Verslunarmannahelgin - nema hvað?

Adam með stjörnuljósÉg er nú orðin svo gömul sem á grönum má sjá, samt hef ég aðeins þrisvar farið út úr bænum um verslunarmannahelgina. Og fyrri skiptin tvö eru varla marktæk sem slík.

Fyrst fór ég á þjóðhátíð í Eyjum 1977. Þá fólst ómarktækið í því, að ég var næstum ekkert í Herjólfsdalnum sjálfum. Við gistum í barnaskólanum á staðnum, hvers fyrir aftan við Mallý systir lágum í sólbaði og hlustuðum á Ríó-tríóið æfa romm-og-kóka-kóla. Þeir gistu semsagt í næstu skólastofu við hliðina á okkur. Svo vörðum við töluverðum tíma í svifdrekaflug, en tilefni þessarar Eyjafarar var einmitt sú að þáverandi eiginmaður var fenginn til að sýna svifdrekaflug og ég fór bara með eins og hver önnur eiginkona. Þá flaug ég meira segja ein og sjálf í fyrsta og eina skiptið í slíku flygildi - í Eldfellinu hinu nýja, sem þótti mjúkt til nauðlendingar fyrir líttreynda stúlkukindina. Áður hafði ég bara verið svifdreka-"farþegi". Nei reyndar ekki bara það, - við svifdrekaflug þáverandi eiginmanns lék ég oftast lyftu. Keyrði hann og svifdrekann upp á fjöllin, sem hann síðan sveif niður af. 

Snorri og fjNæsta verslunarmannahelgarútihátíðin mín var "Bindindismótið í Galtalæk" 2002, eða Blindfylliríismótið í Alkalæk, eins og Pétur vinur minn kallar það. Ég verð að viðurkenna að Pétur er ekki að ýkja með þeirri nafngift. Drykkjuskapurinn var það mikill og almennur, að ég hugsaði með mér: Ef þetta er bindindismót, hvernig í ósköpunum er þá fylleríismót? 

Ég fékk frítt fyrir mig og dóttur mín, gegn því að vinna eina eða tvær vaktir í þjónustumiðstöðinni. En þar sem rigningin var frekar þétt og stöðug alla helgina, þá fór ég ekkert út úr þjónustumiðstöðinni, nema rétt til að sofa í rennblautu tjaldinu.

Bínó með stjörnuljósEn núna um helgina fór ég semsagt á mína þriðju hátíð - og sú stóð nú aldeilis undir nafni sem hátíð. Sæludagar í Vatnaskógi kallast hátíðin sú - og þetta voru sko virkilegir sæludagar. Þaðan eru þessar stjörnuljósamyndir (mín alltaf svo ýkt í formálunum, sem koma myndunum ekkert við). Hafi einhver haldið að ég hafi ruglast svona hressilega og dregið fram myndir frá síðustu áramótum, þá er það rangur misskilningur.

Þar var ekki einn einasti maður með kaupfélagspilsner, hvað þá sterkara. En stuðið og stemmningin var þvílíkt unaðsleg. Frábær dagskrá, og mórallinn algjört æði.

Eins og fram hefur komið, er mín - af gefnum tilefnum - komin með hálfgerða, ef ekki algerða tjaldfóbíu. Þess vegna var hún sniðug og pantaði herbergi í aðal-sumarbúðaskála þeirra Skógarmanna með góðum fyrirvara (við ætluðum líka í Vatnaskóg í fyrra, en hættum við að gista, því okkur leist ekki á að tjalda í rigningunni

Af bryggju að kapelluÞað var snarbrjálaður vindur á laugardeginum, en það skyggði ekki á gleðina. Svo ég hugsaði auðvitað með mér: Fyrst það er svona gaman í brjáluðum vindi, þá hlýtur alltaf að vera gaman (ég hlýt að fá frítt inn næst út á þessa góðu auglýsingu).

Af öðrum fjölskyldumeðlimum er það helst, að sonur minn "Drullusokkurinn" stóð fyrir Evrópumeistaramóti í mýrarbolta á Ísafirði, eins og sjá má í Blaðinu frá því á fimmtudaginn og eflaust í fleiri fjölmiðlum. Sem minnir mig á að ég þarf að yfirfara sjónvarpsdagskrár helgarinnar á netinu.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Drullusokkurinn sonur þinn stóð sig að ég held með stakri prýði. Ég sá hans yfirgnæfandi höfuð tróna ofar mannþrönginni á drulluboltamótinu.

En varðandi eiginmenn, þá finnst mér að í stað þess að kalla fyrrum eiginmenn "þáverandi," þá eigi þeir að kallast "eiginmaður þess tíma." Það hljómar svo skemmtilega einnota!!

takk fyrir baráttukveðjurnar um helgina. Ég á svosem nóg af uppskriftum af sykur, hveiti og gerlausu. Hef svo oft tekið svona heilsuæði. Gallinn er sá að það er líka allt svo ógeðslega gott að ég ét mig yfirfulla. Og allt inniheldur þetta víst kaloríur.....

Ylfa Mist Helgadóttir, 7.8.2007 kl. 10:34

2 identicon

Vatnaskógur er sko ekkert slor. Þar fannst mér gaman á sínum tíma. Finnst samt skemmtilegra núna að velta mér upp úr drullunni.

Drullusokkurinn Bjarki (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 15:33

3 identicon

Sæl Laufey.

Ég man ekki hvort ég var einhverntíman búin að láta þig vita af því að ég kíki stundum á þetta ljómandi fína blogg.

Mér finnst gaman að lesa þetta.....þú ert svona ljómandi skemmtilegur penni......það máttu eiga.

Gott að Vatnaskógur virkaði....hef einmitt farið þangað um verslunarmannahelgi og það var hin ljúfasta skemmtun.

Helga Björk (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband