Naflastrengurinn.

Ásbjörg og GyðaÉg er í hörkuvinnu með sjálfa mig þessa dagana. Sem gengur aðallega út á að slaka á naflastrengnum á milli mín og dóttur minnar - vera áhyggjulaus og láta mér líka vel með það. Ég er svo heppin að eiga heilbrigðustu og yndislegustu unglingsstúlku í heimi. Ég hef allar ástæður til að treysta henni algjörlega, og vil að sjálfsögðu leyfa henni að njóta lífsins með vinum sínum. Málið er bara það að fólk á þessum aldri vill helst njóta lífsins saman langt fram á nótt um helgar - en þá er mannlífið víða villimannslegt, og umhverfið jafnvel stórhættulegt. Mín sefur því ekki mikið um helgar á meðan stúlkan ætlar "eftir smá" að labba heim - í gegnum miðbæinn nota bene - við búum í 101.

En síðustu daga hef ég verið að minna mig á að hver og einn verði að fá að þroskast þar sem hann er staddur, - t.d. myndu unglingar ekki þroskast eins og þau þurfa ef þau hefðu ekki hugrekki til að ganga í gegnum miðbæinn að nóttu og allt það. Það er bráðnauðsynlegt að æfa sig í að detta ekki í helvítisgjána, eins og Ronja ræningjadóttir.

Ég er með stúlkuna í æfingaakstri um þessar mundir - og hún yrði ekki góður bílstjóri ef hún væri jafn hrædd og ég. Sem betur fer er hún hugrökk og dugleg - og verður örugglega góður bílstjóri.Við fórum út á land nýlega, þar sem ég æfði hana m.a. í að fara út í lausamölina og bregðast rétt við.  Stuttu seinna reyndi á það, bíllinn fór sjálfur út í lausamöl, dansaði smá, en stúlkan tæklaði dæmið af mikilli snilld. Hjartað í mér stoppaði smá stund, tók feilpúst og ég veit ekki hvað. En stúlkan sagði sallaróleg "Þetta var gaman". Einföld setning sem sagði mér mikið. Ásbjörg að keyra

Og nú gekk ég svo langt að leyfa henni að fara einni til útlanda með vinkonu sinni (sú mynd kom fyrst, en hefði auðvitað átt að koma núna, - ég læri bráðum á þetta). Reyndar fóru þær beint í faðminn á Dóru tengdadóttur sem ber ábyrgð þarna úti. En þær fóru einar í flug og einar í lest niðrí miðbæ Stokkholms þar sem Dóra tók á móti þeim. Og belíf itt or nott; þetta var næturflug - og ég svaf bara ótrúlega vel á meðan. Sleeping


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Sem BETUR FER þroskast börnin, fullorðnast og fljúga svo úr hreiðrinu þegar vængirnir eru fullæfðir. Ég horfi á þennan tíma með tilhlökkun. Þá koma (ef Guð lofar) barnabörnin sem hægt er að fá lánuð og síðan bara áhyggjulaust ævikvöld með bóndanum :)

Ylfa Mist Helgadóttir, 30.6.2007 kl. 20:36

2 identicon

Já, ég held að ekkert valdi mér jafn djúpstæðri skelfingu og tilhugsunin um að börnin mín verði unglingar einn daginn. Kannski vegna þess að ég er enn að prísa mig sæla að hafa ekki drepið mig á eigin unglingsskap fyrir ekki svo löngu síðan (það er VÍST stutt síðan!). Svafstu nokkuð yfir höfuð þegar ég var unglingurinn þinn, mamma mín? En það verður víst að leyfa þessum elskum að gera sín eigin mistök. Flugmannamottóið hans pabba míns virkar ekki jafn vel fyrir unglinga og annað fólk (það hljómar þannig: "lærðu af mistökum annarra, það er ekki víst að þú lifir það af að læra af þínum eigin"). Ég er þó alveg sammála því að af unglingum svona generalt þá ber hún litla systir mín af hvað varðar almenna skynsemi og heilbrigði. Gott, gott.

Berglind Hálfdánsdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband