20.7.2007 | 11:36
"Sjáið tindinn, þarna fór ég"
Mikið ofboðslega er ég heppin, að búa á fallegasta landi í heimi. Og ekki bara því fallegasta fyrir augað, heldur á landi þar sem maður fær notið þess að ferðast gangandi um alla þessa fallegu staði. Ég elska gönguferðir úti í náttúrunni - og í hverri slíkri gönguferð hugsa ég: Af hverju geri ég þetta ekki oftar.
Já það merkilega er að maður þarf oftast eitthvað sérstakt, eða einhvern sérstakann, til að ýta við sér. Nú í fyrradag tók Pétur vinur minn hinn háóði að sér að vera sá hinn sérstaki. Sendi mér sms og minnti mig á kvöldgöngu á Hengilsvæðinu. Við hjónin skelltum okkur í gönguskóna með þvílíkum hraði, að við gleymdum bæði göngustöfum og nesti. Þar að auki hélt ég að kvartbuxur, ullarbolur og hjólapeysa væru hámarksflíkur á þessu unaðslega sumarkvöldi.
En ég var varla komin út úr bílnum, við rætur Hróðmundartinda, þegar ég uppgötvaði að mér var allt of kalt. Ég sá ekki fram á að mér tækist að ganga mér til hita, en var svo heppin, að Pétur hinn háóði hafði sína utanyfirflík bundna um mittið - og ég var svo almennileg að bjóðast til að "geyma" hana fyrir hann. Eftir að ég klæddist henni leið mér vel. En maðurinn minn þurfti auðvitað að minna mig á, að kvöldklæðnaður fólks í íslenskum sumarútilegum, er kraftgalli.
Þetta var unaðsleg kvöldganga. Mátulega löng, bæði í kílómetrum og klukkustundum talið, og hæfileg hækkun. Já talandi um hækkun: Ég hef einstaka ánægju af fjallgöngum, er þrekmikil og dugleg miðað við aldur, menntun og fyrri störf - og finn aldrei fyrir lofthræðslu. Samt vantar alveg í mig þennan metnað, sem segir; ég verð að komast upp á toppinn, aðallega til að geta sagt "sjáið tindinn, þarna fór ég", eins og segir í kvæðinu. Það veitir mér fullkomna hamingju að rölta um í fjallshlíðum, upp og niður hina og þessa hóla og hæðir - og njóta náttúrunnar. Ég hef t.d. oft gengið upp í Esjuna - mishátt - einu sinni næstum upp á topp - en aldrei alveg. Og ég er bara alsæl með það.
Sem minnir mig á, að fyrir tveimur árum fór ég til Kaupmannahafnar í 5. eða 6. sinn - og þá sá ég Hafmeyjuna í fyrsta sinn. Og það var algjör tilviljun. Við hjónin ætluðum ekkert í neina sérstaka Hafmeyjuskoðun. Vorum bara í stuði til að hjóla aðeins lengra - og allt í einu blasti hún við okkur þessi elska.
Sömu sögu hef ég að segja frá Osló. Ég var stödd þar í þriðja sinn þegar ég sá Holmenkollen í fyrsta skipti - og það fyrir algjöra tilviljun. Settist á huggulegt útikaffihús (sem ég geri mjög gjarnan - sérstaklega í útlöndum), tilheyrandi fjallahóteli sem þáverandi mágkona mín vann á - og þá bara blasti hann við, sjálfur Holmenkollen.
En aftur á Hengilsvæðið. Ástæðan fyrir því að ég fór að tala um skort minn á toppametnaði, var líklega sú, að í þessari ferð var ég ekki alltaf fremst í flokki og fyrst upp á alla tinda, eins og oft áður, - einfaldlega vegna þess að ég var svo hugfangin af fegurðinni. Stóð bara og starði - og tók helling af myndum, sem hér sést smá sýnishorn af.
