17.9.2007 | 23:06
Vinsæl.
Fyrir um það bil áratug síðan gripu mig af og til þær ranghugmyndir að ég ætti enga vini. Það sem ég hafði helst til marks um það, var að öllum vinum mínum (sem ég átti ekki?) var boðið í brúðkaup um aðra hverja helgi og fertugsafmælisveislu hina helgina (örlítið ýkt). En aldrei bauð enginn mér ekki neitt. Aumingja ég var allar helgar alein heima með mitt popp og video.
Eitt skiptið þegar ég sat vælandi við eldhúsborðið hjá vinkonu minni, var hún svo andstyggileg að skella á mig umbúðalausum staðreyndum: "Þú giftir þig nú í kyrrþei síðast, - bauðst ekki einu sinni mér" (næst þegar ég gifti mig, leyfði ég henni að vera svaramaður). Og hvað bauðstu mörgum í fertugsafmælið þitt?" (Ég bauð fjórum (börnunum mínum og þáverandi eiginmanni) - það mættu þrír). "Ég bauð þér minnsta kosti í fertugsafmælið mitt", sagði vinkonan og hélt áfram að pakka inn gjöf fyrir brúðkaup eða fertugsafmæli helgarinnar sem fram undan var.
Ég skildi þegar skall í tönnum - og hófst handa við að breyta þessu sjálfsvorkunnarviðhorfi mínu. Mér varð alla vega það vel ágengt, að mörgum árum áður en ég varð fimmtug, varð ég staðráðin í að halda veglega stórhátíð á þeim merku tímamótum. Ég stóð heldur betur við það - og þaðan eru þessar myndir - teknar fyrir rúmu ári síðan.
Rúmlega hundrað manns voru á staðnum - og var það samdóma álit viðstaddra, að þetta væri sú allra skemmtilegasta veisla sem þau hefðu verið í. Og það fannst mér víst ábyggilega líka.
En það kom mér virkilega á óvart að ég hefði getað boðið margfallt fleira fólki. Það voru nálægt 140 á boðslistanum (ég tók sjensinn á afföllum - salurinn tekur 110-120), en ég hefði alveg getað tvöfaldað þann lista. Ótrúlega margir vinir og ættingjar sem ég er í góðu sambandi við - og hefði gjarnan viljað bjóða. Enda er ég oft að hitta hina og þessa vini mína, sem ég er alveg miður mín yfir að hafa ekki boðið. Svo ég er heldur betur búin að éta ofan í mig þetta rugl með vinaleysið.
Og það er eins og við manninn mælt, - síðan eru bara eilíf veisluhöld. Maður uppsker víst stundum eins og maður sáir. Meira að segja vinkonur mínar á mínum aldri eru að gifta sig.
Og núna á laugardagskvöldið fór ég meira að segja í tvöfalda fimmtugsafmælisveislu. Þ.e. hundrað ára afmæli hjóna. Hún varð fimmtug á laugardaginn, en hann fyrr á árinu.
Ætli þetta sé partur af lögmálinu í Secret-bókinni, sem allir eru að mæra í hástert um þessar mundir? Samkvæmt þeim lögmálum á maður víst að hugsa og tala til sín það sem mann langar í. Ég hef lengi vitað um sannleiksgildi þess sem Luise Hay orðar svo í einni af sínum bókum: Það sem þú beinir huga þínum að það vex. Jákvæðu staðhæfingarnar sem ég lærði af þeirri góðu konu hafa bjargað miklu í mínu lífi, það gæti ég sagt ótrúleg dæmi um, ef ég héldi ekki að ykkur þætti komið nóg í bili.
Lifið heil.
Athugasemdir
Hey! Flottar myndir úr afmælinu þínu. Maður er akkúrat jafn vinsæll og mann fýsir að vera.
Ylfa Mist Helgadóttir, 18.9.2007 kl. 18:11
Já, það er sko nóg að vinum og lífi og fjör í kringum þig. Ég hef lítið hellt mér út í lífsspekiheilræðin að undanskyldu því að alltaf þegar ég spila Catan þá er þessi setning, sem þú nefnir og er höfð eftir Luise Hay, mér ofarlega í huga. Þá forðast ég það eins og heitan eldinn að hugsa "sjö". Kemur nú til af því þú sagðir þetta einhvern tíma við Berglindi í þessu góða spili. Ég er reyndar ekki alveg viss hvort að Hay hafi verið með Catan í huga þegar bókin var gefin út.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 07:17
Þetta er svo sannarlega góð speki. Það sem þú sendir út færðu til baka elskuleg, það er svo einfalt. Knús til þín. Og já flottar myndir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.9.2007 kl. 09:08
Takk elskurnar. Verð að geta þess að Sara vinkona mín var hirðljósmyndari í afmælisveislunni minni (gaf mér svo afraksturinn). Ég var svo hrikalega mikið aðal, að það var bara tú möts fyrir mig að halda á myndavél.
Laufey B Waage, 19.9.2007 kl. 10:56
Höfundarréttur er mikið til umræðu þessa dagana í blöðum og svoleiðis, þannig að ég vil benda á að síðasta myndin af einka syninum og frú er mín smíð þó að sonur hirðljósmyndarans sé einnig á henni (það er sko þessi í ljósu fötunum ekki standandi persónan baka til-í bláa dressinu- sú frú er nefnilega skyld mér).
Kveðja frá Southpark !
Brynja (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 02:17
Fyrirgefðu Brynja, hræðileg handvöm af minni hálfu að gá ekki, áður en ég skellti þessu fram eftir minni. Eins og ég var nú ánægð með allar þessar frábæru myndir sem þú tókst (gersamlega óbeðin) og gafst mér.
Njóttu lífsins í Southpark.
Laufey B Waage, 22.9.2007 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.