25.11.2016 | 22:44
Sojalatte eða hvað?
Það vill svo heppilega til að eftir að Grýlu-kanil-kaffið kom aftur á markað fyrir 2-3 vikum, hef ég verið með besta móti í vélindanu, svo ég hef auðveldlega getað leyft mér 3 bolla á dag án þess að kenna mér meins. Bara nautn og unaður. Í morgunn - í svartasta skammdeginu - þurfti ég að mæta fyrr en vanalega í vinnuna og undir slíkum kringumstæðum er fyrsti kaffibollinn ennþá mikilvægari og betri en vanalega. - Og meðvituð um það gekk ég til náða í gærkvöldi full tilhlökkunar að rífa mig á fætur fyrir allar aldir og smjatta á unaðslegum sojalatte í kjölfar morgunbústsins. En - hvað var nú þetta?!?! - sojalatteinn bragðaðist ömurlega, - ekki viðlit að koma niður einum einasta sopa. Ég helti ógeðinu í vaskinn og lagaði nýjan bolla og vandaði mig sérstaklega við að stappa kaffið hæfilega í expressokönnuna og hafa hitann á hellunni þannig að þrýstingurinn yrði sem heppilegastur. Hitaði sojamjólkina eins og vanalega og blandaði öllu í brottnámsbrúsann minn því ég nú þurfti ég að rjúka á stað í vinnuna. Á fyrsta rauða ljósi setti ég upp unaðs-nautna-svipinn um leið og ég tók fyrsta sopann úr brottnámsbrúsanum. En hann var alveg jafn viðbjóðslegur og fyrsti sopinn úr fyrri lögun morgunsins. Hvað var í gangi? Hef sjaldan upplifað önnur eins vonbrigði. Í vinnunni skellti ég í mig nokkrum earl-gray-bollum. Þegar heim kom skoðaði ég sojamjólkurfernuna í ísskápnum vel og vandlega til að athuga hvort hún væri komin fram yfir síðasta söludag. En - hvað var nú þetta? Coconut-almond-kokos-mandel-hvað-ha? Og það með fjólubláum stöfum. Það átti bara að standa Soya - og það með ljósbláum stöfum. Ég ætlaði mér aldrei að laga mér neitt kókos-möndlu-kaffi. Þessa fernu hlýtur eiginmaðurinn að hafa keypt og sett í ísskápinn án þess að láta mig vita. Það er ekki fræðilegur möguleiki á að ykkar einlæg sé nægilega athyglisbrostin til að hafa keypt þessa fernu. Ég sem bý til mína eigin möndlumjólk í morgunbústið, en vil ekkert annað en Provamel sojamjólk með bláum stöfum í kaffið. Þurfti að drífa mig á kóræfingu og tónleika strax eftir vinnu - og nú er komið kvöld, svo ég verð að láta mig hafa það að ganga til náða eftir kaffilausan dag. En auðvitað keypti ég Provamel sojamjólk á leiðinni heim af tónleikunum og hlakka óheyrilega til að rífa mig á fætur í fyrramálið og laga mér TVO bolla af sojalatte strax og smjatta á þeim. Best að drífa sig í háttinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.