20.8.2007 | 11:55
Listvinir, spuni og gul hálsfesti.
Ég gæti hæglega byrjað þessa færslu nákvæmlega eins og síðasta mánudag, þ.e; helgin var viðburðarík. Því það var hún svo sannarlega.
Bæði laugardag og sunnudag var ég á ferlega skemmtilegu námskeiði frá kl. 10-17. Kl. 17 á laugardeginum hjólaði ég á 12 mínútum frá Grensásvegi og niðrá Lækjartorg, hvar beið mín iðandi mannlífið á sjálfri Menningarnóttinni.
Eftir að hafa hlýtt á Gröndal-systkynin og Stórsveit Samúels, sátum við hjónin góða stund í Hressó-garðinum, hvar leiknir voru ljúfir tónar. Við vorum full léttklædd til að sitja svo lengi utan dyra, svo næst á dagskrá var að skreppa heim í fleiri föt. Já það borgar sig að búa í 101.
Á bakaleiðinni bað ég minn heittelskaða að kíkja aðeins með mér inn í Kirsuberjatréð, ég þyrfti að sýna honum gulu hálsfestina, sem mig er búið að langa í síðan í mars, en ekki tímt að kaupa. Eftir samningaviðræður um verð festarinnar, hófu hinar bráðskemmtilegu afgreiðslustúlkur að reyna að fá okkur til að syngja í Karókí, sem þær voru með á staðnum í tilefni Menningarnætur. "Ég skal syngja" sagði ég, "fæ ég festina þá ekki á ásættanlegu verði?" Samningar tókust - ég söng Dancing Queen og dansaði að sjálfsögðu með. Gekk út með gulu festina um hálsinn. Maðurinn minn sagði að mér hefði farið mikið fram í Karókí-söng síðan í brúðkaupsferðinni í París. Ég trúð´onum.
Þegar við gengum svo úr kvosinni og upp á Skólavörðuholt, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Í staðin fyrir ljúfa lifandi tónlist í huggulegum húsasundum, voru skífuþeytarar með argandi graðhestamúsík á öðru hverju götuhorni. Verst var ástandið fyrir framan Nakta apann, þar sem mætast Skólavörðustígur, Laugavegur og Bankastræti. Mikið sem ég hefði heldur viljað Búlgörsku eða Rúmönsku harmónikkuleikarana sem voru hér í vor, en var því miður vísað úr landi.
Við gengum því hratt efst upp á Skólavörðustíg, þar sem við vissum að biðu okkar Tómas R og félagar. Og vá hvað þeir björguðu kvöldinu. Og ekki bara þeir, eins og þeir voru nú bráðskemmtilegir og með frábæra tónlist, - heldur líka gestgjafarnir. Hljómsveitin spilaði (kl 20 til langt gengin í 22) í huggulegu húsasundi fyrir framan Listvinahúsið. Þar inni var boðið upp á vín og osta og fleira gott, - og gestgjafarnir (eigandinn er afastrákur stofnandans; Guðmundar frá Miðdal) voru bara svo elskulegir og almennilegir, að stemmningin var eins og best verður á kosið. Sannir listvinir.
Eftir námskeiðið á sunnudeginum var ég svo þreytt, að ég sofnaði á myndinni um dauða forsetans.
Lifið heil.
Athugasemdir
Dísus!!! Voðalega ertu menningarleg???
Ertu nokkuð farin að borða sykur aftur Laufey? Mér finnst þú jaðra við að vera ofvirk... þú kemur svo miklu í verk! :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 22.8.2007 kl. 16:00
Nei einmitt ekki. Ef maður borðar sykur (alla vega í óhófi eins og ég gerði), þá fer maður í sykurfall oft á dag, með tilheyrandi slappleika. En nú er ég alltaf með jafna og góða orku.
Laufey B Waage, 23.8.2007 kl. 00:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.