Rigning í Reykjavík?!?

LW hjólar á rauðum kjólHvað gerir maður þegar maður á stefnumót við vinkonu sína á kaffihúsi í Kringlunni klukkan 1 á hádegi á venjulegum miðvikudegi í byrjun ágúst? Jú, maður fer í rauðan, stuttan, ermalausan kjól, og nýju rauðu ecco-sandalana, setur á sig varalit og hjólar af stað upp í Kringlu. Alla vega á sumri eins og þessu, þar sem maður er orðinn svo vanur endalausri blíðu og þurrki, að maður er orðinn afvanur hinum séríslenska sið, að vera sí og æ að gá til veðurs. 

Nema hvað; ég er ekki komin út að BYKO, þegar byrjar að rigna. Ég skelli mér í rauðu cintamani-hjólapeysuna, sem ég hafði verið svo forsjál að setja í hjólakörfuna og hjólaði áfram, segjandi við sjálfa mig að þetta væri bara örlítil kærkomin skúr, sem gengi fljótt og vel yfir.

LW rennblautEn því miður - það var ekki svo gott. Skúrin varð strax að hellidembu, en mín harðneitaði að feisa þá staðreynd, heldur hjólaði alla leið upp í Kringlu (4-5 km) eins og ekkert væri. Ég held ég hafi aldrei orðið jafn blaut, nema ef vera skyldi á jazzhátíðinni í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum, þá líka á hjóli í litlum fötum (sjá mynd).

Það varð mér til lífs í þetta sinn - og forðaði mér frá ofkælingu, að vinkona mín á kaffihúsinu var í þykkri og góðri peysu, sem hún fór fúslega úr og eftirlét mér. Við vorum tæpa 3 klst í Kringlunni, en samt var langt frá því að fötin mín næðu að þorna áður en ég hjólaði til baka. Það rigndi næstum því jafn mikið á heimleiðinni.

Þegar ég var komin í þurr föt heima hjá mér, fórum við Berglind í Ikea-leiðangur (á bíl!!). Sá leiðangur tók líka hátt í 3 tíma, hvar í miðjum klíðum Berglind bauð mér í Ikea-kvöldmat meðan ég tók á valkvíðanum. Já, valkvíðinn tók á. Ég átti í þó nokkru basli með að taka ákvörðum um að fjárfesta í tveimur lökum og þremur púðum, fyrir samtals um 6 þúsund krónur. Ég þurfti að réttlæta kaupin fyrir sjálfri mér með því, að ef púðarnir hentuðu ekki með svefnsófanum sem er ætla að búa til úr tveimur gömlum dýnum, þá má nota þá fyrir lestrarpúða, sem okkur hjónin hefur lengi langað í. Þeir geta líka hæglega verið fjölnota. Nú auk þess sem alltaf má skipta óopnaðri vöru. Ég held að Ikea-kaup valdi mér enn meiri hugarangri en fatakaup, og er þá virkilega mikið sagt. 

Hugo bassiÉg var varla komin heim, þegar Pétur hinn háóði mætti á staðinn og dreif okkur hjónin með sér á "jazz"-tónleika á Gauknum. Ég setti jazz í gæsalappir, því þetta var mjög óhefðbundinn jazz - rokkaður og eiginlega óflokkanlegur. Frumlegur og bráðskemmtilegur. Öll tónlistin frumsamin. Meðal hljóðfæra sem leikið var á, var risastór mjallhvít "lúðrasveitartúba", öðru nafni súsafónn.

Það gladdi líka mitt kvennlega hjarta að kontrabassaleikarinn var kona. Allt of sjaldgæf sjón og heyrn. Nei, þessi mynd er ekki af henni, heldur af Hugo Rassmunsen hinum danska (tekin á jazzhátíð í Köben). Hljómsveit kvöldsins var líka dönsk, og í Danmörku er jazzmenningin svo frábær; konur spila jazz á hin ýmsu hljóðfæri, börn alast upp við að hlusta á vandaðan jazz, og fleira yndislegt.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég lendi í valkvíðanum (sem er blessunarlega sjaldan) þá enda ég helst á að kaupa bara bæði. Á sko ekkert erfitt með að finna hinar og þessar afsakanir fyrir kaupunum.

Mér þykir nú tíðindi að rigning í Reykjavík sé orðin að umtalsefni, er það ekki eins og að segja að Berglind hafi tekið upp á því að vera skipulögð, að Bjarki vilji vera á Ísafirði og Ásbjörg fengið áhuga á fötum? Annars átti ég líka svona sund stund á hjóli. Það var þegar rigndi í Santa Barbara, golfvöllurinn varð að tjörn og skúnkarnir héldu fund um hvernig væri best að breyta sér í vatnadýr.

Bestu kveðjur í Vesturbæinn,

hlökkum til að sjá ykkur eftir helgi

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 11:53

2 Smámynd: Laufey B Waage

Dóra mín. Þú gerir þér kannski ekki grein fyrir því, að valkvíðinn i þetta sinn helgast af því að þú vilt ekki sofa á fína rauða svefnsófanum mínum. Þess vegna hef ég loks, eftir langvarandi valkvíðakast, ákveðið að kasta honum út og útbúa nýja svefnaðstöðu fyrir ykkur hjónin. Kaupa bara bæði sagðirðu. Meinarðu að ég eigi bæði að kaupa nýjan svefnsófa annars vegar og hins vegar lök og púða til að búa til svefnsófa úr gömlu góðu springdýnunum? Eða meinarðu að ég eigi bæði að kaupa stóra og litla púða? Eða meinarðu að ég eigi bæði að kaupa einlit púðaver og munstruð? Hvað með hvítu púðaverin með krosssaumsmynstrinu, sem ég keypti? Bara sorry, þetta er ekki svo einfalt þegar ég er annars vegar. En ég segi bara; eins gott að þið - herra og frú Drullusokkur Slick - viljið gista hjá mér alltaf þegar þið komið í bæinn, og sofið vel á herlegheitunum.

Laufey B Waage, 9.8.2007 kl. 14:13

3 Smámynd: Laufey B Waage

Smá leiðrétting: Það eru 4,7 kílómetrar heiman frá mér og í Kringluna - aðra leið.

Og Dóra Hlín: Reykvískir garðar eru upp til hópa ónýtir af þurrki eftir þetta sólríka sumar, nema þeir sem hafa verið vökvaðir næstum daglega. Maður bara ruglast alveg í ríminu núna loksins þegar rigningin kemur.  

Laufey B Waage, 9.8.2007 kl. 14:45

4 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Hahahahahahaha!!!

Valkvíði! Þekki ekki þá tilfinningu. Annaðhvort kaupi ég eða ekki. Fer meira eftir efnahag en vali. En ég er líka svo einföld sál. Lélegir svefnsófar og svefnaðstaða almennt í þeim húsum sem við fjölskyldan gistum á ferðalögum okkar er mér þyrnir í augum. Já, svo mikill þyrnir að ég hef með árunum og auknu líkamsumfangi, hreinlega NEITAÐ að heimsækja fólk með lélegan legukost! Annaðhvort bæti það aðstöðuna eða ég bara sef annarsstaðar! Svona er ég nú forhert. Einföld og forhert! Og það rignir ALLTAF í Reykjavík.

Og ég er í geðbólgu-nikótín og geðlyfjafráhvarfskasti.....

Bear with me.

Ylfa Mist Helgadóttir, 9.8.2007 kl. 15:57

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sé á myndinni að þú hefur ekkert breyst, ert sama Lubban sem þú hefur alltaf verið mín kæra, yndisleg.  En það hefur ekki verið skemmtilegt að fá á sig hellidembu in the middle of nowhere. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.8.2007 kl. 08:08

6 identicon

Þetta var alveg stórkostleg Ikea-ferð, get ég sagt ykkur! Það er svo ágætt að verða af og til vitni að valkvíða ástkærrar móður minnar, því þá finnst mér minn eigin svo heilbrigður í samanburðinum.

Það sem skiptir þó öllu máli er að rauði sófinn er LOKSINS á leiðinni á haugana, næturgestum móður minnar til mikillar gleði. Stórfjölskyldan hefur sem sagt eytt nokkrum árum í að sannfæra móður mína um að hún sé sú eina sem hefur fundist gott að sofa á þessum sófa. Hún er jafnframt sú eina sem mun aldrei sofa á honum aftur, þar sem hún hefur nú búið við þann lúxus í að verða 17 ár að þurfa ekki að sofa í stofunni heima hjá sér.

Hlakka til að leggja drullusokk og frú til svefns í nýja brikkinu, og ef það virkar ekki, ja, þá get ég alltaf farið aftur með mömmu í Ikea að skoða svefnsófa :-)

Berglind (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 15:46

7 identicon

Móðir, þú ert mjög svo ágætur bloggari!

Og Dóra, síðan hvenær hef ég áhuga á fötum?

Ertu gengin af göflunum?

Ásbjörg (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband