3.8.2007 | 15:29
"Þórs-Þórs-Þórsmerkurferð"
Ég var 10 ára þegar ég fór fyrst í Þórsmörk. Með foreldrum mínum og systkynum og heilu átthagafélagi. Svo fór ég ekkert aftur fyrr en ég var 45 ára, á fertugsafmæli Héðins bróður (lesendur hljóta að vera farnir að halda að ég hugsi ekki um neitt nema afmælisdaga).
En semsé þarna fyrir 6 árum var ég í tjaldi og það rigndi alla helgina. Þétt og hlý lognrigning, sem er að vísu uppáhaldsveðrið mitt. Ég verð þó að viðurkenna, að þó sú ferð hafi verið verulega skemmtileg og sýnt mér og sannað að Þórsmörk er alltaf yndisleg, þá er eiginlega ekki hægt að fara í tjaldútilegu á Íslandi. Það er að segja ekki fyrir mig, því ég vil getað farið í langar og góðar gönguferðir úti í náttúrunni, sama hvernig viðrar og svo
þurrkað af mér í húsi. Auk þess er ég orðin svo öldruð og lasburða, að ég verð helst að sofa í almennilegu rúmi.
Þess vegna var það, að ég tók fagnandi auglýsingu frá Kynnisferðum (nei ég er ekki á prósentum hjá þeim) í sumarbyrjun, með fyrirsögninni: Þú þarft hvorki að eiga jeppa né tjald til að komast í Þórsmörk. Þar var getið um ýmsa gistimöguleika, t.d. smáhýsi, með eldhúsi og svefnherbergi fyrir 5 manns.
Svo mín pantaði 1 stk. smáhýsi og fór í sína 3ju Þórsmerkurferð ásamt sínum heittelskaða. 4 dagar og 3 nætur núna í vikunni.
Við mættum á BSÍ vel fyrir hálf níu á sunnudagsmorguninn - ætluðum sko ekki að missa af rútunni. Á Selfossi var tilkynnt 10 mínútna pissustopp, en á Hvolsvelli var tilkynnt 20 mínútna stopp, en jafnframt að þeir sem ætluðu í Þórsmörk (en ekki að Skógum) ættu að setja farangurinn sinn í rútuna við hliðina, og fara með henni.
Við skildum þetta auðvitað sem svo, að 20 mínútna stoppið ætti við um okkur Þórsmerkurfara, svo við keyptum okkur langloku og drykk sem við lögðumst með í grasið. Mín horfði auðvitað niður að Bergþórshvoli í sögulegri náttúruskoðun, en eiginmaðurinn snéri í mig baki aldrei þessu vant - og var því fyrir tilviljun með augun á rútunni.
"Hún er að fara" hrópaði hann skyndilega. "Hver" spurði ég, með hugann við Hallgerði og Bergþóru. "Þetta er rútan okkar" sagði hann og rauk á fætur og hljóp af stað. Það vill til að mín er þekkt fyrir snögg snarviðbrögð, svo að á augabragði var ég komin fram úr honum með sótavatnið upp úr glasinu í allar áttir. Við hlupum meðfram rútunni og hrópuðum alveg brjálað. Kínversk kona, greinilega óvön svona óhemjugangi, vakti athygli bílstjórans á þessum brjálæðingum og hann var svo elskulegur að stoppa og hleypa okkur upp í. Sjúkket. Ég held ég hafi ekki náð andanum fyrr en við Seljalandsfoss.
Þórsmörk var yndisleg. Smáhýsið í Húsadalnum stóð alveg undir væntingum. Það var að vísu ekki með prívat salerni eins og pissudúkkan ég (a.m.k. tvisvar á nóttu) hefði helst viljað. "Það er í 17 skrefa fjarlægð" hafði stúlkan á skrifstofunni upplýst okkur um. Ég verð að segja að stúlkan sú hlýtur að vera ansi kloflöng, ég tók þetta í tæpum 40 skrefum. en þetta var nú samt hið besta mál.
Við fórum auðvitað í langar og góðar gönguferðir á hverjum degi, eins og mín hafði planað. Uppáhaldsveðrið mitt alla daga. Ýmist súld eða skúrir eða hvort tveggja. Við vorum samt svo heppin að blotna mest lítið á göngu, en nutum þess hins vegar að hlusta á regnið á þakinu, meðan við lágum upp í rúmi með
góða bók kvölds og morgna. Uppáhaldstónlistin mín er rigningin á þakinu.
En vegna þessarar unaðslegu súldar eru myndirnar ekki sérlega skírar. Samt mesta furða er það ekki?
Við gengum meðal annars yfir í Langadal, upp á Valahnjúk, á Slyppugilshrygg, í Slyppugil og fleira skemmtilegt. Svo létum við líða úr lúnum líkömum í nýju lauginni (heita pottinum) í Húsadalnum. Fórum líka í gufu, sem er nýkomin.
Verð að geta þess að lokum, að ef við þangað til síðasta daginn vann ég öll skröbblin og öll rommíin. Það var ekki fyrr en á síðasta sólarhring að ég leyfði mínum ástkæra að vinna, svo
hann kæmi nú glaður með mér heim.
Svo kom ég mátulega heim til að halda upp á afmæli Söru vinkonu við Austurvöll (nei hún býr ekki við Austurvöll - við nutum afmælisdagsins hennar þar í svo brjálaðri blíðu að við fengum næstum því sólsting og sólbruna).
Fleiri myndir á flickr.com/photos/laufeywaage (verð að læra að búa til link).
Njótið verslunarmannahelgarinnar heima eða heiman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.