23.9.2007 | 23:27
Messur og veislur.
Í dag var tveggja messu dagur og tveggja veislu dagur. Vilberg Samúel var skírður í langri messu í Dómkirkjunni í morgunn. Ég ímynda mér að messan hafi verið svona löng, vegna þess að bæði biskupinn og prófasturinn tóku þátt í henni, auk tveggja Dómkirkjupresta og miðborgarprests. Ekki það að hver vígður maður hafi lengt messuna með málæði eða því um líku, heldur ímynda ég mér að Dómkirkjuprestarnir hafi ekki viljað sleppa neinu ritúali, fyrst hinir háu herrar voru á staðnum. En þetta er nú bara mín hugmynd, gersamlega óábyrg. Tvö önnur börn voru skírð (tvíburarnir Atli Freyr og Breki Freyr) og allir þessir nýskírðu drengir eiga furðu mína og aðdáun, vegna þess hve þeir voru góðir. Það heyrðist hvorki hósti né stuna frá þeim þennan rúma einn og hálfan klukkutíma sem messan stóð, - hvað þá grátur.
Þá var þessi fína skírnarveisla til heiðurs nýskírðum Vilbergi Samúel. Að henni lokinni þeysti ég beint í næstu veislu, sem var 90 ára afmælisveisla hjá einni af gömlu hressu konunum sem ég nefndi í þarsíðasta bloggi. Dagurinn endaði svo þar sem hann byrjaði - í Dómkirkjunni, í fyrstu Æðruleysismessu komandi vetrar. Ég elska þær messur, - hef sótt þær í 3 eða 4 vetur.
Prinsessan á bænum varð 17 ára á í fyrradag. Það kvöld hélt hún matarboð fyrir bestu vinina (hátt í 20 manns). Samkvæmt íslensku hefðinni - annar í öllu - var svo afmæliskaffi fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi (þá sem voru á suðvesturhorninu) í gær.
Segiði svo að það sé aldrei neitt um að vera hjá mér.
Njótið lífsins - lifið heil.
Athugasemdir
Verð að bæta við þetta örlitlu sjálfshóli. Í Æðruleysismessunni í gærkvöldi voru sungnir 5 sálmar. Mín opnaði aldrei sálmabókina, en söng þó með, hvern einasta tón, hvert einasta orð, öll erindin. Hafði gert mér það til dundurs (hugarleikfimi og eflingar andans) í bakveikikastinu í sumar, að læra nokkra sálma utan bókar. Þar á meðal voru þessir 5, sem sungnir voru í gærkvöldi.
Laufey B Waage, 24.9.2007 kl. 09:26
Sæl frænka,
Mikið vildi ég að ég hefði drifið mig í æðruleysismessuna í gærkveldi, ætlaði að morgni en lét svo annað ganga fyrir þegar leið á daginn svona er þetta. Eigðu góðan dag,
Þórunn frænka þín.
Þórunn Jóhannsdótir (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 16:06
Til hamingju með Vilberg Samúel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.9.2007 kl. 09:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.