Biðst afsökunar.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Þú mátt nú alls ekki tapa þessari festi, hún er svo falleg :)

Margrét Birna Auðunsdóttir, 10.3.2014 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband