1.3.2015 | 13:30
Heilsubót í heitu landi
Þegar gigtin versnaði aftur í vetur sagði læknirinn að það besta sem ég gæti gert væri að vera hálfan til heilan mánuð í heitu landi á meðan kaldast væri á Íslandi. Jessss hugsaði ég, - nú er loksins komið að því. - Ég er nefnilega búin að vera á leiðinni til Kúbu í ca 30 ár. Eiginmaðurinn hafði fram að þessu ekki verið sérlega áhugasamur um að ferðast með mér til "kommúnistalandsins", en þegar þarna var komið sögu skellti hann sér í tölvuna og fann fyrir okkur vikuferð til Kúbu. - En ég þóttist vita að ein vika væri ekkert að gera fyrir gigtina mína og reyndi að framlengja, en það dæmi gekk ekki upp nema fyrir ca hálfa milljón bara fyrir mig eina.
Svo við ákváðum að vera tímanlega í þessu Kúbudæmi fyrir næsta fyrir næsta vetur og fara þess í stað til Kanarí núna, - ég í hálfan mánuð og eiginmaðurinn með mér seinni vikuna. Við bókuðum með miklum hamagangi og látum - á eigin vegum - bæði ferð og gistingu (þ.e. án ferðaskrifstofu) og allt í einu var þetta bara frágengið, án þess að ég svo mikið sem pældi í því hvar á eyjunni ég mundi halda til. Enginn tími til að setja sig inn í staðhætti fyrr en eftir á.
Þegar ég svo sagði frá því að ég væri að fara, spurðu viðmælendur mínir allar að því sama: Verðurðu á ensku ströndinni eða hinni ströndinni? Ég verð í Las Palmas svaraði ég. Nú - verðurðu í borginni - sögðu allir, mjög hissa. Er það eitthvað verra spurði ég á móti. Nei það bara eru allir íslendingarnir á ströndinni, - auk þess sem það er yfirleitt aðeins sólríkara þar suðurfrá. Jesss - sögðum við hjónin hvort við annað, - borgin er klárlega meira fyrir okkur. Við erum ekki þessar típur sem liggja í sólbaði allan daginn - æða í mollin þegar dregur fyrir sólu - og hanga svo á "klörubörunum" öll kvöld, syngjandi Anna í Hlíð og Ó Jósep Jósep.
- Nei - ég sá mig frekar fyrir mér í eins og konu í skáldsögu eða bíómynd, - aleina í ókunnri borg, hjólandi á milli kaffihúsa hvar ég sökkti mér í spennandi bók á milli þess sem ég skoðaði mannlífið - innan um svo gott sem eintóma innfædda. Og þetta gekk algjörlega eftir. Mikið sem ég naut þess. Um leið og ég andaði að mér heita loftinu sem umlék mig og læknaði gigtina mína. Það var alltaf skýjað, en það skipti mig engu, ég fæ allt mitt sólskin í Vesturbæjarlauginni minni.
Á fjórða degi gerði ég mér grein fyrir því að ég ætti efni í 2 hnausþykkar bækur. Aðra með nafninu; Leigubílstjórar á Kanarí og svo Leitin að hjólinu dýra. Innan tíðar geri ég heiðarlega tilraun til að þjappa efninu í eina bloggfærslu, vonandi ekki allt of langa (set inn myndir í millitíðinni).
Bíðið spennt.
Athugasemdir
Tvær bækur sem verða að bloggi hahaha elsku Laufey þú ert einstök.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2015 kl. 18:18
Búin að þjappa í blogg :)
Laufey B Waage, 2.3.2015 kl. 22:42
Góð <3
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.3.2015 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.