22.7.2007 | 19:46
Á Gljúfrasteini.
Eftir að hafa sótt tengdadótturina í Leifstöð, - þ.e. unglingurinn með æfingaakstursleyfið keyrði, - ég bara sat í, þeystum víð hjónin á gítartónleika að Gljúfrasteini. Arnaldur Arnarson var að spila.
Við vorum á síðustu stundu (aldrei slíku vant) og supum hveljur þegar við sáum bílafjöldann fyrir utan. Við hoppuðum út úr bílnum nær hálfum ofan í skurði, - og sem við hlaupum heim hlaðið, mætum við konu sem segir: Þið getið strax snúið við, það er stappfullt og algjörlega uppselt. Og haldiði ekki að minn maður, sjálfur gítarnördinn, sem var búinn að hlakka þessi lifandi skelfing til þessara tónleika, hafi snúið við á staðnum.
"Komdu" hvæsti ég með hraði, og tók strikið inn. Minn elti.
"Megum við ekki standa í ganginum"? spurði ég stúlkuna í afgreiðslunni, og beið ekki eftir svari, heldur dró inn með með gítarnördinn, sem ætlaði að fara að skoða þvöguna í ganginum á tölvuskjá hjá stúlkunni í afgreiðslunni.
Tónleikarnir voru góðir, og mátulega stuttir fyrir gömlu konuna sem stóð upp á endann. Ég hefði ekki mátt hugsa til þess að vera næstu daga í nánu sambandi við eiginmanninn umframkominn af sorg yfir að hafa misst af þessum tónleikum.
En það var líka alveg einstaklega notalegt að koma að Gljúfrasteini. Andinn einstaklega góður, fallegt bæði innan dyra og utan, og eitthvað svo líkt því sem ég hafði ímyndað mér (já, ég var að koma þangað í fyrsta sinn).
En áður en ég hætti, verð ég að vekja athygli á því merkilegasta á jazzinum á Jómfrúnni í gær. Tónleikarnir voru með bestu tónleikum sumarsins, en það sem strax vakti athygli mína voru
þessir eiturgrænu skór Tómasar R Einarssonar. Maður á auðvitað ekki að segja svona, því tónlistin var virkilega góð, en samt - bara svona til gamans.
Úps, ég er víst á leið í kvöldmessu. Bjarni vinur minn með sína fyrstu messu eftir hálfs árs námsleyfi.
Lifið heil.
Athugasemdir
Var svo rosalega mikið að flýta mér að hespa bloggfærslunni af fyrir messu, að ég las ekkert yfir eða neitt. Eins gott að þetta er ekki fullt af prentvillum, ambögum og rugli, því ég kann ekki að leiðrétta eftir á.
Vil samt bæta við smá myndaskýringum: Hvíti fallegi Jagúarinn sem maðurinn minn stendur við, er ekki bílinn minn hálfur ofan í skurði (HA - datt engum það í hug?), heldur einn af glæsivögnum nóbelskáldsins okkar, sem var víst með ógurlega bíladellu.
Og: Það var ekki óvart, að Steinway-inn er með á myndinni af Arnaldi gítarleikara.
Laufey Waage (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.