Trúnó.

Vindáshlíð 1Ég hef lengi verið þjáð af skorti á tveimur ákveðnum talentum. Annar þeirra er eftir-eyranu-spilamennska. Þegar ég nam píanóleik við Tónlistarskólann í Keflavík 11-16 ára, voru foreldrar mínir sammála tónlistarkennurum þess tíma, um að þeir sem væru að LÆRA mættu alls ekki spila eftir eyranu. Því var það að mamma kenndi litlu systkinum mínum Allt í grænum sjó og þess háttar lög, sem krökkum þykja skemmtileg, meðan ég var ekki heima. 

Svo tók við 9 ára tímabil, þar sem ég bjó með manni sem aldrei hafði lært að spila, en spilaði eftir eyranu, hvað sem var, hvenær sem færi gafst, í hvaða tóntegund sem var, og nánast á hvaða hljóðfæri sem var - þar með talið píanó. Eins og gefur að skilja, dró Laufey litla sig í hlé, og snerti ekki hljóðfæri í mörg ár. 

kvöldvaka 2Svo eftir að ég varð tónlistarkennari, er alltaf af og til ætlast til þess að ég spili hvað sem er, með engum fyrirvara og helst eftir eyranu. "Þú spilar bara eitthvað svona óæft" er ein af setningunum sem ég hef fengið að heyra - og pirrað mig yfir. Alltaf sagði ég nei - og stundum bætti ég því við að ég væri ekki ein af þeim sem spiluðu eftir eyranu, - og að þeir væru afskaplega fáir sem spiluðu óæft, -  þeir væru þá yfirleitt með eitthvað æft í pokahorninu. 

En auðvitað get ég spilað eftir eyranu. Ég hef í það minnsta kennt nemendum mínum það í þó nokkurn tíma. Málið var bara það, að ég hélt að það væri ætlast til svo mikils af virtum píanókennara, sem hefur verið eins og grár köttur á jazztónleikum landsins árum saman, - að það væri fyrir neðan mína virðingu að spila bara eitthvað sáraeinfalt, á borð við það sem ég kenni nemendum mínum.

Hanna Valdís og GyðaÞví var það, að fyrir tveimur árum gerðist ég nemandi í Tónheimum hjá Ástvaldi vini mínum Traustasyni. Hann var (og er) með sérstök námskeið fyrir píanókennara sem vilja rækta færni sína á þessu sviði. Hann sá þvílíkum ofsjónum  yfir færni minni og framförum , að í vetrarlok var hann búinn að ráða mig sem kennara hjá sér. 

Þá neyddist ég til að draga snarlega í land allar yfirlýsingar þess efnis, að ég gæti ekki spilað eftir eyranu. Eftir sat ég með fyrirsláttinn; ég get ekki spilað óæft. 

Á föstudaginn stóð ég svo frammi fyrir áskorun sem ég kaus að taka. Til stóð að landsþekktur atvinnutónlistarmaður træði upp í fimmtugsafmæli hjá vinkonu minni. Svo komst hann ekki - og það var hringt í Laufeyju litlu og hún beðin um að redda málunum.

Vindáshlíð 2Þetta var eftir hádegi á föstudegi og ýmislegt á dagskrá þann daginn (veislan klukkan 6) - en í staðin fyrir mitt hefðbundna nei, hugsaði ég: Ég hef rúman hálftíma til að finna út hvaða lög ég get spilað, það er kominn tími til að ég taki svona áskorun. 

Ég dauðkveið því að þurfa að yfirgefa veisluna með skottið á milli lappana og hugsunina "ég get aldrei komið á billann aftur" (a la Dúddi í Með allt á hreinu). En - ég komst lifandi frá þessu - og sveif því alsæl upp í Vindáshlíð í grenjandi rigningu og kvöldmyrkri.

Þar beið mín önnur áskorun. Ég hef aldrei verið í Vindáshlíð áður, hafði ekki hugmynd um hvort ég þekkti einhverja - og var að fara alein. Ég hafði ákveðna hugmynd um að í svona kvennaflokki væru aðallega vinkvennahópar, sem hefðu kynnst á staðnum þegar þær voru 9 ára, og verið saman í saumaklúbb síðan (hvers vegna í ósköpunum datt mér þá í hug að fara - er góð spurning). Sá sem skráði mig, sagði að þannig hefði það verið hingað til, en nú vildu þau breyta þessu og höfða til breiðari hóps kvenna úr öllum áttum. Þess vegna hefði verið auglýst í blöðunum. "Og finnst þér að ég eigi að vera hugrakkur brautryðjandi" spurði ég. Það fannst honum gráupplagt og ég sló til. 

Ég á það til að vera hrókur alls fagnaðar í fjölmenni. Hef til dæmis troðið upp í mannmörgum veislum og þótt óhemju örugg og framúrskarandi skemmtileg. Ég á þetta líka til í smærri hópum. Það hefur meira að segja verið klappað fyrir mér í heita pottinum, sökum skörungskapar og skeleggra athugasemda.

Hitt er þó algengara, að ég fíli mig eins og kúk útí horni - einmanna og óörugg. Oft kvíði ég veislum - og sér í lagi hléum. Og öllum þessum köffum; kaffihlé, - og kaffi eftir þetta og hitt. Þá veit ég að allir fara voða mikið að tala saman, nema ég - af því þeir sem ég þekki eru að tala við einhvern annan. Og ég þori ekki að setjast hjá neinum, - sest ein og kvíði því fullviss að enginn vilji setjast hjá mér.

Þess vegna var þetta dáldið mál fyrir mig að mæta ein í Vindáshlíð. En jafnframt áskorun. Ég sagði við sjálfa mig að ég fengi ekki að fara, nema ég mundi annað hvort blanda geði við hinar, og/eða njóta þess að vera ein.

Og þetta fór ótrúlega vel. Strax í fyrsta kaffinu var kallað í mig að koma og setjast við eitt borðið (kannaðist aðeins við konuna sem kallaði). Svo var ég svo ánægð með mig eftir spilamennskudæmið, að í næsta kaffi fór ég á milli borða eins og hvert annað afmælisbarn.

Auðvitað skipti það mestu máli að þessar konur voru upp til hópa alveg einstaklega elskulegar. Þetta var í alla staði frábær helgi og mér leið hreint unaðslega á þessum yndislega stað. Er strax farin að hlakka til að endurtaka leikinn.

Úps, - þetta er aldeilis orðinn yfirmáta persónulegur pistill. Bara eins og ég sé á trúnó við minn besta vin. Best að breyta fyrirsögninni. Og svo er bara að vita hvort ég tek einni áskoruninni enn - og sendi þvílíkar trúnaðarhugsanir frá mér á opinberan vígvöll.

Lifið heil.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Vó! flottur pistill!

Það eina sem hrjáir þig Laufey mín er að þú hugsar of mikið. Sýnist mér a.m.k í fljótu bragði ;o)

Ylfa Mist Helgadóttir, 5.9.2007 kl. 17:54

2 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Já þetta hlýtur að hafa verið agalegt að fá ekki að spila eftir eyranu.........sjálfur get ég ekki hugsað út í það hvernig sé að geta bara lesið nótur.....Ásvaldur er að gera flotta hluti heyri ég....annars skora ég á þig a kíkja á síðuna mína og hlusta......

kveðja

Einar Bragi

Einar Bragi Bragason., 7.9.2007 kl. 00:59

3 identicon

Sæl Laufey mín

Skemmtilegt trúnó og innblástur fyrir aðra, finn nú smá samsvörun með þessum minnimáttarkenndum. Best ég fari og taki einhverri áskorun í dag.

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 06:37

4 identicon

Já, mamma mín. Kannast vel við kúkur-útí-horni syndrómið. Ætli það sé ættgengt?

Berglind (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband