3.5.2014 | 16:42
Frjálst land?
Fórum í fermingarveislu á sunnudaginn sem haldin var í sal Hjálpræðishersins á Ásbrú (Reykjanesbæ). Það er mjög auðvelt að rata á þennan stað, - en í þetta sinn var ég upptekin við að hlusta á frásögn heimasætunnar úr aftursætinu - og keyrði því fram hjá afleggjaranum. Um leið og ég átta mig á því, sé ég afleggjara með skiltinu: Ásbrú 2 og tek hann auðvitað. Er í eðli mínu ratvís og taldi víst að ég myndi fljótlega rata á réttan stað.
Við byrjum á að keyra fram hjá mannvirki sem var (að ég taldi) hlið inn á herstöðina á meðan hún var og hét. Ég keyri svo sem leið liggur (samferðafólkinu fannst ég keyra dáldið hratt yfir háar hraðahindranir) og svipast um eftir beygju í áttina að veislusalnum, en alls staðar voru lokuð hlið í stað eðlilegra hliðargatna. Eftir hátt í 2ja km akstur, snéri ég við - tautandi yfir þessu furðulega gatnakerfi þarna á Ásbrú. - Ákvað að fara bara aftur út á þjóðveginn og þessa einföldu leið sem ég kunni.
Þegar ég kem að "fyrrum herstöðvarhliðinu" stendur þar ungur maður með ljótan svip. Hann gerði ekki ákveðna tilraun til að stöðva mig, það var frekar eins og svipurinn á honum gæfi skýrt til kynna að hann teldi víst að ég myndi stöðva á þeim forsendum að ég vissi upp á mig einhverja sök. Sem ég gerði svo sannarlega ekki. En ég stoppaði samt og skrúfaði niður rúðuna (svipurinn á manninum gerði klárlega ráð fyrir því).
"Hvert ert þú að fara" spurði hann.
"Við erum að fara í fermingarveislu" gall í 5 ára drengnum aftur í.
"Þetta er harðbannað að fara inn á þetta svæði" sagði "vörðurinn" þá.
Ég: Nú?, hvernig í ósköpunun átti ég að vita það?
Hann: Sástu ekki hliðið?
Ég: Jú, er þetta ekki síðan á dögum hersins? Herinn er löngu farinn.
Hann: Þetta er öruggissvæði Nató, - stranglega bannað að fara inn á það.
Ég: Hvernig átti ég að vita það? Það var ekkert sem stoppaði mig.
Hann: Það er búið að kalla á lögregluna, hún er á leiðinni að elta þig.
Ég: Ert´ekkað grínast?
Hann steinþagði og horfði bara á mig eins og ég væri allt í senn; útsmoginn glæpamaður, óþægur krakki og heimskingi.
Ég: Ég gat ekki vitað að ég væri að gera neitt sem ég mátti ekki. Ég hélt að þetta væri frjálst land.
Áfram þögn og ljótur svipur.
Ég: Er ekki best að ég fari bara aftur út á þjóðveginn og leiðina sem ég rata að Hjálpræðishernum.
Hann steinþagði áfram og starði.
Ég: Hliðið fyrir framan mig er lokað. - Ætlarðu ekki að opna það?
Áfram þögn og stara.
Ég: það er bíll þarna hinu meginn við skúrinn svo ég get ekki farið á hina akgreinina (bíllinn sá innihélt greinilega öryggisvörð sem hafði verið kallaður út).
Áfram þögn og stara. Svo hristi hann hausinn, snéri sér við og opnaði hliðið. Um leið og ég kom út um það mætti ég löggubílnum sem búinn var að slökkva á bláu ljósunum, - þ.e. hættur við að elta "glæpamanninn" mig.
Í fermingarveislunni var mér bennt á að ástæðan fyrir svipnum á verðinum hafi ekkert haft með hugmyndir hans um greindarfar mitt og glæpamennsku að gera, - heldur hafi hann greinilega verið í sjokki yfir því að hafa sofnað á verðinum. - Það hefði örugglega verið hægt að reka hann fyrir að ég skildi komast þarna í gegn.
Legg ekki meira á ykkur að sinni.
Lifið heil.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.