10.9.2007 | 18:58
Gamlar hressar konur.
Ég þekki nokkrar frábærar konur, sem fæddar eru haustið 1917. Til dæmis Ásu vinkonu (sjá mynd), Ingunni Ósk frænku mína á Efra-Hvoli og Hólmfríði ekkjuna hans afa míns. Þær eru allar fæddar á bilinu 23.sept.-1.okt.1917 og verða því níræðar eftir nokkra daga. Allar eru þær og hafa alltaf verið einstaklega hressar og hraustar. Svo var Kristján Jóhannsson að opinbera það að móðir hans yrði níræð 14.sept. næstkomandi. Fleiri konur eru örugglega í þessum hópi - og eflaust einhverjjir karlar líka.
Einhvern tíman í sumar - í heita pottinum - nefndi ég þessa merkilegu tilviljun við dóttur mína ljósmóðurina. "Nei mamma", sagði sú bráðgreinda, "þetta er engin tilviljun. Þessar konur voru nýfæddar þegar frostaveturinn mikli skall á. Þá dóu auðvitað þeir nýburar sem ekki voru hraustir. Þeir sem lifðu þennan vetur af sem nýburar, hljóta að lifa allt af". Alltaf svo bráðskýr og lík henni mömmu sinni þessi elska.
Ég fór á tvenna sinfóníutónleika fyrir helgi. Vorblótið á fimmtudagskvöldið og svo fór ég með ömmubörnin á hina árlegu kynningu Melabandsins (Sinfóníuhljómsveit Íslands - ennþá með aðsetur á Melunum) á laugardaginn. Þetta er dáldið mikið, miðað við að á seinni árum fer ég lang-oftast á jazztónleika - og alls konar öðruvísi tónleika. Tók út Sinfóníuæðið á níunda áratugnum.
Fleira af "klassísku"-deildinni. Ég var undirleikari við Suzuki-fiðludeild í 7 ár, en hætti því fyrir tveimur árum. Svo lét ég til leiðast og kom aftur til þeirra starfa nú í haust. Aðallega vegna þess að samstarfskona mín - fiðlukennarinn - er algjör snillingur í að gera þessa tíma skemmtilega.
Og þessa dagana er ég í því að sanna á sjálfri mér kenningu sem ég er alltaf að benda nemendum mínum á: Þegar maður rifjar upp gömul lög, verður maður alltaf jafn hissa á því hvað maður var fljótur að gleyma þeim. - Svo eftir augnablik verður maður ennþá meira undrandi á því hvað maður er fljótur að ná þeim aftur.
Læt til gamans fylgja mynd af frumburðinum mínum, sem lærði á fiðlu í 3 ár, en sagði mér ekki fyrr en mörgum árum seinna að hún hefði alltaf verið að drepast í herðunum og nánast öllum skrokknum, þegar hún spilaði. Þegar maður skoðar þessa mynd, sér maður augljóslega ástæðuna; hún var látin hafa allt of stóra fiðlu. Ef ég hefði áttað mig á því þá, - væri hún kannski fiðlusnillingur í dag.
Lifið heil.
Athugasemdir
Svaka sæt mynd af Berglindi.
Það var mjög gaman að lesa pistilinn þinn um Vindáshlíð og enn þá skemmtilegra að þér skildi líka svona vel í flokknum.
Takk fyrir að láta mig vita að þú værir komin á staðinn um daginn, hvur veit nema við hitttumst þar að ári.
Brynja frænka.
Brynja (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 16:51
Við Berglind vitum allt um sinfóníuæðið á níunda áratugnum. Þegar maður vildi helst horfa á Stallone-myndir með vinunum var maður dreginn á tónleika með sinfóníunni eða einhverjum blásarakvintett í Gerðubergi. Tja, nema þegar maður fór á myndlistasýningar á Kjarvalsstöðum eða norræna kvikmyndahátíð í Regnboganum.
Kannski hafði maður gott af þessu svona eftir á að hyggja. Ég hef alla vega getað dundað mér við það mín fullorðinsár að horfa á 80´s myndir sem ég missti af sem barn.
Bjarki (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 09:17
Já Bjarki minn. Ég hef einmitt oft velt því fyrir mér, hvort ég ætti ekki sök á óbeitinni sem þú hefur á iðandi mannlífinu í Reykjavík. Fyrstu árin okkar fyrir sunnan var ég svo sólgin í menninguna, og dró ykkur með mér á herlegheitin. Berglind var 5 árum eldri, svo hún krafðist þess fljótlega að fá að leika við vinkonur sínar, meðan þú þurftir að fara með mér á tónleika, listsýningar - og að ógleymdum sálarstríðsmyndunum (þú varst ótrúlega ungur þegar þú fórst að gefa uppáhalds kvikmyndahátíðarmyndunum mínum þetta nafn). Mér hefur því miður greinilega tekist að bólusetja þig.
Laufey B Waage, 12.9.2007 kl. 10:26
Nei sem betur fer Laufey mín. Því við viljum eiga hann hérna
En það eru ekki bara konur sem eru vel ernar í dag. Pápi minn fæddist 1918 og hann er sko vel ern og flottur. Nýtur sín í botn innan um dömurnar á Hlíf, en þangað flutti hann í sumar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.9.2007 kl. 11:06
En dæmigert fyrir Berglindi að vera svona RÖKRÉTT!!!! Klár kona. Sonur þinn er duglegur og klárar alltaf matinn sinn :)
Ylfa Mist Helgadóttir, 13.9.2007 kl. 17:10
Ég vil taka það fram að kenningin mín um frostavetursbörnin, eins rökrétt og hún er, er með öllu óvísindaleg og ófagleg, og alveg áreiðanlega vitlaus. Það er alla vega mín reynsla í heilbrigðisvísindunum að heilbrigð skynsemi skilar manni ótrúlega oft snarvitlausum niðurstöðum.
Og ég vil líka taka fram að minningar mínar um sinfóníutónleika og kvikmyndahátíðir eru mestmegnis á jákvæðu nótunum. Ég hef sennilega ekki óverdósað jafn rosalega og bróðir minn, enda ekki flúin á landsbyggðina enn :-)
Berglind (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 20:14
Áhugavert þetta Suzuki nám. Ég er í Suzuki kennaranámi og það væri gaman að vita hvað þessi samstarfskona þín heitir og hvar þið vinnið, því hluti af náminu er að fylgjast með kennslu annarra. Bestu kveðjur.
Guðrún Markúsdóttir, 15.9.2007 kl. 23:28
Þakka ykkur öllum fyrir kommentin.
Guðrún: Kennarinn heitir Helle (dönsk kona - talar íslensku) og Suziki-deildin okkar er í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Við erum alveg rosalega skemmtilegar. Á ég að nefna þetta við hana?
Laufey B Waage, 16.9.2007 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.