Af kirkjugarðsheimsókn og Dalmatíu-ávexti.

Mamma við Sigguleiði.Í fyrradag hefði Sigga frænka orðið 68 ára, ef hún hefði ekki dáið fyrir fimm og hálfu ári síðan. Ég er víst orðin fræg fyrir að halda upp á afmæli fjarstaddra, en ég viðurkenni samt ekki að ég haldi upp á afmæli látinna. Að minnast þeirra með því að mæta með blóm í kirkjugarðinn er allt annað (þó maður fari á kaffihús á eftir, eða í ísbúðina - nema hvort tveggja sé, eins og hjá okkur mömmu í fyrradag). 

Ég segi auðvitað að ég sé bara að fara með mömmu, hún vill auðvitað mæta með blóm í kirkugarðinn á fæðingardegi systra sinna. Það er alltaf gott veður þegar við "mætum í afmæli" Siggu frænku, en Þuríður - hin systir mömmu sem er dáin - var fædd 28.desember, og við höfum oft næstum brotið á okkur tær og hæla, þegar við spörkum gaddfreðnum snjónum ofan af hennar leiði.

Afa-og ömmuleiðiAnnars finnst mér kirkjugarðsheimsóknir yfirleitt ánægjulegar. Friðsælar og notalegar, og garðarnir fallegir. Ég verð að skjóta því að, að kirkjugarðsferðir okkar mömmu hafa oft verið skrautlegar, því minni mömmu ( t.d."það er örugglega í þessari röð, ég man eftir þessum krana"), stangast oft á við ratvísi mína. En í fyrradag setti ég undir þennan leka; hringdi í Kirkjugarða Reykjavíkur og fékk númerin á leiðum systranna frá Akbraut (þeirra sem dánar eru) og líka föðurafa míns og ömmu - og mín er snillingur í að rata eftir korti.

Eftir kirkjugarðsgöngutúrinn bauð mamma í kaffi og meððí á Thorvaldsen, og svo í ísbúðina eftir kvöldmat.

Og ekki nóg með það: daginn eftir fórum við hjónin aftur á Thorvaldsen í enn einni brjáluðu blíðunni. Ætluðum bara að fá 

Drekaávöxturokkur kaffi, en svo stóðst ég ekki freistinguna og pantaði mér ávaxtatríó. Ég hélt ég væri bæði fróð og reynd í ávaxtafræðunum, en þarna var borinn á borð fyrir mig ávöxtur, sem var bleikur að utan, með grænum hornum, en að innan var hann eins og Dalmatíuhundur. Og mín vissi bara ekkert í sinn haus.

Auðvitað spurði ég þjónustustúlkuna, en hún hafði ekki hugmynd, og bauðst ekki til að spyrja. Þá urðu gestirnir á næsta borði ennþá forvitnari en ég, pöntuðu sama rétt hjá annari þjónustustúlku og spurðu hana hvað þessi ávöxtur héti. Hún vissi heldur ekkert í sinn haus, en þessir gestir voru ekki bara forvitnari en ég, heldur líka frakkari, og fóru þess á leit við stúlkuna að hún kannaði málið. Hún gerði það, og eftir langa og stranga rannsóknarvinnu, gat hún upplýst okkur öll um að bleika Dalmatían héti Drekaávöxtur.

Beikonvafðar kjúklingabringur.Nema hvað: Áður en ég byrja að gúffa í mig Dalmatíu-drekanum, sem bragðaðist virkilega vel (dáldið líkt kíví), hringdi Sara vinkona og vildi endilega fá mig í kósíkvöld, með poppi og dvd. Þegar hún heyrði að ég spurði minn ástkæra hvort ég mætti fara út að leika, var hún svo elskuleg að segja að hann mætti alveg koma líka, ef hann fílaði stelpustuðið, sem hann auðvitað þáði með þökkum.

Ég var svo rétt að kyngja síðast Dalmatíu-drekabitanum, þegar hún hringdi aftur þessi elska og spurði: Komið ekki bara líka í kvöldmat líka? Ég gæti t.d. eldað beikonvafðar kjúklingabringur í rjómasósu. Við héldum það nú - sjaldan hef ég flotinu neitað.

Þetta varð auðvitað unaðslegt kvöld. Maturinn hreinasta lostæti, eins og Söru sjókokki var trúandi til, og við stútuðum þremur örbylgjupoppkornspokum yfir frábærri sænskri verðlaunamynd; Sem á himni.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er alveg rétt, það er notalegt andrúmsloft í kirkjugörðum. Einhverskonar friðsæld hinna dánu sem breiðist yfir beð þeirra. 

Ekki sakar nú gott kaffi og meðlæti á eftir, og gott spjall við sína nánustu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.7.2007 kl. 11:40

2 identicon

Sæl frænka.

Ég held líka uppá afmæli fjarstaddra, eins og t.d. barnanna minna. Ég held líka uppá afmæli foreldra minna, stundum bíða  ég systkinum mínum í kaffiboð eða bara eitthvað sem er ekki hversdagslegt. Kannske er þetta ættgengt ha-ha.

Vel á minnst Íris frænka okkar á afmæli í dag, jibbí-kóla (eins og Saga mín segir)

Eigðu góðan dag

Þórunn frænka þín

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband