31.8.2007 | 16:30
Biluð myndavél.
Matthildur ömmustelpa átti afmæli í fyrradag. Mín mætti auðvitað í Skaftahlíðina, vopnuð afmælispakka og myndavél. Nema hvað, - brussulætin voru þvílík (aldrei slíku vant) þegar ég var að koma mér út úr bílnum, að myndavélin datt út úr veskinu og á gangstéttina. Beint á andlitið. Mér virtist þetta ekki vera neitt högg, svo ég lét sem ekkert væri. Hélt að hún hefði ekkert slasast þessi elska. Þegar ég svo ætla að fara að taka mynd af bleika þristinum með tengdasonurinn hafði skapað í formi afmælisköku, - þá bara kviknaði ekki á vélinni. Sama hvað ég reyndi. Ég braut meira að segja odd af orlæti mínu og bað viðstadda hjálpar. Fyrrverandi eiginmaður minn studdi kenningu núverandi eiginmanns míns, þess efnis - að einhver fjöður á linsunni hefði líklega laskast, og þess vegna kæmist hún ekki út. Ég bað húsmóðurina á heimilinu um títuprjón til að plokka fjöðrina út, en eiginmennirnir sammæltust um að ráða mér frá því. Það væri viturlegra að láta fagmenn um viðgerðina.
Þannig stendur á því, að engin ný mynd fylgir þessu bloggi. Þessi mynd af ömmustelpunni er tekin fyrir rúmu ári, daginn sem ég varð fimmtug. Hins vegar er núverandi eiginmaður búinn að segja að ég megi nota myndavélina hans yfir helgina. Svo það er aldrei að vita nema nýtt blogg með nýjum myndum birtist eftir helgi.
Lifið heil.
Athugasemdir
Hvað ertu að gera með alla þessa eiginmenn í eftirdragi? Meira ruglið. Nóg að eiga svona velbakandi tengdason! Hann er snillingur í þessu. En ekki láta hann koma nálægt myndavélinni þinni...!!!
Ylfa Mist Helgadóttir, 3.9.2007 kl. 22:40
Leitt með myndavélina Laufey mín. Til hamingju með litlu dúlluna, en hvað hún er falleg og mikið krútt. Gott að vita að þú færð myndavél lánaða. Það er svo mikils virði að fá að gjægjast aðeins innfyrir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.9.2007 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.