8.7.2007 | 14:09
Sumarbúðir og eigið afmæli.
Erðanú! Mín rétt nýbyrjuð að blogga, þegar hún fer úr bænum, og það norður á hjara veraldar, þar sem hvorki er farsímasamband né nettenging. Og ég þorði ekki að láta lesendur vita af því fyrirfram, - það var búið að hræða mig svo mikið með því að óprúttnir steliþjófar leituðu í bloggheimum að fólki sem tilkynnti fjarveru sína - ryddust heim til þeirra og létu greipar sópa.
Annars finnst mér ekki alveg passa að kalla þennan stað hjara veraldar. Ég sem hef löngum og góðum stundum dvalið í Fljótavík í Sléttuhreppi (í sama hreppi og Hornbjarg og Aðalvík). Þar er hvorki rafmagn né rennandi vatn og þangað ferðast fólk yfirleitt á bátum (lendingaraðstaða erfið - engin bryggja), nema það tengist minni fyrstu tengdafjölskyldu og fari fljúgandi.
En aftur til nútíðar. Sá yndislegi staður sem ég dvaldi á síðustu vikuna heitir Hólavatn. Þar eru sumarbúðir KFUM - og hann er nú ekki meiri "hjari" en svo, að maður er rúman hálftíma frá Akureyri - á fólksbíl.
Þarna vorum við hjónin semsagt að vinna síðustu viku. Stjúpsynir mínir og ömmustrákurinn voru með okkur. Vinnan var skemmtileg og dvölin unaðsleg. Þetta er alveg einstaklega ljúfur og notalegur staður.
Veðrið var allan tímann eins og best verður á kosið. Og þá er ég ekki bara að tala um sólskinið og blíðuna, heldur líka þessa unaðslegu hlýju þéttu logn-rigningu, sem kom síðdegis á fimmtudag og fram á kvöld. Þá fyrst fór ég í göngutúr - í uppáhaldsveðrinu mínu.
Fyrsta vinnudaginn átti ég afmæli. Það kom mér virkilega notalega á óvart, að þrátt fyrir nútíma sambandsleysi, fékk ég helling af afmælisóskum. Heilar 7 upphringingar frá ættingjum og vinum, sem höfðu grafið upp símanúmerið í sumarbúðunum og hringdu í - þið vitið - svona stóran svartan síma - með númeri sem byrjar á 4. Flestir sungu afmælissönginn fyrir mig. Svona er ég nú rík. Ég get ekki ímyndað mér meira ríkidæmi en að eiga skemmtilega, heilbrigða og hugulsama ættingja og vini.
Í tilefni dagsins bakaði ég skúffuköku með nammi á handa sumarbúðastrákunum og svo sykur- og hveitilausa gulrótarköku handa mér og öðrum þeim sem vildu. Skreytti hana með 51 beri, - eitt fyrir hvert ár. Algjört gúmmulaði.
Svo fékk ég nokkra pakka. M.a. spennusögubækur, kort með "út að borða"-loforði, og svo þennan líka glæsilega græna kjól, sem sonur minn valdi alveg sjálfur úti í Stokkholmi.
Ég var svo heppin, að kvöldið sem við komum aftur bæinn var vinkona mín með partý, svo það var ekki leiðinlegt að geta mætt í splunkunýjum kjól.
Ykkur finnst það kannski ekki frásagnarvert að kona mæti í partý í splunkunýjum kjól, - en í mínu tilfelli er það samt þannig. Ég er nefnilega ein af þeim sárafáu konum í veröldinn, sem finnst leiðinlegt að versla, og ég geri fátt skelfilegra en að reyna að finna föt á sjálfa mig. Þess vegna er það mér einstakt gleðiefni þegar ég eignast flík, sem ég er ánægð með, hvort sem ég kaupi hana sjálf, eða fæ hana gefins.
Hérna kemur loksins af mér í nýja kjólnum í partýinu (ég reyndi að blaðra og blaðra þangað til ég gat sett aðra mynd inn).
Þetta var hið skemmtilegasta partý - fullt af skemmtilegu fólki og frábær matur. Sara partýhaldari er líka alveg moldrík - á alveg meiri háttar skemmtilega ættingja og vini.
Úps, kominn tími til að skunda út á Leifsstöð að sækja stúlkubarnið sem er að koma frá Stokkholmi.
Nóg að sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.