6.10.2015 | 16:51
Óhljóð
Ég er alveg óhemju viðkvæm fyrir ýmsum hljóðum. Sem ég held að sé t.d. skýringin á þvi af hverju ég stilli vekjaraklukku eins sjaldan og ég kemst upp með og vakna þá næstum alltaf rétt áður en hún hringir. Hljóðið í vekjaraklukkunni er þó eins og ljúfasta vögguvísa miðað við hljóðið sem toppar allt í að taka mig á taugum; þ.e. hljóðið í REYKSKYNJARANUM. Til að forðast misskilning, þá hef ég ekki lent í eldsvoða, - og ég er óhemju þakklát fyrir tilvist reykskynjara og finnst nauðsynlegt að til séu nokkrir virkir á öllum heimilum, þ.m.t. mínu.
Fyrir tæpum mánuði lennti ég í þeim ósköpum að þetta þarfaþing fór af stað. Var bara að rista hafra á pönnu, - skrapp inn í stofu, - gleymdi mér þar augnablik og skynjarinn byrjar að æpa um leið og ég kem aftur inn í eldhús. Í panikkasti slekk ég á eldavélinni, hleyp með pönnuna út á svalir, opna alla glugga og rikki tröppunni með látum út úr geymslunni. Fyrir ykkur sem ekki hafið komið heim til mín, þá er lofthæðin á fjórða metra. Eiginmaðurinn yfirvegaði var víðs fjarri, svo ég þurfti að gera það sem ég hafði aldrei gert áður, - stökkva sjálf upp í tröppuna að öskurapanum ógurlega. Með þessi ægilegu öskur svo gott sem í eyrunum versnaði panikkastið, svo ég gaf mér ekki þann fjölda sekúnta sem þurfti til að finna út úr því hvernig ætti að stöðva óhljóðin, - heldur var ég snögg að álykta að næst á dagskrá væri að láta aðra íbúa hússins vita að enginn væri eldsvoðinn. Bankaði harkalega á dyrnar fyrir ofan, en beið ekki eftir svari, heldur hljóp niður og réðst aftur til atlögu við öskrandi öryggistækið. Eini takkinn sem ég fann á "skrímslinu" virkaði ekki (enda þóttist ég vita að hann væri bara til að "tékka"). Stökk niður úr stiganum þegar konan á efri hæðinni birtist - og bað hana að taka við. Hún var snögg að skrúfa skynjarann niður úr loftinu, fleygja honum í mig og segja mér að taka rafhlöðurnar úr honum. Svo einfalt atriði fattar maður ekki í panikkasti nema maður sé undirbúinn.
Í gærkvöldi er ég í mestu makindum að bíða eftir að fiskurinn í ofninum verði tilbúinn, þegar eiginmaðurinn vekur athygli mína á hitalyktinni sem kom út úr ofninum. Ég hafði sumsé gleymt að taka ofnskúffuna út þegar ég setti fiskinn í ofninn. Makindin mestu ruku út í veður og vind og á mig rýkur nett æði. Ég ætlaði sko ekki að láta reykskynjarann fara aftur af stað. Þreif skúffuna út úr ofninum (jú ég gaf mér tíma til að setja á mig ofnhanska) og hljóp með hana út á svalir. Hafði að sjálfsögðu gleymt því að í hádeginu hafði ég steikt mér buff - og skellt opinni pönnunni rétt út fyrir svalardyrnar í "smá stund" til að kæla afgangsbuffin. Smáa stundin var nú orðin að klukkustundum og á panikhlaupum mínum með ofnskúffuna steig ég auðvitað ofan í olíuborna pönnuna, renn einhvern vegin snögglega til með þeim afleiðingum að ofboðslegur kippur kom í lærið ofanvert.
Til að gera langa sögu stutta, þá er þetta að öllum líkindum slæm tognun í þessum stóra vöðva. Ég hringdi bæði í bráðamóttökuna, læknavaktina og heilbrigðisstarfsmann fjölskyldunnar til að fá ráðleggingar. Svo nú ligg ég "útúrdópuð" en fæ samt við minnstu hreyfingar - sem ég á erfitt með að finna út hverjar eru (aðrar hreyfingar eru í lagi) - svo slæma stingi að ég æpi upp yfir mig. Þau óp eru þó töluvert skárri en óhljóðin í reykskynjaranum sem fór EKKI af stað í þetta sinn. Mér tókst að forða mér frá því. Fórnarkostnaðurinn er samt dáldið óþægilegur, en fer þó hratt skánandi.
Lifið heil
Athugasemdir
Elsku barnið mitt hvernig í ósköpunum ferðu að þessu öllu, (í einu). Viltu fara vel með þig.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 6.10.2015 kl. 17:35
Ég veit að það er ljótt að hlæja að óförum annarra en geri það samt, farðu vel með þig og vertu til friðs
Margrét Birna Auðunsdóttir, 7.10.2015 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.