Ég biðst afsökunnar á að hafa látið heilan dag og tvær nætur líða áður en ég skrifaði þessa "dagbókarfærslu". Blogg er víst annað nafn á opinberri dagbók, - ekki "fyrradagsbók". En ástæðurnar eru þær að eftir eldfjallameðferð gærdagsins, fórum við hjónin upp í Vatnaskóg, með viðkomu á Hótel Glym (þar hafði þessi elska pantað borð fyrir 2, - tókst heldur betur að koma sinni á óvart) - og komum ekki heim fyrr en löngu eftir miðnætti.
Nú kann einhver að hafa hrokkið við, þegar ég nefndi eldfjallameðferð. Málið er það, að við Sara vorum dáldið farnar að fíla okkur minni háttar, af því að við höfðum aldrei prófað neins konar spa, eins og almennilegar miðaldra konur hafa langa og góða reynslu af. Létum því loksins verða af dekurdeginum, sem við byrjuðum að plana fyrir tveimur árum.
Ég ætla ekkert að orðlengja það, því Sara er búin að blogga um það. Bendi ykkur bara á að lesa bloggið hennar. Þið bara smellið á nafnið hennar, á bloggvinalistanum hér til vinstri á síðunni.
Biðst bara afsökunnar á þessu stílbroti, að setja mynd af stóru tánni á sjálfri mér innan um allar þessar fallegu myndir af Hengilsvæðinu. En svona kemur maður ekki úr sinni fyrstu fótsnyrtingu er það?
Ég fæ mig bara engan veginn í það að slá botninn í þessa færslu með þessari tásumynd. Skelli því í lokin inn þessari mynd sem ég tók af himninum fyrir framan húsið mitt á þriðjudagskvöldið. Oft er hann fallegur, en nú náði fegurð himinsins frá hafi og langt upp fyrir húsið mitt.
Minnir mig á myndina sem Tommi frændi tók af nákvæmlega þessum stað, kvöldið sem afi minn dó, fyrir 20 árum. Þá hafði ég enga hugmynd um að ég ætti eftir að búa hér.
Lifið heil.
Athugasemdir
Já, satt hjá þér Sara. Án þess að ég sé að gera lítið úr þrekvirki mömmu þá virkar þetta frekar eins þýft tún heldur en fjallgarður. „Sjáið hólinn, þarna fór ég“. En ég gæti trúað því að þetta Hengilssvæði sé skemmtilegt yfirferðar. Fullt af mosa, í það minnsta, og það er alltaf gaman að traðka á mosa. Ekki eins skemmtilegt og að spóla á fjórhjóli, en samt.
Kvöldsólarmyndin er voða falleg, í svona póstkortalegu tilliti. Blessunarlega erum við laus við þessa kvöldsól hérna á Eyrinni. Gula fíflið angrar okkur bara á fyrirfram ákveðnum tíma, milli klukkan 5 á morgnana og 8 á kvöldin.
Hálfdán Bjarki (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 13:31
Hvað eruði að gera lítið úr hæðum Hengilsvæðisins. Takiði ekki eftir sjónarhorninu? Ég er komin í töluverðar hæðir þegar ég tek myndir yfir svæðið, sem hlýtur að þýða að ég hef trítlað dáldið hærra en upp á þúfur. En þið eruð náttla soddan Ísfirðingar, - þekkið bara þverhnípið og fjöruna, - og smá eyrar þar á milli.
Laufey B Waage, 20.7.2007 kl. 13:41
Þú ert svo flínk að taka myndir Laufey, ég er alveg hugfangin. Mig vantar svo fallega mynd úr Stokkseyrarfjörunni okkar, kannske átt þú akkúrat þá sem mig vantar.
Eigðu góðan dag Þórunn frænka þín.
P.S. Laufey Waage það er alveg nauðsynlegt og allra meina bót að fara í fótsnyrtingu á 5-6 vikna fresti!!!!!!
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 13:45
Þórunn mín, ég tók fullt af myndum í Stokkseyrarfjörunni okkar á föstudagskvöldið. Kíktu bara í heimsókn og skoðaðu. Hlakka til að sjá þig.
Laufey B Waage, 20.7.2007 kl. 13:55
Og ekur þú fram hjá höfn hins heilaga Þorláks rétt si svona?
Hafnarkerlingin
Ingibjörg (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.