Brjóstmynd og bryggjuhátíð.

Bush-feðgarÞað er ekki oft sem svona kurteis og siðprúð kona eins og ég ,gengur að bláókunnri manneskju og segir: Afsakaðu - má ég taka mynd af brjóstunum á þér? En það gerði ég í dag. Ástæðan var sú, að við mér blasti ungur maður í bol með þessari mynd af þeim Bush-feðgum, - og með mjög svo viðeigandi skýringartexta undir.

Það var alveg kominn tími til að einhver vekti athygli á þessari staðreynd. Seinna kjörtímabil Runna yngri senn að renna sitt skeið á enda sem betur fer. Ég man að þegar hann náði kjöri, fórnaði ég höndum og spurði í örvæntingu minni: Hvers á alheimur að gjalda? - heimskur republikani orðinn að valdamesta manni í heimi.

Og þegar hann var endurkjörinn (með naumum minnihluta) logsveið mig í mitt Kristna hjarta, þegar forsíðufréttir flestra fjölmiðla voru: Kristnin í heiminum hefur sigrað. Hvílík öfugmæli. Ég upplifi það sem hræðilega saurgun á því sem mér er heilagt að þessir öfgafullu bókstafstrúar-stríðsglæpamenn skuli telja sig Kristna. Framkoma þeirra er í algjörri andstöðu við þann náungakærleika sem Kristur boðaði.

Bryggjuvarðeldur Best að reyna aðeins að róa sig niður, áður en ég fer á of mikið flug. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst ef ég færi að lýsa skoðun minni á þeim skaða sem Runni yngri og hans lið hefur valdið í heiminum. 

En hér kemur mynd af varðeldi í Stokkseyrarfjöru. Þar stendur nú yfir bryggjuhátíð - og þangað skrapp ég í gærkvöldi.

Já ég er frá Stokkseyri. Lengi vel komst ég í vandræði ef einhver spurði mig hvaðan ég væri - og síst af öllu vildi ég kannast við að vera frá Keflavík (þó ég hafi búið þar á grunnskólaárunum). En einu bernskustöðvatilfinningarnar sem ég hef eru til Stokkseyrar. Ég er fædd í Reykjavík, flutti eins og hálfs árs til Stokkseyrar, bjó í Keflavík 6-16 ára, því næst 9 ár á Ísafirði og hef svo búið í Reykjavík síðustu 25 árin. Ég er semsagt Reykvíkingur frá Stokkseyri.

Asparfrjó Vér höfuðborgabúar höfum í blíðunni síðustu daga búið við óvanalega ofankomu. Þetta eru asparfrjó, umvafin frjóull. Þau svífa allt í kring um okkur eins og snjókorn. Ótrúlega mikið af þeim alls staðar. Þegar ég gekk upp Fishersundið í gær, sá ég að þau höfðu safnast saman í blómabeðum eins og snjóskaflar. Var sem betur fer með myndavélina á mér. 

Njótið lífsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oh, ég vildi að ég hefði drifið mig á bryggjuhátíð líka. Komum að norðan í gærkveldi og nenntum ekki að drífa okkur af stað. Svo dauðsé ég eftir því núna, en svona er þetta kem næst. ( Búin að segja þetta áður).

Þórunn frænka þín

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 01:14

2 identicon

Sæl frænka, datt inn á síðuna þína eftir einhverjum krókaleiðum .  Til lukku með daginn þinn um daginn, knúsaði gömlu konuna móður þína til hamingju.

Segi eins og og Þórunn (frænka mín líka) kem næst á bryggjuhátið.

Kveðja, Sigrún Arna frænka þín.

Sigrún Arna (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband