16.7.2007 | 20:23
Nýjar íslenskar.
Í dag var einn af mínum árlegu hátíðisdögum. Nei, það átti enginn afmæli, hvorki nærstaddur né fjarstaddur. Ég er svo heppin að sjá stórhátíðartækifæri í því sem sumum finnst hversdagslegt - og nýti mér þau tækifæri óspart til stórhátíðarhalda.
Og í dag var svo sannarlega ástæða til að gleðjast og fagna. Nýjar íslenskar kartöflur komnar í búðir. Og hvenær borðar maður virkilega mikið af kartöflum með smjöri? Jú auðvitað með saltfiski. Mmmmmm. Svo nú ligg ég afvelta af seddu - og nýt þess að melta hvorki meira né minna en 14 nýjar íslenskar, ásamt saltfiski og smjöri. Verði mér að góðu.
Í gær bauð ég hinns vegar mér og yngri dóttur minni í grill til þeirrar eldri. Fjölskyldu hennar fannst hugmyndin frábær - og stuttu seinna fékk ég sms frá henni: Komiði með sundföt, það er komin sundlaug í garðinn okkar. Við mættum með sundfötin, borðuðum úti í garði og skelltum okkur svo í sundlaugina, sem glittir í á bak við matarborðið.
Í alvöru, ég hefði aldrei getað trúað því, að svona ódýris plastsundlaug gæti virkað svona vel fyrir fullorðna. Hún rúmar fullt af fólki - og við Berglind vorum sammála um að við hefðum aldrei verið í þægilegri heitum potti - og höfum við þó prófað þá marga og notið þeirra flestra til hins ítrasta.
Þegar ég loksins hafði mig upp úr pottinum og heim til mín, klukkan að verða miðnætti, skartaði jökullinn sínu fegursta, eins og svo oft um þessar mundir. Og ekki bara jökullinn, auðvitað er það himinninn sjálfur sem býður mér upp á heimsins fegurstu "málverkasýningu" oft á hverju kvöldi um þessar mundir.
Fyrir þá sem ekki vita, skal þess getið til útskýringar, að ég bý við Ánanaustið - svo út um stofugluggann minn er þetta stórkostlega útsýni: Esjan, Gróttan og á milli þeirra; Snæfellsnesið, Akranes og Mýrarnar. Að ógleymdu sjálfu hafinu, sem ég elska út af lífinu. Og yfir öllu saman þessi unaðslega fegurð himinsins.
En svo ég haldi áfram með matseðla okkar mæðgnanna, þá leyfðum við okkur þann munað á laugardagskvöldið, að borða á útiveitingastað við Austurvöll. Thorvaldsen heitir staðurinn. Það var alveg kominn tími til að við nýttum okkur blíðviðrið til þess arna. Og við nutum þess svo sannarlega.
Upp úr þessari krukku borðaði ég núðlur með sveppum og öðru góðgæti - og á litlum diskum til hliðar voru risarækjur og humar. Virkilega gómsætt. Stúlkubarnið fékk einstaklega ljúffengt kjúklingasalat.
Já, ég tala bara um okkur mæðgurnar, enda er ég grasekkja í augnablikinu. Ástkær eiginmaðurinn búinn að vera viku í Vatnaskógi, en er væntanlegur heim í kvöld.
Lifið heil.
Athugasemdir
Halló. Mér var bent á þessa síðu rétt í þessu. Sem betur fer er ég hættur að blogga, annars liði mér eins og ég og mamma værum farin að mæta í sömu partíin.
Þetta er sannfærandi matarreport, það er alveg satt. Væri til í að sjá uppskrift að lifrarbuffi fyrir mig og Berglindi. Ég er að spá í að prufa að elda það og athuga hvort tuttugu ára álögum sé lokið. Kannski get ég aftur borðað lifur.
Bjarki (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 08:42
Vei vei, fæ ég þá líka lifur?
Laufey mín, Grasekkja er "my middle name" - þannig að ef þig vantar hughreystingar orð og frasa um að "þetta líði" þá er bara að slá á þráðinn.
Mér finnst virkilega gaman að fá matseðil ykkar mægnanna á netið, hef mikinn áhuga á hvað aðrir hafa í pottunum. Öfundarkveðjur út af íslenskum kartöflum, íslenskum saltfisk (sem ég fékk reyndar í síðustu viku), íslenskum plastpottarkvöldum og íslenskri sumarbirtu. Ég ætla ekkert að nefna veðrið enda er ég ekkert að öfundast út í það.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 08:53
Oh.... ég úðaði einmitt í mig nýuppteknum dönskum smákartöflum í júní og stundi af ánægju.... Saltfisk át ég á laugardaginn. Guðdómlegt en verður enn betra þegar ég næ að sameina þetta tvennt!!
Leggst Páll í hring þegar hann fer í "sundlaugina?"
tíhí
Ylfa Mist Helgadóttir, 17.7.2007 kl. 17:11
Eru þessar íslensku komnar, ég fór í Samkaup í gær, og sá nýjar kartöflur, en það stóð á pokanum 1 1/2 kg nye udlanske spise kartofler
Hvað ætli maður geri við uspiseliga kartofler ?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.7.2007 kl. 13:32
Já, aldrei að vita nema við bjóðum í grillað lifrarbuff í garðinum. Og svo myndi lýsið fljóta í rjúkandi heitri Skaftalauginni (sem húsbóndinn forpokaði hefur ekki einu sinni prófað, en gæti vel rúmað hann teinréttan, með útflatta kryppu og allt)
Berglind (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.