Stuðdagur

MM+gulrótarkaka 25.08Frumburðurinn minn átti afmæli í gær. Á milli gulrótarkökubaksturs og afmæliskaffis fórum við Matthildur ömmustelpa á jazzinn á Jómfrúnni. Í þetta sinn lék Stórsveit Reykjavíkur ásamt söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur.

Eina sætið sem var laust þegar við mættum, var fremst fyrir miðju, nánast ofan í saxafónunum. Sólin skein beint í andlitið og vindhviðurnar voru slíkar, að nótur stórsveitarmanna fuku af og til út í veður og vind, þrátt fyrir ótal  litskrúðugar klemmur. Við þessar aðstæður sofnaði ömmustelpan strax í fyrsta lagi og svaf þar til ég vakti hana klukkutíma seinna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún fer með mér á jazzinn í sumar - og á hinum tónleikunum sofnaði hún líka í fyrsta eða öðru lagi.

"Ég er hætt að svæfa þetta barn" sagði móðir hennar afmælisbarnið, þegar við mættum í afmæliskaffið. "Liggjandi hjá henni í tvo tíma á hverju kvöldi. Hér eftir fer hún ein í rúmið, með Stórsveit Samúels í geislaspilaranum".

Stórsveit á JómfrúnniUm kvöldið var svo hið árlega Stuðmannaball á Seltjarnarnesi. Í mörg ár hef ég farið á þetta ball. Tvö fyrstu böllin kenndu mér lexíu. Maður mætir rétt áður en þeir byrja að spila, dansar eins og brjálæðingur fram að pásu og fer þá heim að sofa.

Ég hef reyndar aldrei skilið, af hverju böllin þurfa að byrja svona seint. A-manneskjur eins og ég vilja dansa frá klukkan 10 til 1, en ekki frá 1 til 4.  

En semsagt, - mér finnst mjög gaman að dansa, við undirleik góðrar stuðhljómsveitar fyrsta klukkutímann eða svo.  Eftir pásu er dansgólfið yfirleitt orðið stappfullt af blindfullu fólki (undantekningarnar eru vinsamlegast beðnar um að taka þetta ekki til sín), sem jafnvel dansar með glas í hendi (og sígarettu, meðan það mátti), - gusar yfir mann og klístrar gólfið. Auk þess sem mannlífið verður villimannslegra og ömurlegra.

MM sofandi á JómfrúnniOg hvað heyri ég svo í útvarpsfréttum yfir morgunkaffinu? Allt tiltækt lið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á Seltjarnarnes, þar sem til alvarlegra slagsmála hafði komið á Stuðmannaballinu. Og þegar svo lögreglan reyndi að skakka leikinn, þusti að múgur og margmenni, sem reyndi að bjarga vinum sínum úr klóm lögreglunnar. 7 manns handteknir. Þetta gerðist að sjálfsögðu í seinni hálfleik, þegar við siðprúðu hjónin vorum komin í rúmið.

Best að drífa í að taka á valkvíða dagsins: Á ég að fara á bláberjamó eða rifsberjamó? Líklegra er rifsberjamórinn greindarlegri, áður en grænu berin verða öll orðin eldrauð. Bláberin lifa það af, að þroskast aðeins meira.

Berglind 250807Þetta var annars ferlega sniðugt hjá mér að setja getraun inn í síðasta blogg. Ég fékk óvenjumörg komment. Líka sms. Hrútaber var greinilega rétta svarið.

Annars vil ég hvetja ykkur til að kommenta oftar. Þið sem ekki eruð innskráð, svarið bara einu léttu samlagningardæmi og skrifið það sem hugurinn býr ykkur í brjóst. Athugasemdin birtist án myndar, ef þið eruð óskráð.

Njótið lífsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þetta hefur sannarlega verið stuðmannaball  Margir stuðast mjög mikið.

Það er líka berjatíminn núna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2007 kl. 01:16

2 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Til hamingju með frumburðinn. Ekki vissi ég að hún ætti afmæli, enda man ég aldrei afmælisdaga! Til Hammó með ammó Berglind, ef þú lest þetta!!! Ég er einmitt í valkvíðastríði í dag, aldrei þessu vant! Er að gera það upp við mig hvort ég á að fara í berjamó eða taka til.... hugsa að ég verði að taka til. Áður en heilbrigðiseftirlitið lokar kofanum......

Ylfa Mist Helgadóttir, 27.8.2007 kl. 11:42

3 identicon

Sæl frænka.

Síðbúnar hamingjuóskir til ykkar allra. Saga litla varð 3ja ára þennan sama dag.

Mig minnir Laufey að ég hafi prjónað peysu á Berglindi þegar hún var lítil hvíta og appelsínugula randapeysu- mannstu eftir því eða er ég rugla eitthvað. Ég man líka eftir því hvað mér þótti merkilegt að hún Laufey frænka mín væri orðin mamma, úff hvað tíminn er fljótur að líða.

Góðar kveðjur þórunn frænka þín.

Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 15:51

4 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Alltaf stuð á stuðmannaballi

Halldór Sigurðsson, 29.8.2007 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband