2.3.2015 | 11:40
Sagan af hjólinu dýra (ásamt leigubílstjórum á Kanarí)
Það eina sem ég var ákveðin í að gera á Kanarí (og er löngu ákveðin í að gera hvenær og í hvaða landi sem ég kem) var að leigja mér hjól. Fyrir ferðina sendi dóttir mín mér linkinn: Biking in Gran Canaria. Þegar ég smellti á hann opnaðist strax auglýsing frá hjólaleigu, sem var meira að segja með alveg eins hjól og ég á. Og þeir sögðust koma með hjólið á gististaðinn og sækja það aftur þegar maður vildi. Ég var ekki sein á mér að leggja inn pöntun.
Þær dætur mínar höfðu líka hamast við að draga mig upp úr sauðskinnsskónum áður en ég fór út. Önnur hafði m.a. sett facebook í nýja æfóninn minn (og kynnt mig fyrir ýmsum möguleikum þar) og hin setti gps-kort í þann sama fón. Hvort tveggja notaði ég óspart, ásamt því að fikra mig áfram sem aldrei fyrr, svo ég upplifði mig sem algjört tæknitröll þarna úti.
Dagur 1:
Í flugvélinni var mér sagt að leigubílar á Kanarí kostuðu skíð-og-ingenting, svo ég leyfði mér þann munað að hoppa inn í einn slíkan við flugvöllinn. Dú jú spík english spurði ég og hann sagði sí madam. Þá sýndi ég honum heimilisfangið mitt bæði á handskrifuðu blaði og á útprentun (með addresu) frá gististaðnum. Sí madam sagði hann og æddi af stað um leið og ég spurði há mení júros (held ég hafi hvorki náð að loka dyrunum né óla mig áður). Sí madam Las Palmas sagði hann og gaf í með báðar framrúður galopnar og báða addresu-pappírana mína í annari hendi.
Eftir fyrstu tilraun til að jafna mig opnaði ég gps-kortið í símanum, og fór að fylgjast hvort hann væri nokkuð að fara með mig einhverja vitleysu.
Þegar inn í borgina var komið fór hann að spyrja (á spænsku, hann talaði ekki stakt orð í ensku) og brosandi sýndi ég honum þessa einföldu leið á frábæra gps-appinu. Hann hrökk í kút eins og ég væri að sýna honum geislavirka galdragræju frá öðrum hnetti. Og hann skildi með engu móti; jor kar blú, mæ hótel red. Svo ég tók að leiðbeina honum á táknmáli (ég tala ekki stakt orð í spænsku). Held að höndin á mér hafi lengst um nokkra sentimetra í ákafa mínum við að benda honum að keyra beint áfram. Og svo barði ég eins og brjálæðingur í vinstri eða hægri rúðuna þegar hann átti að beygja. En hann brosti bara með sitt sí madam og gerði svo bara einhverja bölvaða vitleysu. Fór til dæmis einhvern aukakrók í eitthvert aukahverfi (ég skil ekkert í að höndin á mér skildi ekki rekast harkalega í framrúðuna við að skipa honum beint áfram í það skiptið) og fann þar annan leigubílstjóra, skrúfaði niður rúðuna og bar sig upp við hann. Þú þarft ekkert að tala við hann, taktu bara mark á mér þegar ég navageitora þig, sagði ég bæði á ensku og íslensku. Mér leið eins og ég væri að leika í bíómynd eftir Almodovar. Brjáluðu spænsku konurnar í þeim myndum blikna og blána í samanburði við mig í þessari mynd. Ég reyndi að þrátta við hann loks þegar á leiðarenda var komið, þegar hann rukkaði mig um 6 sinnum hærra gjald en íslendingarnir í flugvélinni höfðu talað um.
Ég hélt að ég hefði verið óvenju óheppin með bílstjóra. - Þessi staður þrífst á ferðamannaiðnaði hugsaði ég með mér, leigubílastjórar og menn í álíka þjónustustörfum hljóta að tala einhverja ensku og hafa meiri þjónustulund hugsaði ég með mér. - Annað átti nú eftir að koma í ljós.
Þegar ég kem á gististaðinn kannaðist íbúðareigandinn Carlos ekkert við þá á hjólaleigunni, - þó hafði ég gefið þeim upp símanúmerið hans. Hann tók mynd af útprentuðum pappírum mínum frá hjólaleigunni (annar af tveimur mönnum þarna sem kominn var upp úr sauðskinnsskónum) og sagðist mundi hafa samband við þá, - líklega næ ég ekki í þá fyrr en í fyrramálið sagði hann, því orðið var áliðið dags.
Dagur 2:
Nálægt hádegi var Carlos búinn að ná í þá á leigunni en þeir könnuðust ekkert við mína pöntum og sögðust ekki vera með neina heimsendingarþjónustu. Viltu senda mér sms með addresunni þeirra og ég fer til þeirra, sagði ég. Þú getur gúgglað xxx stóð í sms-inu sem hann sendi mér. Ég gúgglaði, en á heimasíðunni, sem var bara á spænsku fann ég öngva addresu.
Þá fékk ég þá bráðsnjöllu hugmynd að koma mér út á hjólastíginn meðfram höfninni og freista þess að stoppa einhvern hjólreiðamann og spyrja hann um leigu. Það tókst (hann talaði meira að segja smá ensku). Benti mér á turn (hótel) í 3-5 km fjarlægð og sagði að hjólaleigan væri vinstra megin við hann. Hann vissi hvorki götunafn né númer, sagði að ég skildi spyrja vegfarendur þegar þangað væri komið. Ég fullvissaði mig um að hann væri að meina nyrðri turninn af þessum tveimur, þ.e. þann sem var lengra í burtu - og lagði svo af stað.
Gekk meðfram höfninni þangað til ég var komin á móts við turninn. Ætlaði þá að turninum með því að fara yfir mestu og breiðustu umferðargötu eyjarinnar, en komst þá ekki einu sinni að götunni fyrir endalausum sambyggðum skemmum. Loks þegar ég komst framhjá skemmunum (til baka - í suðurátt) og að götunni, þá þurfti ég að ganga annað eins og rúmlega það (líka í suðurátt) til að komast yfir götuna. Og þá var eftir heilmikil ganga að nyrðri turninum.
Vinstra megin (sunnan) við turninn leitaði ég og leitaði - og spurði og spurði, en svarið var alltaf það sama; engin hjólaleiga hér, bara í Santa Katalina. Og samkvæmt kortinu mínu var S.Katalína vinstra megin (sunnan) við syðri turninn. Ég hef þá greinilega misskilið þennan elskulega hjólastrák, hugsa ég með mér og tek strikið að S.K. sem er stærðar svæði með fullt af kaffihúsum, tónleikasvæði o.fl. Enginn talaði ensku og ég þurfti að látbragðsleika konu á hjóli þó nokkrum sinnum áður en mér var vísað á staðinn sem gæti leigt mér hjól.
Þar var kona sem var sæmileg í ensku og ég fékk að vita að hjólin þeirra væru leigð í hámark 3 klukkustundir (já hún sagði og meinti klukkustundir) í senn. En hún gat vísað mér á stað sem leigði hjól í viku eða meira - og gat meira að segja merkt þann stað inn á kort fyrir mig. En þá var orðið það áliðið dags að hún taldi líklegt að þeir væru um það bil að loka.
Dagur 3:
Ég fór snemma á stúfana, spennt að komast á leiguna. En þar voru eingöngu leigð rafmagnshjól sem ég kærði mig ekkert um. Og þeir vissu ekkert um neina leigu með venjulegum hjólum.
Svo ég rölti yfir á hina ströndina þar sem ég vissi af góðum hádegisverðarstað, settist niður til að fá mér að borða (eins og strákurinn í sögunni um Búkollu) og sendi sos-sms á dætur mínar (tæknitröllið ég var nú ekki lengi að rigga upp einum 3ja manna spjallhópi) og sagði þeim farir mínar ekki sléttar: Getiði plííís fundið fyrir mig ADDRESU á hjólaleigu sem leigir mér almennilegt hjól í 11 daga. Þær sendu mér nokkrar hugmyndir. Þær sem virtust nothæfar voru: Önnur fann símanúmerið á leigunni sem Carlos hafði sagt mér að gúggla. Ég hringdi þangað, en þeir töluðu bara spænsku. Ég tönnlaðist á orðinu addresa og tókst að draga hana upp úr þeim. Prófaði allar mögulegar útgáfur á stafsetningu á kortinu í símanum, án árangurs. Hin dóttirin fann eina addresu; Callejón del Molino múmeró 3 (mér skilst að Callejón þýði lítil gata, allar göturnar þarna heita Calle-eitthvað).
Þarna var sólin farin að skína og klukkan farin að tifa, svo ég þorði ekki annað en hoppa upp í næsta leigubíl, heim að bera á mig vörn 30, því Callejón del Molinu var í stóru hverfi (Triste) syðst á höfuðborgarsvæðinu (mitt hverfi var nokkurn vegin nyrst). Upp í næsta leigubíl og af stað til Triste. Ég hafði sýnt bílstjóranum addresuna á miða og bent honum nákvæmlega á staðinn á korti, en þegar við nálgumst Triste, segir hann bara; Triste grande (stórt) og vissi ekkert hvert hann átti að fara. Ég sýndi honum kortið og benti á götuna, en hann lét eins og hann hefði aldrei séð svona fyrirbæri áður (venjulegt götukort á pappír) og hélt langa ræðu á spænsku. Þá loksins þorði ég að sýna honum gps-ið í símanum, en viðbrögðin voru eins og hjá fyrsta bílstjóranum. - Og ég upphóf sama látbragðsleikinn og áður með bendingum og hrópum, en hann tók ekkert mark á mér, - keyrði einhverja bölvaða vitleysu, - skrúfaði niður rúðuna til að tala bæði við akandi og gangandi - og ég öskraði bæði á ensku og íslensku (hann skildi ekki heldur stakt orð í ensku): Hættu að þykjast vera að fá upplýsingar hjá öðrum, - ÉG ER AÐ SEGJA ÞÉR hvort þú átt að keyra beint eða hvert þú átt að beygja.
Þegar ég sá (á bláa punktinum á appinu, sem var bíllinn hans sem hreyfðist) að við vorum að fjarlægjast áfangastaðinn, en samt í göngufjarlægt, bað ég hann að stoppa (STOP hélt ég að væri alþjóðlenska). Hann keyrir þá upp að nálægu húsi og bendir brosandi á töluna 3; sí madam númeró 3. Ég borga honum með rammfalskt bros á vör og ætla að drífa mig út úr bílnum, en þá tekur hann miðann með addresunni, strikar yfir rétta götunafnið og skrifar í staðin nafnið á götunni sem við vorum stödd í.
Ég læt appið leiða mig gangandi eftir krókóttum bröttum götum í gömlu skemmtilegu hverfi, en þegar ég kem á rétta staðinn lýst mér eiginlega ekkert á blikuna. Númer 3 var bakhús í dimmu og skuggalegu húsasundi og þar stóðu 2 óálitlegir náungar sem litu út fyrir að vera að bíða eftir einhverjum sem ekki var ég. Þeir virtu mig fyrir sér og eftir að hafa "heyrt" þá spá í hvort ég hefði verið send í staðin fyrir viðskiptavin þeirra, eða hvort ég væri óeinkennisklæddur lögregluþjónn, - greip ég á orskotsstundu til þess ráðs að ýkja þá sem ég var; Benti hlæjandi á hús númer þrjú og spurði mennina; þetta er ekki hjólaleiga er það? Þeir stóðu sem steinrunnir. Ég prófaði látbragðsleikinn, var orðin mjög þjálfuð í að leika konu á reiðhjóli. - Engin viðbrögð. Nei augljóslega ekki, sagði ég þá brosandi og reyndi að ganga afslappað og eðlilega út úr húsasundinu.
Þá datt mér í hug að þetta götunafn fyrirfyndist á fleiri en einum stað á höfuðborgarsvæðinu, svipað og sömu nöfn finnast í bæði Hafnarfirði og Kópavogi. Fór á facebooksíðu sem önnur dóttirin hafði sent mér link á - og þeir höfðu þá verið svo elskulegir að setja götukort af rétta staðnum. Hugboð mitt reyndist rétt, - rétti staðurinn var í "Kópavogi" en ekki "Hafnarfirði" (Triste). En þarna var klukkan orðin rúmlega 5, svo ég tók ekki sjensinn á að koma að lokuðum dyrum í "Kópavogi", heldur rölti um staðinn eins og það væri partur af ferðaáætluninni, fann huggulegt kaffihús og settist þar niður og naut lífsins.
Dagur 4:
Tók leigubíl að Callejón del Molino í "Kópavogi". Sá bílstjóri var alveg í stíl við hina þrjá. T.d. eigum við bara örstutt eftir þegar hann stoppar, skrúfar niður rúðu og fer að spjalla við fólk á förnum vegi. Þetta er hérna, bara upp þessa stuttu brekku og svo annað hús til vinstri - segi ég. Þegar hann tekur ekki mark á mér, losa ég beltið og ætla að æða út úr bílnum, en þá tekur hann auðvitað á rás upp brekkuna og beygir - alveg hissa þegar hann sér götuskiltið með rétta nafninu.
Þarna var ég komin í einhvern ægilegan útnára - einhvers konar verksmiðjuhúsnæði virtist mér og númer 3 (annað húsið af tveimur við "götuna") leit alls ekki út fyrir að vera hjólaleiga.
Út úr húsinu kemur maður aðeins eldri en ég - og hann virtist kunna smá ensku. Sí, - jú þetta er hjólaleiga, komdu með mér inn. Ég rétt svo þorði með honum (einu manneskjunni í 300 metra radíus) inn, þar sem hann sest við skrifborð og TÖLVU (þá varð ég undrandi) og biður um vegabréfið mitt. Ég vildi nú fá að sjá hjólin fyrst, en þarna voru greinilega engin hjól. Honum tókst að koma mér í skilning um að hann þyrfti að skrá niður upplýsingar úr vegabréfinu mínu og skrá mig í einhvern hjólaklúbb og borga honum, svo færi ég á einhvern af þessum stöðum sem hann sýndi mér í tölvunni sinni (og voru í "norðurbænum mínum"), þar fengi ég lítið borgarhjól sem ég gæti notað í hámark 3 klukkustundir án endurgjalds.
- Ónei ónei, það er ekki það sem ég er að biðja um. En þá gerðust undur og stórmerki; maðurinn skildi hvað ég vildi, fann addresuna á RÉTTU hjólaleigunni og - haldið ykkur fast - prentaði hana út úr tölvuprentara handa mér. Æ þetta er svo lítið sagði hann (addresu-auglýsingin með bút af götukorti var bara á ca 1/6 af A4-blaði). Ekkert mál, sagði ég - þetta er frábært, nákvæmlega það sem ég þarf, þú ert búin að bjarga lífi mínu.
Og úr því að hann var byrjaður að bjarga lífi mínu, þá bað ég hann að segja mér hvar ég fyndi strætó sem færi í norðurbæinn. - Og ef hann vildi líka bjarga deginum mínum, þá gæti hann leyft mér að nota salerni.
Ég fann strætó (auðveldlega með mitt korta-app) átti auðvelt með að fara úr á réttum stað eftir appinu og FANN HJÓLALEIGUNA. Hún var þá í næsta húsi fyrir norðan (til hægri en ekki vinstri) nyrðri turninn sem hjólastrákurinn hafði bent mér á þarna fyrsta morguninn.
Yndislegi kallinn á leigunni var ca 10 árum eldri en ég, talaði sæmilega ensku og sagði mér að hjóli eins og ég vildi helst yrði skilað kl 6 (klukkan var rúmlega 2). Ég kem þá sagði ég, - viltu halda því fyrir mig, - ég er ALVEG ÁKVEÐIN í að taka það. Snéri aftur inn á leiguna og spurði hvort hann vildi ekki fá nafnið mitt eða eitthvað, - hvort hann myndi örugglega eftir mér? Ég man eftir þér, sagði hann og brosti.
Ég gekk nokkrar húslengdir yfir á yndislegu (vestur)ströndina og fékk mér þar hádegismat í rólegheitum. Kl 4.30 þorði ég ekki annað en kíkja á leiguna, bara svona til að hann væri með það á hreinu að mér væri alvara. Og þá var hjólið mitt komið.
Ég held að ég hafi flogið frekar en hjólað út af leigunni og suður með allri austurströndinni. Lét klukkuna segja mér hvenær ég ætti að snúa við, til að ná heim fyrir myrkur.
Dagur 5 var sögulegur og dvölin í heita landinu unaðsleg í alla staði, en ég legg ekki meira á ykkur að sinni. Enda lauk hér leitinn að hjólinu dýra. Leigan á hjólinu var mjög lág, þjónustan og hjólið frábært. Þetta hugtak "dýra" er auðvitað bara tilvitnun í Laxnes, auk þess sem leitin sjálf kostaði "blóð, svita og tár" og hellings peningur (datt ekki í hug að telja það saman) fór í leigubílana.
En ef þið ætlið að leigja ykkur hjól í Las Palmas, hafið þá samband við mig - Ég hef allar upplýsingar sem þið þurfið.
Lifið heil.
Athugasemdir
Laufey mín regla númer eitt við leigubílstjóra í útlöndum er að semja fyrirfram um greiðslu. Þá gerist það svo skrýtið sem það er að þeir bæði rata og fara stystu leið. En takk fyrir söguna þína og gott að þú fékkst hjól til afnota.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.3.2015 kl. 18:57
Stend stíf á því næst - áður en ég sest upp í bílinn.
Laufey B Waage, 2.3.2015 kl. 22:43
Já áður en þú ferð af stað. Kvað kostar ferðin? Ekki spurning.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.3.2015 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.