19.9.2007 | 11:39
Gulur borði og skólastrákar.
"Mér líður eins og ég búi í kosningamiðstöð" sagði stúlkubarnið mitt í gærmorgunn þegar búið var að skreyta húsið okkar með þessum gula borða. Ef ég væri búin að læra að tengja við frétt á mbl.is, mundi ég gera það núna. En ég bara les morgunblaðið mitt alltaf á prentuðum pappír. Og fréttin frá íbúafundinum í húsinu mínu er á bls.17 í blaðinu í dag. Síðan ég flutti hingað hef ég verið alsæl og yfirmáta hamingjusöm með að búa á besta stað í heimi. En það gætu fallið skuggar á þá alsælu ef fyrirhugaðar landfyllingarframkvæmdir verða að veruleika.
Önnur frétt vakti athygli mína í blaðinu í morgunn. Á baksíðu og á bls. 6 er talað um brottfall drengja úr háskólanámi. Af innskráðum körlum, útskrifast aðeins 53%, versus 96% hjá konum (ef ég skil fréttina rétt, hún var dáldið loðin, - en alla vega voru þessar prósentutölur nefndar). Ég hef lengi vitað, að grunnskólinn er meira miðaður við námseiginleika stúlkna - og þess vegna dapurlegt hvað drengir njóta sín of ekki sem skildi þar. En það hafði aldrei hvarflað að mér að það sama ætti við í háskólanum. Kannski er eitthvað annað sem hangir á spýtunni. Fróðlegt að vita hvað. Kannski mistókst bara að byggja þá upp sem námsmenn strax í upphafi, vegna þess hvað grunnskólinn er "stelpumiðaður". Alla vega þarf að skoða þetta og finna leiðir til úrbóta. Hjallastefnan held ég að sé mjög góð tilraun í þá átt. Gaman væri að fá ykkar álit.
Lifið heil.
Athugasemdir
Hvaða framsóknarmennska er þetta að vera á móti landfyllingu við Ánanaust, mamma? Á ekki að nota hana undir eitthvað gífurlega nytsamlegt, eins og hátæknisjúkrahús eða þekkingarþorp?
Það er kannski ekki að marka mig, ég er svo mikill landfyllingarsinni. Helst vildi ég fylla upp í Pollinn á Ísafirði og byggja þar go-kart braut. Svo væri alveg skoðandi að fylla upp í Fljótavíkurós og koma þar á fót járnblendiverksmiðju.
Bjarki (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 10:51
Hehehehe Bjarki, þetta er þér líkt. Hvað með Kajak og sjóþotur og svoleiðis ? Gó Kart ?
En í alvögu ég hef heyrt þetta um að skólar séu stelpumiðaðir. En hef ekki hugsað út í það mikið. Minn stubbur stendur sig rosalega vel í skólanum, hann er með 9 og 10 í lestri og tengdum fögum, en slappari í reikningi og slíkum greinum.
En ég er mjög jákvæð fyrir þessari Hjallastefnu í leikskólum. Held að það geti verið gott að hvort kyn um sig fái það sem hentar hverju sinni. En ekki þessi eilífið samanburður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2007 kl. 09:00
Bjarki minn: Mér finnst að þú eigir að nota þessar hugmyndir sem kosningaloforð næst þegar þú stofnar stjórnmálaflokk fyrir þinn bæ eða þitt kjördæmi. Sem minnir mig á: Hvar er rússibanavatnagarðurinn í Önundarfirði, og hvað það nú var allt saman, sem þú lofaðir kjósendum þínum þegar þú stofnaðir Fönklistann?
Laufey B Waage, 22.9.2007 kl. 10:51
Við komumst ekki til valda, vorum í minnihluta. Þess vegna, og EINGÖNGU þess vegna, er ekki vatnaveröld í Önundarfirði og engir elgir uppi á heiði. Þetta voru að vísu strangt til tekið ekki mínir kjósendur, þar sem ég var tveimur vikum of ungur til að taka sæti á listanum. Ef þú hefðir drattast til að eiga mig á fyrirfram ákveðnum tíma, þá hefði ég kannski getað orðið varabæjarfulltrúi, eða alla vega nefndarmaður.
En það verður að gera eitthvað í atvinnulífi Fljótvíkinga, sem hefur beðið mikinn hnekki síðustu öld eða svo. Samkvæmt nýjustu tölum er þar 100% atvinnuleysi. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðast í landfyllingar svo hægt verði að koma á fót járnblendiverksmiðju.
En þú gleymdir að segja mér hvað á að vera á landfyllingunni þinni?
Bjarki (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 16:14
Það stendur víst til að setja þarna einhverjar hallærislegar íbúðablokkir. Mætti ég þá frekar biðja um go-kart braut. Helst ekki járnblendiverksmiðju. En ég er fyllilega sátt við lýsisverksmiðjuna sem var færð á Grandareitinn hérna ská fyrir framan mig.
Mér finnst að Fljótvíkingar ættu að halda sig við landnytjar. Bláberjasultugerðarverksmiðja er alveg tilvalin þar. Og svo er heldur betur inn að nýta hvönnina. Angelica er rándýr og eftir því vinsæll lífselexír, framleiddur úr hvönn. Og það hlýtur að vera markaður fyrir hvannarótarbrennivín meðal Fljótvíkinga, sem og annara Slétthreppinga. Nú og niðursoðinn Sykrung mætti markaðsetja í nágrannalöndunum.
Laufey B Waage, 24.9.2007 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.