14.5.2015 | 12:20
Bæði betra?
Ég held að ég sé þekkt fyrir mjög ákveðnar skoðanir og oft á tíðum alhæfingar. Samt er ég mjög oft illa haldin af valkvíða, sem getur náð út yfir skoðanir, þannig að stundum finnst mér einfaldlega "bæði betra" eins og hann sagði forðum - strákurinn í Cheerios-auglýsingunni. Og ég tel það vera heilbrigðismerki. Í sumum tilfellum er heimskulegt að vera einstrengislegur og þrjóskur, því um margar skoðanir má segja það sama og um fólk; allir hafa bæði kosti og galla. Skoðanir, breytingar og leiðir (aðferðir) hafa oftast bæði kosti og galla - og stundum er einfaldlega "bæði betra". Og þar sem ekki alltaf er hægt að "gera bæði", finnst manni stundum dáldið súrt að geta ekki bæði átt kökuna og étið hana.
Hérn um árið, þegar við höfuðborgarbúar kusum um það hvort við vildum láta flugvöllinn vera áfram í Vatnsmýrinni eða fjarlægja hann, þá lenti ég í valkvíða. Sem betur fer endaði ég á að krossa við að hann yrði áfram þar sem hann er og sé ekki eftir þeirri ákvörðun (meira um það síðar ef þið endilega viljið). En það breytir ekki því að ég get/gat að mörgu leyti tekið undir sjónarmið þeirra sem vildu hann í burtu.
Um það leyti sem ég gekk í hjónaband í þriðja sinn heyrði ég af dönsku pari sem ætlaði að gifta sig hjá gömlum dönskum presti, sem sagði þeim ósköp vinalega og blíðlega að það væri á móti hans sannfæringu að gifta fólk sem hefði verið gift áður, en hann gæti bent þeim á nokkra góða presta sem væru annarar sannfæringar. Þetta var á þeim tíma sem baráttan fyrir hjónaböndum samkynhneigðra stóð sem hæst á Íslandi (þ.e. rétt áður en ég sagði mig úr þjóðkirkjunni, m.a. vegna vonbrigða minna á hægagangi þeirra mála). Þá hafði ég lengi hugsað með mér: Það að banna samkynhneigðum að ganga í heilagt hjónaband er alveg jafn rangt og að banna fólki að skilja og gifta sig aftur. - Það stendur beinlínis á sömu blaðsíðunni í 3.Mósebók (sem er n.b. ekki mitt persónulega trúarrit). En mér fannst þetta ágætis lausn: þ.e. að sjálfsögðu ætti að leyfa samkynhneigðum að giftast eins og okkur hinum, - en ef það væri á móti sannfæringu einstaka presta, þá gætu þeir brugðist við eins og danski presturinn gerði gagnvart "hórdómnum". Og að vissu leyti finnst mér það ennþá. Og þá fyrst og fremst gagnvart brúðhjónunum sjálfum. Ekki mundi ég vilja gifta mig hjá presti sem væri í hjarta sínu mótfallinn mínu hjónabandi. Því var það þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins í dag, að ég hugsði; jæja, erum við Hildur Eir nú loksins orðnar ósammála?
EN: - Svo kom nánari umhugsun: Af hverju ættu prestar að neita einhverjum um þjónustu sína. Ef ég væri prestur, þá gæti komið upp sú staða að ég þyrfti að gifta mann sem ég væri sannfærð um að kæmi til með að berja konuna sína í spað, eða halda endalaust framhjá henni. Gæti ég neitað að gifta það par? Að maður tali nú ekki um öll fermingarbörnin sem ég þættist viss um að mér hefði mistekist að kristna og að þau væru bara að fermast vegna gjafanna. Hvað með barnaníðinginn og hina glæpamennina - gæti ég neitað að jarða þá? Af hverju í ósköpunum ætti einhver frekar að neita saklausu samkynhneigðu pari um eðlilega þjónustu?
Og hvað með okkur hin, sem vinnum við að þjónusta fólk? Eru ekki vandræðagripir í flestum grunnskólabekkjum? Eiga grunnskólakennarar að fá fullan rétt til að neita að sinna þeim börnum sem t.d. sinna ekki náminu og/eða komast upp með eina alsherjar "fokkjú"hegðun gagnvart kennaranum? Hvað með heilbrigðisstarfsfólk: Á starfsfólk á bráðadeild að fá að neita að sinna slösuðum sjúklingi, ef viðkomandi er glæpamaður eða önnur andstyggileg manneskja að hans mati? Eiga ljósmæður að fá að neita að taka á móti barni, ef þær halda að viðkomandi foreldrar séu óhæfir til að annast barnið? O.s.frv.
Nei, - ég held að mér finnist ekki bæði betra. - Á sama hátt og ég er sannfærð um að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni, - er ég sannfærð um að það er virkilega ljótt mannréttindabrot að ákveðnir prestar geti neitað samkynhneigðum um sína þjónustu.
Hins vegar eigum við sem þjónum fólki (kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, prestar og fleiri) aldrei að láta það óáreitt ef við höfum minnsta grun um illa meðferð á börnum eða aðra glæpamennsku. - Það er bara allt annar handleggur.
Lifið heil.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.