16.8.2007 | 20:24
Veisludagar.
Gaman gaman. Enn ein kvikmyndahátíðin er hafin. Við hjónin erum miklir kvikmyndasælkerar. Sem þýðir m.a. það, að stundum líða nokkrir mánuðir án þess að við förum í bíó, - svo skyndilega brestur á með kvikmyndahátíð og við veltum því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að fá leigt herbergi í bíóinu, - það tekur því varla að fara heim á milli mynda. Ég held að metið okkar sé 12 myndir á einni hátíð, sem stóð í rúma viku minnir mig.
Og nú eru bíódagar Græna ljóssins brostnir á. Nei, þetta hefur ekkert með lífrænt grænmeti að gera, - við borðum popp á sýningum en ekki áskitna gulrót. En sýningar Græna ljóssins byrja stundvíslega á auglýstum tíma, öngvir treilerar og ekkert hlé. Svo einfalt er það.
Herlegheitin hófust í gærkveldi og þá sáum við Sicko - mynd Michaels Moore um heilbrigðiskerfið í USA versus Evrópu. Nú áðan sáum við myndina Hallam Foe. Mjög góðar báðar tvær - og við hlökkum til að sjá 9 myndir í viðbót (keyptum 10 miða passa, og fengum boðsmiða á opnunarmyndina Sicko).
Ég verð að segja ykkur frá þremur nýjum hugtökum, sem ég lærði á laugardaginn var.
Það fyrsta er ofbeldisgestrisni. Þið vitið - allar "myndarlegu húsmæðurnar" sem finnst þær bæði vera kurteisar og almennilegar þegar þær reyna á virkilega ýktan hátt að troða endalaust upp á mann meiri veitingum, þó maður sé alveg að springa, eða kærir sig einfaldlega ekki um meira.
Svo er það andlitsblindan. Í brúðkaupsveislunni lenti ég í skriljónasta skipti í því að kunnugleg kona fór að tala við mig að fyrra bragði - og ég mundi ekki hvar ég hafði hitt hana, fyrr en hún sjálf og minn ástkæri benntu mér á það. Ég sagði henni frá minni skelfilegu ómanngleggni, en hún svaraði; veistu - á mínu heimili köllum við þetta andlitsblindu. Frábært. Næst þegar þið sjáið mig, - ef ég skildi ekki þekkja ykkur - verið svo góð að heilsa mér að fyrra bragði og minna mig á hvaðan ég þekki ykkur. Ég er nefnilega ekki svo merkileg með mig að ég vilji ekki þekkja ykkur. Ég er bara svo illa haldin af andlitsblindu.
Að lokum eru það kraft-kallarnir. Nei, ég er ekki að tala um steratröllin. Heldur þá sem gleyma öllu. Þeir eru í kraft-félaginu. Craft: Can´t remember a fucking thing.
Og af því að ég byrjaði á að tala um veisluhöld. Njótið menningarveislunnar á laugardaginn.
Athugasemdir
Sæl frænka.
Þetta eru frábær hugtök. Stundum held ég að ég sé með ofbeldisgestrisni. En það er líka til fólk sem kemur í veislur til manns og bragðar varla á neinu vegna megrunar!!! En það er alveg á hreinu á maðurinn minn er með andlitsblindu á háu stigi, ætli ég geti komið honum í einhverskonar meðferð ha-ha.
Eigðu góðan dag-- Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 15:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.